10.1.2015 | 21:07
Stöðugleiki fiskiskipa varðar öryggismál sjómanna
Stöðugleiki fiskiskipa varðar öryggismál sjómanna Eitt af því sem fækkað hefur skipssköðum og þar með dauðaslysum á sjómönnum er mikið átak sem Siglingamálastofnun ríkisins og síðar Siglingastofnun Íslands gerðu í að mæla stöðugleika fiskiskipa, og í framhaldi af því var gerð krafa um lagfæringu á þeim skipum sem ekki stóðust stöðugleikakröfur. Undanfari þess var eftirfarandi: Samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar sjóslysa fyrir árin 1971 1986 höfðu farist á hafi 53 bátar og með þeim 100 menn, þrjár trillur og með þeim 3 menn og 6 flutningaskip og með þeim 11 menn. Samtals 113 menn á 15 árum. Af þessum 53 bátum sem farist höfðu á þessum árum var vitað að: 29 bátar höfðu farið á hliðina og/eða hvolft. 2 bátar hvolfdu vegna festu á veiðarfærum í botni. 13 bátar fórust og orsakir ókunnar nema veður var vont. 6 bátar fengu óstöðvandi leka og sukku. 3 bátar sukku eftir árekstur. Við nánari skoðun kom í ljós að vitað var um 31 bát sem hafði farið á hliðina eða hvolft og hefur slíkt gerst bæði í góðu og sæmu veðri. Af þeim 13 bátum sem fórust án þess að orsakir séu kunnar má með nokkurri vissu telja að hluti þeirra hafi einnig farið á hliðina eða hvolft. Af framantöldu má draga þá ályktun að alvarlegt vandamál íslenskra fiskiskipa sé tengt stöðugleika þeirra og vanþekkingar skipstjórnarmanna á stöðugleika skipa,, Þetta stöðugleikaátak hófst 1992 með því að stöðugleikamæla öll minni þilfarsskip á vestfjörðum en þetta átak var gert eftir mörg slys árin áður þar sem skip voru að farast og orsök talin ónógur stöðugleiki. Eftir að vestfjarðar skipin höfðu verið stöðugleikamæld var næstu árin farið allt í kringum landið og þessi smærri þilfarskip hallaprófuð. Mikið af þessum minni skipum voru með mjög lélegan stöðugleika og voru því sem við köllum stundum manndrápsfleytur. Þetta stöðugleikaátak var með samþykki Alþingis styrkt af ríkissjóði, hafi alþingismenn þökk fyrir það. Eftir að öll smærri skipin höfðu verið hallamæld var hafist handa um að hallamæla stærri skipin og þó að nú sé búið að hallamæla öll skip fyrir nokkrum árum, má segja að þetta átak standi en yfir því í dag mega stöðugleikagögn ekki vera eldri en 10 ára og þau verður að endurnýja ef verulegar breytingar eru gerðar á skipunum á þessum tíu árum. Árangur af þessi stöðugleikaátaki var verulegur, alltof mörg skip höfðu ekki stöðugleika í lagi og þurfti að lagfæra þau og nokkur skip voru hreinlega úreld þar sem kostnaður við lagfæringu var of mikill til að það borgaði sig. Þá má benda á að átak var gert í að kynna og fræða sjómenn um stöðugleika skipa bæði í stýrimannaskólum og með útgáfu á sérriti Siglingastofnunar Ríkisins er nefnist: ,,Kynning á Stöðugleika fiskiskipa,, hann var gefinn út 1988 og endurprentaður 1991. Þá var í júní 2003 gefinn út af Siglingastofnun Íslands endur bætt sérrit er heitir Stöðuleiki fiskiskipa. Í símsvara 902-1000 og heimasíðu Siglingastofnunar www.sigling.is er hægt að fá upplýsingar um veður og sjólag frá vitum og ölduduflum við Ísland eins og það er á hverjum tíma. Einnig er á heimasíðunni ölduspá og spá um hættulegar öldur og veður næstkomandi daga, spá um áhlaðanda í höfnum og yfir miðin umhverfis landið. Þetta er mikið notað af sjómönnum og er stórt öryggisatriði. Ég er ekki í vafa um að þetta átak Siglingastofnunar ríkisins og síðar Siglingastofnun Íslands í stöðugleikamálum smærri og stærri skipa, og útgáfa fræðslurita og nákvæmra upplýsinga um veður og sjólag hafa átt stóran þátt í færri skipssköðum og þar með færri dauðaslysum á sjómönnum. Kær kveðja Sigmar Þór Sveinbjörnson
Athugasemdir
Þakka þér fyrir mjög góða grein og það var tímabært að það yrði hreyft við þessum málum. Ég hef horft upp á 12 tonna bát koma að bryggju, hann var með 4 netatrossur á dekkinu, rúmlega 3 tonn af fiski í körum á dekkinu og svo ísaður að það var ekki minna en ein til tvær tommur þykktin á ísnum á hverju stagi og maður sá hversu svagur báturinn var þegar lagst var að bryggju. Í RAUNINNI ER ÉG BARA HISSA Á ÞVÍ AÐ BÁTURINN SKYLDI KOMAST AÐ BRYGGJUNNI. Á bátnum voru þrír menn og þegar ég spurði skipstjórann út í það hvort hann gerði sér grein fyrir því hvað hann hefði verið að gera með þessu, það væri augljóst að þyngdarpunktur bátsins væri kominn langt upp í mastur eða jafnvel upp fyrir það - Svaraði hann: Nei þetta er allt í lagi þetta er svo góður bátur..... og þegar ég svaraði Jú þetta er góður bátur - þangað til.... Fékk ég bara fúkyrðaflauminn yfir mig og var bara heppinn að geta vikið mér undan netasteinum sem hann kastaði að mér......
Jóhann Elíasson, 10.1.2015 kl. 22:18
Góð grein Sigmar. Eitthvað virðist enn nokkuð skorta á, því alltof víða er þetta eins og Jóhann lýsir hér að ofan. Slys verða enn vegna þess að besta björgunar- og forvarnartækið er ekki notað - það sem menn hafa á milli eyrnanna - eða ættu að hafa.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 10.1.2015 kl. 23:18
Heilir og sælir kæru bloggvinir Jóhann og Axel og takk fyrir innlitið og athugasemdir. Það virðast því miður fáir hafa áhuga á þessum málum í dag, þess vegna gleður það mig að þið skulið tjá ykkur um þessa færslu mína. Þetta er merkileg saga sem þú segir þarna Jóhann.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 12.1.2015 kl. 19:24
En því miður er þessi saga sönn og á sér margar hliðstæður einnig..............
Jóhann Elíasson, 13.1.2015 kl. 12:27
Sæll Sigmar, þegar þú skrifar það þá fatta ég að ég hef ekkert heyrt né lesið um björgunarmál undanfarið, eins furðulegt og það er nú.
Þessi saga sem Jóhann vinur okkar hér á blogginu er með ólíkindum, og það er ljótt að skrifa það, en þessum skipstjóra þarna sem hagaði sér eins og ASNI væri rétt í rassgat rekið, þó er ég á móti ofbeldi, enn maðurinn er með mannslíf í höndunum!
Annars er allt gott að frétta, nóg að gera á netaverkstæðinu, menn bjartsýnir á að bætt verði við loðnukvótann og allt á fullsving í Eyjum, nema þá Herjólfur, sem siglir í Þorlákshöfn og þó ekki alltaf.
Kær kveðja frá Eyjum.
Helgi Þór Gunnarsson, 16.1.2015 kl. 21:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.