3.1.2014 | 20:20
Trillukall í Siglingastofnun
Siglingastofnun í spéspegli handrit að stuttmynd. Handritið er byggt upp af reynslu minni og missönnum sögusögnum um Siglingastofnun og skipaskoðunarmenn. J. Það er virkilega skemmtilegt og gefandi starf að vera skipaskoðunarmaður og umgangast sjómenn sem eru yfir höfuð skemmtilegir menn og oftar en ekki vinir mínir, þó komi einstaka sinnum fyrir að þeir eru ekki sammála þeim kröfum sem við skipaskoðunarmenn gerum til þeirra samkvæmt reglum. Sérstaklega finnst mér smábátasjómenn skemmtilegir því þeir eru meira sjálfstæðir . Ég veit að þetta handrit er frekar sniðið að sjómönnum eða þeim sem þekkja til sjómennsku, en kannski hafa fleiri gaman að þessari tilraun minni að gera handrit að stuttmynd um einn þátt sem sjómenn ganga í gegnum í starfi sínu. Auðvitað veit ég að þetta verður aldrei að kvikmynd en það gerir bara ekkert til, SÞS
Trillukarl og Siglingastofnun
Höfundur Sigmar þór Sveinbjörnsson
Persónur : Eyvindur deildarstjóri hjá Siglingastofnun, Sigurður Guðmundsson skipaskoðunarmaður kallaður Siggi, Leifur gæðastjóri fylgist nákvæmlega með, og eldri maður Ásmundur Einarsson trillukarl kallaður Ási.
(Ási kemur niður á bryggju á gömlum ryðguðum Toyota pallbíl, bíllinn er fullur af alskonar drasli sem viðkemur trilluútgerðinni, baujur drekar, línubalar, málningardollur, gamalt akkri og fl. Hann fer um borð í trilluna sína Túrillu RE 6 með slökkvitæki og gúmmíbjörgunarbát.)
Siggi Skipaskoðunarmaður: ( Kemur niður bryggjuna á bíl Siglingastofnunar og snarast út úr bílnum á bryggjunni við Túrillu RE valdmannslegur og strangur á svip)
Komdu sæll Ási minn, hann er aldeilis flott málaður hjá þér báturinn.
Ási : Já finnst þér það ekki enda var hér vandað til verka eins og vanalega ( hlær hrossahlátri) og öll vélin tekin í gegn líka. Það ætti nú ekki að vera mikil vandræði að fá skoðun og haffærniskírteini á hana Túrillu mína svona glæsilega og fína.
Siggi: (Fer ofan í bátinn og frammí lúkar). Við gerum ekki fulla vélskoðun núna hún er í gildi, hef ekki mikinn tíma Ási minn þú veist að við þessir opinberu starfsmenn erum störfum hlaðnir, (glottir til Ása) en við skulum fyrst líta á skipskjölin og vottorðinn hvar eru þau geymd hjá þér Ási ? Ertu ekki enn búinn að fá þér skipskjalamöppu?
Ási: Hvaða vottorð og skjöl vantar þig? Er ekki nóg að vera með þetta dót allt í lagi þurfið þið alltaf einhver vottorð og pappírssnepla með þessu drasli líka? Það er sem ég segi þið þrífist á þessu helvítis pappírsrusli, og haldið að skipin fljóti á þessum bréfsnepplum.
Siggi: Vertu nú ekki að æsa þig yfir þessu Ási minn þetta eru nú bara vottorð um að slökkvitæki, gúmmíbátur og sjúkrakassi sé í lagi, og svo náttúrulega þjóðernisskírteini og mælibréfið.
Ási: ( byrjar að leita í bunka af pappírum) Ég var með einhverja pappírssnepla hér um daginn, hef ekki hugmynd um hvar ég hef sett þetta bölvað pappírsdrasl, sennilega hent því þegar ég tók til eftir skveringuna. Getur þú ekki bara gleymt þessum bréfsnepplum þetta hefur hvort eð er ekkert gildi ?
Siggi: Nei nei það er ekki hægt ég verð að setja dagsetningarnar hér inn á skýrsluna svo hægt sé að færa þetta allt inn í Skipaskrá nú fer þetta allt í gegnum sérstakt gæðakerfi. Svona leyfðu mér leita að þessu ( Siggi gramsar í pappírsdraslinu) Hérna er þetta í plast pokanum sem ég gaf þér í fyrra. Ég vissi að þú værir með þetta hér um borð, þú ert bara orðin svo askoti gamall og gleyminn Ási minn. En þú mátt henda mest öllum þessum gömlu bréfsnepplum, þetta er mikið eldgamlir útrunnir pappírar sem þú hefur ekkert með að gera.
Ási: ( Er hálfvandræðalegur) Já blessaður hentu helst öllu þessu pappírsrusli, það má allt hverfa mín vegna, nema náttúrulega haffærniskírteinið það verð ég að hafa.
Siggi: Þú ættir á fá þér Skipskjalamöppu hún kostar ekki nema 2500 kall, þá ertu allaf með pappírana á sínum stað. Annars samlagast þú aldrei okkar ágæta þjóðfélagi svona pappírslega séð. ( tekur upp nýja skipskjalamöppu og sýnir Ása)
Ási: Já datt mér ekki í hug, ( hneykslaður og hellir úr eyrunum) ég ætti nú ekki annað eftir en að fara að kaupa rándýra möppu undir þessa anskotans pappíra, nei takk þú getur átt þína skipskjalamöppu sjálfur, ég kaupi sko enga möppu á 2500 kall. Mundi frekar kaupa mér einn brennivínspela fyrir þennan pening.
Siggi (Setur möppuna aftur ofan í töskuna) Þetta var nú bara hugmynd sem mér datt í hug, vegna þess að þú finnur aldrei þessi vottorð og skírteini þegar ég er að skoða hjá þér bátinn.
Ási: Láttu þér ekki dreyma um að ég kaupi þessa rándýru skipskjalamöppu eða hvað þetta nú heitir sem þú ert að reina að pranga inn á mig, hef ekkert við hana að gera.
Siggi: Settu vélina í gang Ási, við verðum að vita hvort hún er gangfær.
Ási: ( Setur vél í gang ) Hún malar fínt þó hún sé komin til ára sinna, 18 ára og ekki eitt feil púst.
Siggi : Já vélin virðist í lagi en ertu með smúldælu til að þrífa bátinn Ási, það er upp á hreinlætið, þú skilur heilbrigðiseftirlitið vill nú hafa hreinlætið í lagi.
Ási: Nei ég er ekki með smúlslöngu það er heldur engin skylda, ég nota bara fötuna til að skola bátinn.(veifar gamalli fötu til Sigga skoðunarmans)
Siggi: Já það er víst rétt hjá þér það er ekki skylda alla vega ekki í reglum. (Fer yfir pappírana og labbar svo um bátinn lætur kveikja siglingaljós og fiskveiðiljós). Heyrðu Ási ég er nú búinn að fara yfir þetta og það er nú flest í lagi en þó eru hér nokkrar athugasemdir sem þú verður að lagfæra: Það vantar íslenska fánann, sjókort og tæki til að setja út í kort, afturljósið og annað hliðarljósið logar ekki og flugeldar og blysin eru útrunnin, þau þarftu að endurnýja. Svo veist þú að samkvæmt nýjustu reglum á að vera klósett í svona stórum og glæsilegum bát sem er rúmlega 10 m á lengd, annað sýnist mér vera í lagi.
Ási: Ertu orðinn eitthvað bilaður að ætla að fara að heimta klósett í Túrillu, ég held nú síður svoleiðis óþarfi fer ekki um borð í mitt skip, það hefur aldrei verið farið fram á klósett fyr í þetta skip, ég ansa nú ekki heldur þessu með fánann og sjókort. Aðrar athugasemdir laga ég strax á eftir, á hér perur í afturljósið og hliðarljósið. (Hristir hausinn og hellir úr eyrunum og nær í nýjar perur í siglingaljósin).
Siggi: Ási, þetta eru bara reglur sem mér ber að fara eftir, ef þú neitar að lagfæra þær athugasemdir sem ég geri hér um borð, verður þú að ræða það við mína yfirmenn þegar þú kemur upp í Siglingastofnun að sækja haffærniskírteinið. Þú getur líka notað gæðakerfið okkar og sett inn kvörtun sem fer þá í ferli innan stofnunarinnar, og allt rekjanlegt. (Siggi fer upp úr bát glottandi með skjalatöskuna).
Vertu blessaður, við sjáumst upp í Stofnun seinni partinn þá verð ég búinn að færa skoðunina inn í tölvuna þ.a.s. skipaskrána.
Ási: Já ég kem uppeftir í dag og ræði við þessa fugla, heyrðu þú sérð að afturljósið er komið í lag Siggi minn og hliðarljósið verður lagfært á eftir.( bendir á logandi afturljósið og talar við sjálfan sig: þetta eru nú meiru rugludallarnir þessir skipaskoðunarmenn, hafa ekkert vit á alvöru sjómennsku á smábátum)
Seinna um daginn kemur Ási inn í Siglingastofnun í þykkri úlpu með kaskeiti á höfði.
Ási: (kemur inn á skrifstofu til Eyvinds deildarstjóra þannig að gustar af honum) Sæll ert þú Eyvindur yfirmaður skoðunarmanna hér í Siglingastofnun.
Eyvindur: Já ég er deildarstjóri og yfirmaður skipaeftirlitsdeildar, hvað get ég gert fyrir þig? og hver er maðurinn? (patar með hendinni með bundið mikið um meiddan putta)
Ási: Ég heiti Ásmundur Einarsson kallaður Ási og geri út trillu sem heitir Túrilla RE 6 skipaskránúmer 7777. ( verður svolítið vandræðalegur) Já jú það var sko verið að skoða hjá mér nýskveraðan bátinn og ég held að þessi skipaskoðunarmaður sem kom sé eitthvað meira en lítið ruglaður. Hann heimtaði íslenska fánann, sjókort og klósett í bátinn, ég ætlaði bara að láta þig stroka þessa vitleysu strax út af athugasemdarlistanum, svo ég geti fengið fullt haffærniskírteini á bátinn. Mér er sagt að þú hafir vald til þess.
Eyvindur: ( allur á iði í sætinu lagar gleraugun hristir höndina með auma puttanum)
Heyrðu vinur þú ert ekki á réttum stað, þú átt að tala við Hallgrím Guðmundsson yfirmann skoðunarsviðs með svona kvartanir. Hann getur líka sett inn í kvörtunarkerfið og gæðakerið þær kvartanir sem þú vilt koma á framfæri, þetta verður allt að vera rekanlegt í kerfinu þú skilur.
Ási: (espir sig upp) Já einmitt það, þið eruð allir eins þessir opinberu starfsmenn, vísið hver á annan. Ég var að koma frá þessum Hallgrími, hann sagði þegar ég bar upp erindið. (hermir eftir Hallgrími) Akkurat þetta er reglugerðarmál talaðu við hann Eyva yfirmann skipaeftirlitsdeildar hann reddar þessu fyrir þig. Hann nefndi ekki gæðakerfi eða kvörtunarkerfi, þarf að gera þetta svona flókið ?. Ég kom bar til að láta stroka þessa dellu út og fá haffærniskírteini, málið dautt.
Eyvindur: (síminn hringir og Eyvi tekur upp síman) Halló já sæll. Heyrðu ég er svolítið upptekinn núna hann er hjá mér hann Ásmundur Einarsson skipstjóri. Ha nei, hann er ekkert gluggahross. Heyrðu Palli ég má ekki vera að þessu núna bless. (skellir á og meiðir sig í puttanum , bölvar mikið)
Fyrirgefðu Ási það er aldrei friður hjá mér fyrir þessari tæknideild, ég þarf alltaf að vera að hjálpa þeim með alla skapaða hluti. En áfram með þitt erindi, Já sendi Halli þig yfir til mín , já það er alltaf sama sagan þeir ráða ekki við neitt þara hinu megin í Græna húsinu, láta mig redda öllu. En veistu hvaða skoðunarmaður þetta var sem skoðaði hjá þér bátinn?
Ási: Mig minnir að hann heiti Sigurður kallaður Siggi.
Eyvindur: Nú já heyrðu þetta skiptir engu máli þeir eru allir jafn ruglaðir þessir skoðunarmenn þarna úti, enda ekkert skrítið þeir hafa aldrei verið í Vestmannaeyjum. Við verðum samt að stóla á það að Siggi hafi fært þetta inn í kvörtunarkerfið eða gæðakerfið, það er að segja ef þú hefur kvartað svo þetta sé rekanlegt. Hafa gæðastjórann góðan skilurðu.
En er ekki annað í lagi hjá þér vinur ef undan er skilið vöntun á fána sjókortum og klósetti. Hvað er nú aftur skipaskrárnúmerið á bátnum? (snýr sér að tölvunni)
Ási: Það er 7777 og báturinn heitir Túrilla RE 6. Jú auðvitað vil ég hafa þetta allt í 100% lagi hjá mér, já já þetta er mikil happafleyta enda mikið af heilögum tölum í skipaskrárnúmerinu og ekki skemmir sexið í umdæmisnúmerinu. Enda heitir báturinn Túrilla eftir ömmu minni sem var frá Færeyjum, hún var bara nokkuð sexi sú gamla eftir myndum að dæma já já. En hún er nú farinn yfir hinu megin blessunin, en nafnið hennar lifir á bátnum mínum.
Eyvindur: (reynir að pikka á tölvuna bölvandi puttanum) Ég ætla nú bara ekki að hafa þetta, jú þarna kom það Túrilla RE 6. þá er að komast í athugasemdirnar (reynir aftur við tölvuna) Já þarna fæ ég upp athugasemdirnar. (kvartar yfir puttanum)
Ási: Já er þetta ekki allt í himnalagi hjá mér?
Eyvindur: (lagar gleraugun og ekur sér í sætinu) Heyrðu vinur, það eru nú fleiri athugasemdir hér en fáni, sjókort og klósett. Hér hefur hann sett inn bilað afturljós og hliðarljós og það vanti ný handblys og flugelda þau séu útrunnin og eitthvað fl. Helvítis harka er þetta í þessum skoðunarmönnunum, Ég nenni nú ekki einu sinni að lesa allar þessar athugasemdir. Ég ætla að fara hér inn í kvörtunar og gæðakerfið og vita hvort þessar kvartanir þínar eru skráðar inn í kerfið.
Ási : (grípur frammí æstur) Jú jú datt mér ekki í hug, ég er löngu búin að laga þetta allt saman, strokaðu þetta bara líka út af athugasemdarlistanum. Flugeldar og blys eru út í bíl hér fyrir utan á ég að ná í þá og sýna þér. Svo var ég ekkert að kvarta, ég bara benti Sigga á að þessar athugasemdir hans væru tóm della., þarf að skrá þetta tveggja manna tal í tölvu eða eitthvað gæðakerfi.
Eyvindur: Nei nei, þú þarft ekki að hlaupa út í bíl, en ég sé að Siggi skoðunarmaður hefur ekki skráð þessi mótmæli þín eða kvartanir inn í gæðakerfið, það er alvarlegt mál skal ég segja þér og eins gott að gæðastjórinn komist ekki að þessum mistökum.
En þó ég hafi hér mikil völd í Siglingastofnun get ég ekki strokað út allar athugasemdir sem gerðar eru af skoðunarmönnum stofnunarinnar, en við skulum sjá til hvað hægt er að gera. En það hjálpar okkur að Siggi hefur gleymt að skrá þetta í gæðakerfið ( hlær glottandi og blikkar Ása) Við skulum fara yfir þetta sem þú átt eftir. Hvað segir þú um að kaupa þér sjókort ef ég stroka út fánann?, það getur nú ekki sakað þó við strokum út fánann, hann er ekkert öryggistæki og allir vita að þetta er íslenskur bátur þó reyndar nafnið sé frá Færeyjum.
Ási : Ég hef ekkert að gera við þennan fána, hef ekki einu sinni flaggstöng á bátnum, og til hvers andskotans þarf ég þessi sjókort, þetta er allt í tækjunum hjá mér, það er fullt stýrishúsið af tækjum með sjókortum.
Eyvindur: Nú ert þú með kort í tækjunum? ég vissi það ekki.
Ási: Já ég er með þetta allt í tækjunum. Engum heilvita manni dettur í hug nú orðið að vera með þessa bréfsnepla um borð í bátum sínum í dag. Mér dettur það bara ekki til lifandis hugar.
Eyvindur: já en Ási, þetta er nú í reglum og reglugerðir eru til að fara eftir þeim, svona oftast.
Ási: Mér er alveg sama hvort það er í reglum þetta er bara tóm della þú hlítur að sjá það að reglurnar eru bara út í hött ?
Eyvindur: (hugsar sig um, hrekkur upp við síman og svarar hranalega) Halló Siglingastofnun Eyvi. (tónninn verður angurmildur ) Nei komdu blessuð Hildur mín hvað er að frétta úr Ráðuneytinu? Er ekki munur síðan skipt var um ráðherra? Ha máttu ekki tala um það. Já ég skil , hvað segirðu er ég ómissandi á fundin í fyrramálið. Já ég er nú ekki kallaður bjargvætturinn fyrir ekki neitt ha ha ha. (hlær mikið) Já Hildur mín, ég mæti hálf tíu í fyrramálið niðri í ráðuneyti bless bless. (leggur tólið afar rólega á annars hugar eftir samtalið en hrekkur upp og lítur á Ása) Það er alltaf verið að trufla okkur nú var það ráðuneytið að boða mig á fund eina ferðina enn þau geta víst ekki án mín verið. Já Ási hvar vorum við komnir í þínum málum?
Ási: Þú varst búin að samþykkja að sleppa fánanum og sjókortunum, en við eigum bara eftir að strika út klósettið.
Eyvindur: (nuddar veika puttann og fer svo upp í hillu og nær með erfiðismunum í reglugerðarmöppuna) Nú já var ég endanlega búinn að samþykkja það? jæja við strokum það út, þeir geta hvort sem er ekki rakið þetta, segjum bara að þetta hafi verið lagfært.
Þá er það klósettið? Við skulum nú sjá, jú jú þetta er hér í endurskoðaðri reglugerðinni frá því í hitti fyrra að þú átt að hafa klósett í Túrillu hún er yfir 10 m nærri 10,26 metrar skráð lengd, heljar mikið skip Ási, þetta er ekki spurning þú verður að hafa klósett.
Ási: ( öskuvondur og slær í boðið og bendir með puttanum á Eyvind) Ég er búin að vera sjómaður í yfir 40 ár þar af 18 ár á Turillu og hef aldrei haft né þurft að hafa klósett í þeim bátum sem ég hef átt og ætla ekki að fara að setja það í bátinn með ærnum tilkostnaði á gamalsaldri.
Eyvindur: (með puttann á reglugerðinni með valdsmanstón og glottir) Ási þetta stendur hér svart á hvítu í reglunum og reglur eru til að fara eftir þeim. Hvernig ferðu annars að ef þú þarft að gera stórt þegar þú ert úti á sjó og hefur ekkert klósett um borð?.
Ási : Þarf ég að gefa þér skýrslu um það?, er þetta ekki einum of mikil hnýsni í mín persónulegu prívat einka mál um borð í bátnum mínum ?
Eyvindur: Já ég hefði gaman af að vita hvernig þú ferð að þegar þú ert úti á sjó langt frá mannabyggðum, að leysa þetta vandamál, ha ha (hlær hrossahlátri)
Ási: Það er svo sem ekkert launungarmál ef þú endilega villt vita það, ég fer bara á fötuna. Set í hana smáræði af sjó og fer svo á gömlu góðu ryðguðu olíufötuna, það fer svo eftir veðri hvort ég er inni eða úti með hana. Og þú ræður hvort þú trúir því eða ekki, þessa fötu er ég búin að eiga í heil 12 ár.
Eyvindur: Heldur þú að það væri ekki munur fyrir þig Ási minn að geta farið á gott klósett í bátnum eins og þú gerir heima hjá þér, heldur en að vera í brælu rúllandi á olíufötu með stimplaðan ryðhring eftir fötuna á afturendanum? Svo átt þú líka að fara eftir nýju reglugerðinni, kaupa klósett og henda þessari gömlu skítafötu í sjóinn.
Ási : (hneykslaður og öskuvondur) Henda skítafötunni, ertu snarvitlaus maður? Hvernig á ég þá að skola bátinn eftir að ég er búin að landa fiskinum ef ég hef enga fötu. Þetta er nú það vitlausasta sem ég hef heyrt lengi, það er ekki á ykkur logið þessa opinberu starfsmenn, vitið ekker í ykkar haus hvernig vinnan gengur fyrir sig á sjónum eða um borð í smábátum.
Eyvindur: (steinhissa og bregður við ákefðinni í Ása) Nú notarðu fötuna líka til að skola bátinn, fyrirgefðu þetta breytir nú málinu heilmikið, ég hélt að þetta væri bara venjuleg skítafata, auðvitað nýta menn hlutina nú á þessum síðustu og verstu tímum. Heyrðu ég beiti mér bara af alefli til að breyta reglugerðinni, hún er hvort sem er kolvitlaus að heimta postulínsklósett í þessa gömlu trillu. Verst að vinur minn gamli ráðherrann er hættur, jæja ég tala við ráðuneytissjórann í ráðuneyti í fyrramálið, þetta verður ekkert mál. Það hjálpar okkur að þetta var ekki fært í gæðakerfisruglið, þá er þetta ekki rekanlegt ( hlær hrossahlátri).
Ási: Er þetta þá útrætt og klappað og klárt af okkar hálfu, þannig að ég fæ fullt haffæri?
Eyvindur: Já já ég redda þessu Ási minn eins og öðru hér í þessari stofnun, hafðu engar áhyggjur ég skal líka tala við þessa fugla sem eru í skipaskoðuninni, þeir hafa hvort eð er ekkert vit á skipaskoðun. þeir eru ekki einu sinni tækni fræðingar, enda á skítalaunum eins og þeim ber.
Ási : Þakka þér fyrir, ég vissi alltaf að það væru til einhverjir embættismenn með viti hér í þessari stofnun.
Eyvindur: Ekkert að þakka, best að ég fari út á svalir og fá mér eina rettu, það er víst bannað að reykja hér inni samkvæmt reglugerð um heilbrigði og hollustuhætti, það er ekkert lát á þessu reglugerðarkjaftæði sem maður þarf að fara eftir á öllum sviðum. (Snarast út á svalir og fær sér sígarettu eftir að vera búinn að leysa enn eitt vantamál viðskiptavinar ).
Sigmar Þór Sveinbjörnsson
Stýrimaður
Athugasemdir
Heill og sæll frændi.
Þetta er æðislegt handrit hjá þér. Vontar þig ekki mann tiil að taka þetta upp.
Ég er til ef það yrði gert í Eyjum, ég er með Hauk á Reykjum í huganum sem útgerðamanninn.
mbk. úr Eyjum Stjáni á Emmunni
Kristhán Óskarsson (IP-tala skráð) 7.1.2014 kl. 22:39
Heill og sæll frændi, já það væri gaman að gera þetta myndband og bæta aðeins við það bæði framan og aftan við og láta það gerast í Vestmannaeyjum. Þessir karakterar eru auðvitað allir til eins og þú veist :-)og það væri gaman að lífga þá við .
Annars var ég bara að gera þetta að gamni mínu, reyndar var þetta fyrst hugsað sem skemmtiatriði á Árshátíð Siglingastofnuar.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 8.1.2014 kl. 12:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.