12.11.2015 | 22:31
Góð grein um öryggismál í Bæjarins besta
Öryggismál sjómanna í forgang!
Öryggismál sjómanna hafa mikið verið í umræðunni undanfarið í ljósi hörmulegs sjóslyss sem varð í sumar þegar Jón Hákon BA–60 sökk út af Aðalvík og einn maður fórst en þrír komust lífs af þegar nálægur bátur kom þeim til bjargar á ögurstundu.
Myndir úr neðansjávarmyndavél sýna að sjálfvirkur sleppibúnaður virkaði ekki og björgunarbátar opnuðust ekki þegar á reyndi.
Það vakti einnig athygli nú á dögunum, þegar sanddæluskipið Perlan sökk í Reykjavíkurhöfn, að sleppigálgi virkaði ekki sem skyldi. Björgunarbátar skipsins, sem eru einn mikilvægasti öryggisþátturinn sem sjómenn reiða sig á, opnuðust ekki.
Rannsóknarstjóri sjóslysanefndar segir af þessu tilefni að það komi til greina að endurskoða verklags- og öryggisreglur. Já, þótt fyrr hefði verið!
Allt frá því að Jón Hákon BA–60 sökk sl. sumar hafa komið fram fjölmargar áskoranir frá sjómannasamtökum, félagasamtökum, sveitarfél ögum og almenningi í landinu um að skipsflakið verði sótt á hafsbotn svo rannsaka megi til fullnustu orsakir þess að hinn mikilvægi öryggisbúnaður virkaði ekki þegar slysið varð. Allt verður að gera til þess að rannsaka hvað veldur því að sjálfvirkur öryggisbúnaður bregst þegar á reynir.
Ég hef tekið þessi mál upp í þinginu ítrekað og reynt að hreyfa við rannsókn málsins eins og mögulegt er. Enda þótt vísað hafi verið til þess að rannsóknanefnd samgönguslysa sé sjálfstæð í störfum sínum þá tel ég það vera skyldu okkar þingmanna að sinna eftirlitshlutverki bæði hvað varðar það að tryggja að eftirlit með öryggisbúnaði sé tryggt og að nægar fjárveitingar séu til rannsókna sjóslysa enda þótt verkefni á þeim vettvangi geti reynst umfangsmikil eins og það að ná skipsflakinu af Jóni Hákoni BA–60 upp af hafsbotni í þágu rannsóknarinnar á slysinu.
Til þess að fara yfir þessi mál hef ég fengið til fundar við atvinnuveganefnd á tveim fundum í liðnum októbe r mánuði fjölda gesta sem málið varðar, s.s. rannsóknarnefnd samgönguslysa, fulltrúa sjómannasamtaka, SFS, LS, eftirlitsaðila, fulltrúa framleiðenda öryggisbúnaðar um borð í bátum og skipum, fulltrúa úr innanríkisráðuneytinu og forstjóra Samgöngustofu.
Þessir fundir hafa verið mjög upplýsandi og til góðs þar sem þessir aðilar hafa farið yfir verkferla, skýrt hvar ábyrgð hvers og eins liggur og fjallað um mikilvægi þess að með ítarlegri rannsókn sjóslysa sé mögulega hægt að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig og draga megi þar með úr líkum á dauðsföllum og slysum til sjós í framtíðinni.
Það fer ekki á milli mála að við Íslendingar höfum verið mjög framarlega hvað varðar öryggi sjófarenda. Tilkoma Slysavarnarskóla sjómanna hefur skipt sköpum í þeim efnum ásamt því að hér á landi hefur verið þróaður ýmis björgunarbúnaður sem hefur bjargað fjölda mannslífa bæði á bátum og skipum.
Því vekur það mikinn óhug að ekki sé hægt að leggja fullt tr aust á þann sjálfvirka öryggisbúnað sem um ræðir og á meðan svo er upplifa sjómenn að þeir búi við falskt öryggi og aðstandendur þeirra eru áhyggjufullir.
Það er því brýnt að allir þeir sem koma að öryggismálum og slysavörnum sjómanna taki höndum saman um að komast til botns í því hversvegna sjálfvirkur björgunarbúnaður um borð í Jóni Hákoni BA–60 virkaði ekki.
Það hvílir einnig mikil ábyrgð á höndum Samgöngustofu, rannsóknarnefndar samgönguslysa og þeirra einkaaðila sem sjá um efirlit með öryggisbúnaði. Rannsóknin á ekki að ganga sérstaklega út á leit að sökudólgi heldur þarf fyrst og fremst að leiða í ljós hvað fór úrskeiðis og hvernig má koma í veg fyrir að slíkir atburðir endurtaki sig.
Rannsóknir á sjóslysum við Ísland eiga að vera í fremstu röð og unnar faglega og þar mega fjármunir ekki verða nein fyrirstaða því mannslíf eru þar í húfi.
Ég lýk þessari grein minni með því að taka enn og aftur undir kröfur sjómanna og anna ra þeirra sem láta sig öryggismál sjómanna varða um að tryggja verður öryggi sjófarenda og hraða rannsókn sjóslyssins á Jóni Hákoni BA–60 eins og kostur er á. Til þess að unnt verði að treysta niðurstöðum rannsóknarinnar til fulls verður að ná flakinu upp af hafsbotni eins fljótt og unnt er svo kanna megi björgunarbúnað bátsins.
Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður Vinstri grænna og varaformaður atvinnuveganefndar Alþingis.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.