Minningar frá vetarvertið III.

Skemmtilegir skipsfélagar

Sveinn Íngi PéturssonSveinn Ingi Pétursson frændi minn var á Leó með okkur að mig minnir 2 vertíðir hann var skemmtilegur skipsfélagi og mikill grínisti. Ég man að hann sagði oft við okkur skipsfélaga þegar við vorum bæði þreyttir og pirraðir við netadráttinn: "Ég má vera mikið svangur drengir mínir ef ég læt hafa mig í að vera aðra netavertið á þessum netabátum, þetta verður mín síðasta vertið á þessum þrælagaleðum og svo glotti hann sínu sérstaka stríðnibrosi".

Ég man vel eftir því að á lokadaginn þegar við vorum að ljúka við að draga síðustu trossuna upp úr sjó og endanetið kom inn fyrir netaspilið, þá náði hann í hníf og skar endann af hringjateininum. En á endateininum eru tveir flothringir. Eftir að hann hafði skorið þetta af lyfti hann því upp fyrir höfuð sér og sagði hátt og snjallt: Þetta ætla ég að eiga til minningar um síðustu netavertíðina mína og svo skellihló hann. Það er ekki að orðlengja það, Sveinn Ingi var náttúrulega kominn á net á næstu vertíð eins og við allir skipsfélagar hans.

Vildi ekki minnka bátinn.

Eins og áður hefur komið fram var ég vélstjóri á Leó og eftir vertíð þurfti að sinna ýmsu hvað varðar viðhald í vélarrúminu eftir vertið. Þetta tók nokkra daga og samtímis var báturinn málaður utan.

Reynir VE 15 1963Eitt sinn var Guðmundur málari á Lyngbergi og sonur hans Már fengnir til að mála bátinn að utan, lunningar, möstur og stýrishús. Á þessum tíma vorum við Sigurjón Óskarsson að vinna í vélarrúminu við viðhald og fl. Eitt sinn þegar ég kem upp úr vélarrúminu til að fá mér frískt loft kemur Guðmundur til mín og spyr mig hvort ekki megi hafa sama lit á innanverðri lunningunni allan hringinn. Hún var hvít miðskips en grá undir hvalbak og aftur undir hekkboganum. Ég saði honum að þetta yrði hann að ræða við Óskar Matt útgerðarmanninn hann réði þessu. Óskar var þá að koma niður bryggjuna.

Ég sá að Guðmundur fór upp á bryggju til að ræða þetta við Óskar. Þegar hann kom til baka spurði ég hann hvað Óskar hefði sagt við því að hafa sama lit á lunnigunni allan hringinn. Óskar vildi alls ekki breyta þessu, sagði að það myndi minnka bátinn að hafa sama lit á þessu. Auðvitað fer ég bara eftir því, ekki vil ég fara að minnka bátinn fyrir kall greyinu sagði Guðmundur og glotti. Lunningin var því máluð í tveimur litum.

Við ráðum ekki alltaf för.

Eitt atvik frá þessum tíma sem ég var á Leó er mér í fersku minni. Þannig var að við Sigurjón höfðum pantað olíu á bátinn sem útgerðin keypti frá BP og Ólafur Árnason oft kendur við húsið Odda afgreiddi okkur með. Við vorum búnir að landa og ganga frá en áttum eftir að taka olíu. Það var oft mikið að gera hjá Óla í olíunni eins og við kölluðum hann vélstjórarnir þannig að við þurftum stundum að bíða eftir honum en hann afgreiddi skipin eftir röð. Það kom í minn hlut í þetta sinn að bíða eftir olíunni og þurfti ég að bíða óvenju lengi, þannig að ég var orðinn nokkuð óþolinmóður. Flestallir bátar voru búnir að landa og ekki margir menn á bryggjunni.

myndir026[1] Loks kom Óli með olíuna við fylltum olíugeyma, ég kvittaði á olíunótuna og þar með var Óli farinn. Nú gekk ég frá niðri í vél og læsti stýrishúsi og gat nú loks komið mér heim á leið. Við lágum við norður kantinn inni í Friðarhöfn . Á leiðinni heim labbaði ég meðfram vestur bryggjukantinum og þegar ég er komin svona miðja vegu við kantinn sé ég að litill peyi kemur hjólandi niður bryggjuna og tek eftir að hann er fastur í keðjunni á hjólinu. Hann beygir hjólinu að bryggjukantinum og ætlar að setja fótinn á kantinn og stoppa þar, en rennur af bryggjukantinum og að bát sem lág við bryggjuna, hann var heppin að það var háflóð því stýrið á hjólinu krækist í lunninguna á bátnum við bryggjuna. Ég hljóp til drengsins og náði að krækja stýrinu af lunningunni og kippa peyanum sem var fastur í keðjunni inn á bryggjuna. Þarna kom ég á hárréttum tíma því báturinn var að fara frá bryggjunni því sog var í höfninni. Hefði ég ekki komið þarna hefði drengurinn örugglega farið í sjóinn milli skips og bryggju fastur í hjólinu. Þarna hefði getað farið illa ef ég hefði ekki verið þarna á réttu augnabliki. Ég hjálpaði svo peyanum að losna úr keðjunni og hann hjólaði heim á leið. Það sem fór í gegnum huga minn var að seinkunin á olíunni varð til þess að bjarga lífi þessa drengs, ég er ekki í vafa um það að þetta var ekki tilviljun, að ég kom þarna á réttu augnabliki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband