8.3.2014 | 16:05
Eldgömul frétt um brimbát
Haraldur Guðnason heitinn sá góði vinur minn sendi mér oft skemmtilegan fróðleik um hvaðeina sem hann var að grúska, þessi skrif um Einar Magnússon járnsmiðameistara í Vestmannaeyjum sendi hann mér einu sinni þegar umræðan var sem mest um nýja höfn á Bakkafjöru. Það getur verið fróðlegt að rifja upp hugmyndir og drauma þeirra sem langaði til að bæta samgöngur við Eyjar hér á árum áður.
Einar Magnússon járnsmiður var fæddur 31. júlí 1892 í Hvammi undir Eyjafjöllum, dáinn 25. ágúst 1932.
Brimbátur Einars Magnússonar (Úr blaðinu Skeggi 29. t.bl. árið 1919)
Nýtt bátalag
Einar Magnússon járnsmiður gerði í vetur nýjan bát með spánýju lagi. Hann er ætlaður til uppskipunar við sandana og þannig útbúinn að sjór gengur ekki í hann og naumast á hann að geta ,, farið af kjölnum. Með honum á að takast að koma vörum úr landi og miklu oftar en með venjulegu aðferðinni, og fara auk þess miklu betur með fólk og farangur.
Báturinn er mjög lítill stuttur en víður og flatbotna og sterkur vel. Ætlast er til að hann þoli högg af brimsjónum.
Hann var reyndur á mánudag í landferð og fór Einar sjálfur til að sjá hvernig báturinn færi í sjó og lætur hann vel af því.
Segist hann helst hafa kviðið fyrir að hann mundi ekki fylgja löðrinu nógu langt upp í sandinn. ,, En það var þvert á móti, hann skreið lengra upp en ég gat gert mér vonir um,, segir Einar.
Bændur sem voru við tilraunina láta hið allra besta yfir og telja bátinn besta grip.
Enginn vafi er á því að slíkir bátar þykja ómissandi við sandinn.
Það er einhver munur á að láta sauðfé ofan í lokaðan bát, eða ferja það í opnum fjörubát gegn um brimið.
Svo er frá bátnum gengið að fólk getur farið í honum þó sjór gangi yfir hann jafnt og þétt, og jafnvel þó honum hvolfi. Er það stórmikill munur við sanda.
Einar hefur unnið þarft verk með því að smíða þennan bát og mun hann ekki vinna þar til fjár.
Grunaður er hann að eiga fleira í fórum sínum sem hann hefur ekki lokið við en þá, en hann fer dult með. Illt er það ef hann ætlar að eyða æfi sinni yfir götugum pottum og prímus hausum en láta bestu smíðar sínar ryðga til ónýtis.
Tilvitnun í skeggja líkur.
Þórður í Skógum hefur skrifað um Einar og hans fólk í Eyfellskum sögnum II bindi, þar er skrifað mjög fallega um þessa fjölskyldu sem ekki hefur alltaf haft mikið milli handana.
Athugasemdir
Sæll Simmi.
Fróðleg og skemmtileg grein um samgöngur við sandana á árunum áður.
Enn eru menn að brjóta heilan um Bakkafjöru hvað sé best okkur til handa, en ekki sér fyrir endan
á því enda margir sjálfskipaðir sérfræðingar að hræra í pottinum.
Kv. frá Eyjum Leifur í Gerði
Leifur í Gerði (IP-tala skráð) 10.3.2014 kl. 13:11
Heill og sæll Leifur og takk fyrir innlitið. Já rétt er það að margir eru sérfræðingarnir, en þetta er flókið mál og tekur örugglega langan tíma að leysa. Ég held að málið sé ekki það einfalt að það leysist allt með nýju skipi, því miður.
Kær kveðja úr Kópavogi
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 12.3.2014 kl. 10:01
Heill og sæll félagi. Þú þarft eiginlega að grafa upp eitthvað meira um þennan bát, þetta er árið 1919 er þá ekki hugsanlegt að eitthvað hafi verið tekin mynd eða þessháttar. Með góðri kveðju Heiðar Kristinsson
Heiðar Kristinsson (IP-tala skráð) 13.3.2014 kl. 11:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.