Athygliverð grein eftir Mikael Torfason

1.460 Ísraelar og 63 Palestínumenn

Fastir pennar
kl 11:33, 02. ágúst 2014
1.460 Ísraelar og 63 Palestínumenn

Ímyndum okkur ef búið væri að drepa eitt þúsund fjögur hundruð og sextíu Ísraelsmenn – mest börn og saklausa borgara – og sextíu og þrjá Palestínumenn – mest vopnaða Hamas-liða. Já, dokum við og hugsum aðeins um hver afstaða heimsins til þessara átaka fyrir botni Miðjarðarhafs væri þá. Verðlaunablaðamaðurinn Robert Fisk orðaði þessa spurningu í bresku stórblaði í vikunni. Hann hafði svör á reiðum höndum og taldi sig vita að við slíka morðöldu af hendi Palestínumanna væri ekki unað.

Og hvað ætli utanríkismálanefnd Alþingis myndi segja? Eða Bandaríkjaforseti? Í fyrradag mótmæltu á þriðja þúsund manns fyrir framan bandaríska sendiráðið á Íslandi. Sveinn Rúnar Hauksson, einn forsprakka mótmælanna og formaður Íslands-Palestínu, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að ábyrgð Bandaríkjanna væri mikil og því hefði verið mótmælt fyrir utan sendiráð þeirra:

„Enn þann dag í dag byrja ræður leiðtoga Bandaríkjanna á því að endurtaka skilyrðislausan stuðning við Ísrael og árétta rétt ríkisins til að verja sig,“ sagði Sveinn í blaðinu í gær og bætti því við að „aldrei minnist nokkur maður á rétt Palestínu til að verja sig“.

Ætli allar ræður leiðtoga í Bandaríkjunum myndu hefjast á skilyrðislausum stuðningi við rétt Palestínumanna til að verja sig ef búið væri að drepa nærri fimmtán hundruð manns í Ísrael? Nei, ætli það.

Í tilkynningu vegna mótmælanna á fimmtudag kom fram að á árunum 2009 til 2013 fluttu bandarísk stjórnvöld vopn að verðmæti sjö hundruð og þrjár milljónir átta hundruð og fimmtíu og þrjú þúsund átta hundruð tuttugu og sex Bandaríkjadala til Ísraels. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað það væri erfitt að lesa úr þessari upphæð ef hún væri í íslenskum krónum. Sameinuðu þjóðirnar halda utan um hvaða vopn þetta eru. Jú, fimm hundruð níutíu og sex brynvarin farartæki, hundrað fjörutíu og eitt flugskeytakerfi, hundrað níutíu og tvær herflugvélar, hundrað tuttugu og átta herþyrlur og þrjú þúsund átta hundruð og fimm flugskeyti og eldflaugavörpur.

Jæja. Eigum við að ímynda okkur eitt í viðbót? Það að Palestínumenn væru búnir að sprengja upp skóla Sameinuðu þjóðanna í Ísrael og kannski sjúkrahús Sameinuðu þjóðanna líka. Í gær birtum við einmitt viðtal á Vísi við starfsmann Sameinuðu þjóðanna sem brotnaði niður og hágrét í beinni útsendingu. Hver ætli viðbrögð heimsins væru ef það viðtal hefði snúist um blóðbað í Ísrael af völdum sturlaðra Palestínumanna sem væru búnir að múra almenning í Ísrael inn í rafmagnslaust gettó og hikuðu ekki við að drepa börn og óbreytta borgara?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Þarna er hann, nakinn sannleikurinn, sem ótrúlega margir neita að horfast í augu við! Sorglegt.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 2.8.2014 kl. 13:51

2 identicon

Sæll Simmi

Á innan við mánuði eru búinn að birta 3 greinar um glæpi og hryllinginn af hálfu Ísraelsmanna. Ég hef ekki séð hjá þér athugasemdir um þúsunda eldflaugaárása á Ísrael (að meðaltali 3 á dag)! Ég hef ekki séð hjáþér hryggð yfir drápi á 3 unglingum af gyðingaættum. Það telst vera smámál?

Þegar gyðingar vita af eldflaug þá hafa þeir 15 sek til að hlaupa í skjól (loftvarnarbyrgi)! Þau eru til staðar!

Veistu af hverju börnin á Gaza hafa ekki skjól? Veistu af hverju þau deyja í tugatali og hafa ekki loftvarnarbyrgi til að flýja í?

Ein jarðgöng sem Ísaelar sprengja kosta að meðaltali eina milljón dollara (115milljónir ísl króna) og ekkert skjól fyrir börnin......konurnar eða.....gamalmennin?

Árið 2007 voru líka átök á Gaza og Ísraelar sagðir sprengja upp skóla. En seinna kom í ljós að sprengjubrotin væru úr vopnum Hamasliða! Gæti slíkt verið enn í gangi? Þeir fórna börnum sínum konum og gamalmennum fyrir áróðurinn og málstaðinn. Ég held að Mikael Torfason viti þetta alveg eins og ég.

Gætum þess að falla ekki fyrir hálfsannleika fréttanna sem hafa fegrað gjörðir Hamasliða og svert Ísraela að ástæðulausu. Gyðingarnir hafa margfalt betra siðgæði í vopnuðum átökum en allir aðrir herir. Auðvita geta orðið slys og skot geiga og saklsusir falla. En því má ekki gleyma að Arabarnir sjálfir koma málunum þannig í kring að þeirra fólki er fórnað til að okkur ofbjóði og við fáum andúð á gyðingunum! Það er þeim að takast all nokkuð.

k.kv

Snorri

snorri (IP-tala skráð) 3.8.2014 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband