Skemmtileg saga frá vetrarvertið 1966

Skemmtileg saga frá vetrarvertíð í Vestmannaeyjum

 

Leó VE 400 í GrimsbýÞað var á vetrarvertíð að mig minnir 1966 eða 67, þegar ég var vélstjóri á Leó Ve.

Það var búið að vera gott fiskirí í netin og mikið að gera hjá sjómönnum og verkafólki í Vestmannaeyjum. Fiskurinn var nálægt Eyjum rétt austan við Elliðaey þannig að við komum inn til löndunar á kristilegum tíma. Með okkur var Færeyingur hörkuduglegur náungi eins og allir Færeyingar sem ég hef kynnst. Hann tók mikið í vörina og hafði alltaf krukku af neftóbaki í netaspilkoppnum.

 Eitt kvöldið þegar búið var að landa kom Færeyingurinn til Óskars Matt skipstjóra og spurði hvort hann gæti fengið frí í löndun daginn eftir. Óskar var nú ekki vanur að gefa mönnum frí nema brýna nauðsin bæri til. Hann spurði því manninn hvað hann ætlaði að gera við frí um hávertíð. Færeyingurinn hikaði smástund en sagði svo dálítið vandræðalegur að hann ætlaði að gifta sig. Óskar hafði gaman af þessu svari og sagði skyldi gefa honum frí þegar þeir kæmu í land næsta dag, lofaði meira að segja að reyna vera snemma í landi sem var frekar óalgengt á því Leó .
Um morguninn var farið snemma á sjó og byrjað að draga, en nú kom babb í bátinn, netin voru bókstaflega full af fiski svo við fylltum lestina, þetta var með stæðstu róðrum þessa vertið, mig minnir að við höfum fengið yfir 45 tonn af þorski þennan dag. Við komum til hafnar rétt eftir kvöldmat og byrjuðum að landa fiskinum. Færeyingurinn spurði okkur strákana hvort hann ætti ekki bara að hætta við fríið fyrst við hefðum fiskað svona mikið? Við vorum allir skipsfélagarnir sammála um að hann ætti að halda sínu striki, þannig að hann fór heim til sinnar tilvonandi eiginkonu. Við byrjuðum aftur á móti að landa fiskinum en það tekur töluverðan tíma að landa og þrífa svo miklum afla.

 Eftir að hafa verið í löndun í nokkurn tíma, birtist Færeyingurinn niður á bryggju dreif sig í sjógallann aftur. Við urðum steinhissa á að sjá hann og spurðum hvort hann hafi hætt við giftinguna. Nei gamli þetta er búið ég er giftur. Þar með fór hann í gallanum ofan í lest og landaði með okkur þeim afla sem eftir var í lestinni og þreif og gekk frá með okkur.

Þessi saga sýnir hvernig tíðarandinn var á þessum árum það var ekki verið að ákveða giftingu með fleiri ára fyrirvara og jafnlöngum undirbúningi, ekki man ég betur en að þetta hjónaband hafi blessast vel.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Hann hefur semsagt verið búinn að landa konunni en átt eftir að gera að henni.Forgangsröðin hárrétt.En hann hefur skellt sér í þá aðgerð strax eftir þrifin.

Jósef Smári Ásmundsson, 11.10.2013 kl. 21:07

2 identicon

Sæ Simmi var thetta ekki Oli fæeyingur sem var ad gifts sig.

Matthías Sveinsson (IP-tala skráð) 15.10.2013 kl. 20:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband