9.7.2016 | 22:32
Miningar IV.
Rukkun fyrir tímavinnu.
Ég á margar góðar minningar um viðskipti mín við Óskar Matt skipstjóra og frænda minn. Hann gat verið skemmtilegur og stundum stríðin og vildi líka hafa vit fyrir okkur peyjunum eins og kemur hér fram í þessum minningarbrotum.
Það tíðkaðist ekki fyrstu árin sem ég var vélstjóri á Leó að rukka fyrir tímavinnu sem unnin var á milli úthalda, þetta var ekki bara hjá Leó útgerðinni heldur hjá flestum minni útgerðum í Eyjum.
Þessu var öðruvísi háttað hjá stærri útgerðum sem voru með marga báta eins og Fiskiðjan, Hraðfrystistöðin og fl. þar voru allir tímar sem unnir voru milli úthalda borgaðir. Við vorum því hvattir frá stéttarfélögum í Eyjum að vera ekki að gefa útgerðinni þessa vinnu og ákváðum að skrifa tímana okkar sem við unnum við vélaviðhald og málningarstörf sem unnin voru við bátinn milli úthalda.
Óskar Matt var nú einn af þeim útgerðarmönnum sem alltaf borguðu samkvæmt samningum þannig að hann tók ekki illa í það að borga fyrir þessa vinnu. Ég byrjaði því að skrifa tímana mína í litla vasabók, skrifaði alla tíma sem ég vann, líka þegar ég þurfti að fara um helgi og nætur til að huga að olíu ofni í lestinni. Þannig var að eftir vertíðina var báturinn stundum málaður að utan og lestin þurkuð og máluð, til að þurrka lestina var notaður svokallaður strompofn sem hitaði mjög vel, en þurfti að passa vel uppá vegna eldhættu.
Þegar kom að því að rukka fyrir vinnuna, skrifaði ég bara 8 tíma á dag en sleppti næturvinnutímunum. Ég man að reikningurinn var kringum 12000 kr sem ég ætlaði að nota til að fara til Reykjavíkur í nokkra daga með vinum mínum Sigurjóni A. Tómassyni og Þorvarði Þórðarsyni, það átti vel að duga í þá ferð.
Ég fór nú með reikninginn heim til Óskars og var með litlu tímavasabókina í rassvasanum, datt í hug að Óskar færi að stríða mér og rengja mig með tímana svona í fyrsta skipti sem ég rukkaði fyrir þá. Þegar ég kem á Illugagötu 2 situr Óskar inn á skrifstofu sem var inn af eldhúsinu en þóra kona Óskars í eldhúsinu eins og oftast þegar maður rak þar inn nefið. Ég gekk beint inn til Óskars og læt hann hafa reikninginn og ætlast til að hann skrifi strax ávísun upp á 12000 krónur. Ég sat í eldhúsinu með kaffibolla sem þóra hafði komið með og fylgdist með Óskari inni á skrifstofu vera að skrifa eitthvað og virða fyrir sér reikninginn.
Allt í einu kallar hann á mig og segir, þú hefur ekki unnið alla þessa tíma Sigmar Þór þú þarft ekki eð segja mér það, og með það sama sé ég að hann rífur reikninginn í marga parta og hendir honum í ruslakörfuna. Eftir smástund bað hann mig að koma og skrifa upp á nýjan reikning sem hann taldi réttann. Ég sagði geta sýnt honum að ég hefði unnið alla þessa tíma og miklu fleiri og tók nú upp litlu vasabókina með tímunum, spurði hvort hann vildi sjá hana ? . Hann sýndi því engan áhuga en bað mig að koma og kvitta á nýja reikninginn.
Nú var farið að fjúka í mig og ég sem var nú ekki vanur að rífast við Óskar frænda minn, sagði við hann að ef hann borgaði mér ekki það sem ég setti upp þá mætti hann bara eiga þessa tíma, ég ætlaði ekki að skrifa upp á annan og lægri reikning. Þóra var nú farin að blanda sér í málið og biðja Óskar að vera ekki með þessa þvermóðsku.
Eftir smá þras kemur Óskar fram með nýja reikninginn en enga ávísun og biður mig að skrifa undir hann. Ég neitaði án þess að líta á reikninginn. Neitarðu að skrifa undir þetta segir hann og ýtir reikningnum alveg að mér þannig að hann blasir við. Nú tek ég eftir því að hann er ekki búinn að lækka reikninginn heldur er hann búinn að hækka hann um meira en helming, hann er nú yfir 24000 í stað 12000. Ég var náttúrulega fljótur að skrifa undir þennan nýja reikning og þakka fyrir því þetta voru miklir peningar á þessum tíma.
Nú spurði ég frænda um ávísunina, sagði að mig vantaði peningana því ég væri að fara til Reykjavíkur daginn eftir og væri búin að panta flug og verð í bænum í nokkra daga. Þá svaraði Óskar glottandi að ég fengi enga peninga, hann ætlaði að gera upp alla skattaskuldina mína, en á þessum tíma var skattur alltaf greiddur eftir á. Þetta var auðvitað góður kostur fyrir mig þó ég væru ekki sáttur við að fá ekki peningana í hendurnar. Óskar sagði nóg að gera fyrir okkur peyjana, ég hefði ekkert að gera með að slæpast til Reykjavíkur. Ég sagði að við værum búnir að gera allt sem þurfti að gera í vélinni og ég ætlaði taka mér frí og fara í bæinn. Hann stóð fastur á sínu eins og vanalega, ég fékk ekki peningana en hann borgaði upp alla skattaskuldina mína sem var auðvitað mjög gott. Það var ekkert annað að gera en að sætta sig við þessi málalok, það var maður búin að læra að það gekk ekki að þrasa við Óskar frænda minn ef hann var búinn að taka einhverja ákvörðun. Ég sleppti þó ekki Reykjavíkurferðinni en þurfti að fá smálan til að komast í afslöppun til Reykjavíkur í nokkra daga.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.