14.2.2013 | 21:15
Saga af öfgamönnum í pólitík
Sönn saga.
Fyrir nokkrum árum var ég í góðra vina hópi að segja sögu af manni sem var gegnumheill sjálfstæðismaður, söguna sagði mér góður vinur minn en ég sleppi hér nöfnum.
Þannig var að hjá þessum sjálfstæðismanni kom inn um blaðalúguna þjóðviljinn sem þá var málgagn kommana. Þegar hann sá blaðið liggja fyrir neðan blaðalúguna í forstofunni tók hann það upp með tveimur puttum , hélt því eins langt frá sér og hann gat og fór með það beint út í öskutunnu, hann meðhöndlaði það eins og það væri baneitrað.
Þegar ég var búinn að segja söguna sem mér fannst bara góður brandari, fóru allir að hlæja nema einn eldri maður sem ég veit að var vinstri sinnaður.
Hann kom með aðra sögu af vini sínum og flokksfélaga sem hann sagði að hefði búið fyrir austan þegar þetta gerðist en sagan hans var á þessa leið:
Þannig var að eitt sinn fyrir kosningar kom kynningareintak af Morgunblaðinu inn um blaðarifuna heima hjá honum, hann áttaði sig strax á hvaða snepill þetta var og náði í skóflu og kúst og sópaði Mogganum upp í skófluna og henti honum í öskutunnuna, því hann gat ekki hugsað sér að koma við hann með berum höndum. Nú var hlegið enn meira en af minni sögu enda var sá gamli þarna búinn að toppa söguna mína, ekki veit ég hvort hans saga er sönn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.