Minning um mann. Auðberg Óli Valtýrsson

 

Auðberg ÓÉg hef hér á blogginu mínu minnst manna og kvenna sem eru mér minnistæðir samtímamenn eða konur, hef ég haft fyrirsögnina minning um mann.

 

Auðberg Óli Valtýsson, sem lengi var starfsmaður Vestmannaeyjabæjar, fæddist 15. desember 1944 í Vestmannaeyjum. Hann lést 5. júní 1994. Foreldrar hans voru Ásta Guðjónsdóttir og Valtýr Brandsson. Auðberg Óli átti 12 systkini og eina uppeldissystur. Hann kvæntist Margréti Óskarsdóttur 10. desember 1971. Þau eignuðust þrjú börn: Sigríði Ósk sem lést barnung, Valtý, f. 19. apríl 1976 og Ósk, f. 3. september 1980.

 Auðberg Óli er einn af þessum Eyjamönnum og samtímamönnum  sem maður man vel eftir, skemmtilegur,  snaggaralegur og þekktur fyrir dugnað  eins og allt hans fólk. Margar sögur eru til af honum og hans skemmtilegu tilsvörum sem ekki verða rakin hér en samstarfsmenn hans kunna. Nokkrar af þeim eru í blaðinu Rauða hananum sem gefið var út 1986, af Brunavarðarfélagi Vm. meðfyljandi myndir eru úr því blaði, en Auðberg Óli var einn af þeim sem vann að björgunarstörfum í gosinu 1973 og eru myndirnar frá þeim tíma.

Þorgerður Jóhannsdóttir skrifaði minningargrein um Auðberg Óla og sagði þar  m.a:

Auðberg Óli Valtýsson  vinur okkar og félagi, er látinn langt fyrir aldur fram. Óli, eins og hann var alltaf kallaður, var einstakur, dugmikill og greiðvikinn með afbrigðum. Störf hans í þágu Starfsmannafélags Vestmannaeyjabæjar bera þess glögg merki, en hann var í samninganefnd félagsins frá árinu 1982 og formaður starfskjaranefndar 1990 og 1992. Átti sæti í verkfallsstjórn 1984, orlofsheimilanefnd 1984­1985 og var formaður hennar síðan 1990. Endurskoðandi félagsins var hann 1987­1990, trúnaðarmaður í Áhaldahúsinu frá 1986. Auk þess sat Óli þrjú þing BSRB fyrir hönd félagsins á þessu tímabili. Allt voru þetta sjálfboðaliðastörf og vann Óli þau öll með sínum dugnaði og þrautseigju.

AuðbergÓli var ekki fyrir að láta bera mikið á sér, hann var dugnaðarforkur sem alltaf var hægt að treysta á. Hann var staðfastur og góður samningamaður. Ég undirritaður kynntist Óla er við komum til starfa fyrir félagið á sama tíma. Það var mikill styrkur að hafa hann sér við hlið í samningum og öllu öðru er ég þurfti að leita til hans með. Alltaf gat hann leyst málin og aldrei þurfti að biðja hann tvisvar um sama hlutinn. Stálminnugur var hann og því ærið oft "flett upp í honum" um hin og þessi atvikin er á þurfti að halda.

Óli var formaður orlofsheimilanefndar félagsins síðastliðin fjögur ár, en orlofshús félagsins í Munaðarnesi og á Eiðum voru honum og fjölskyldu hans mjög hugleikin og ófáir hlutirnir sem þau hafa gefið þangað.

Óli var þessi ómissandi maður sem allir gátu leitað til á hvaða tíma sólarhringsins sem var. Aldrei heyrði maður hann kvarta á hverju sem gekk, það þótti svo sjálfsagt að gera allt fyrir aðra.

Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar á Óla mikið að þakka. Það er fólk eins og hann sem ber uppi starfið í starfsmannafélögunum. Áhugasamur, dugmikill, skapgóður og síðast en ekki síst bóngóður, en umfram allt sannur vinur og félagi. Þannig reyndist Óli mér og þannig veit ég að hann reynist öðrum sem með honum lifðu og störfuðu.

Fyrir hönd Starfsmannafélags Vestmannaeyjabæjar sendi ég fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning góðs drengs. Far þú í friði, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þorgerður Jóhannsdóttir “

Fallega skrifað um góðann dreng. Á þessari upptalningu  Þorgerðar sést að Óli var vel metinn og duglegur félagsmála maður ekki síður en dugnaðarforkur til þeirra vinnu sem hann vann hjá Vestmannaeyjabæ.

Blessuð sé minning hans.

 Sigmar Þór

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband