Gamla sagan

 Gamla Sagan eftir Jóhannes úr Kötlum kvæðið er að finna í ljóðasafni hans gott ljóð og fjallar um fálæti valdhafa heimsins gagnvart þeim sem minna mega sín og kristinni trú. Rakin sagan frá fjárhúsjötunni að krossfestingunni og þess vegna fram á okkar dag. Ljóðið sendi mér vinur minn Heiðar Kristinsson.:

 

I Furðulegt er fylgsnið,

-fjárhúsjata lág.

María í hljóðri helgi

horfir barn sitt á

 

Lítil augu ljóma,

lítið hjarta slær. –

Yfir hallir höfðingjanna

hrapar stjarna skær.

 

Ferðalúnir fátæklingar

fara alls á mis.-

Inni í höllum háum

heyrist glaumsins þys.

 

Ekki skilja herrar heims

hvítvoðungsins tár.-

Englar öðrum boða

allar furðuspár.

 

Inn í hallir háar

helgin ekki nær.-

En í hjörtum hirðingjanna

hljómar söngur skær.

 

Gyðingsdómsins gullni draumur

getur aldrei ræst. –

Guð í Jötu grætur,

-gisting hvergi fæst.

 

==========

II Færir margan farandsvein

fórnarkuflinn í

úti á eyðimörku

opinberun ný.

 

Gengur einn um borg og bæ,

bjartur mjög á svip.

Fiskimenn í flýti

færa í naust sín skip.

 

Fátæklegir fiskimenn

fylgja boði hans,

leggja af stað og leita,

-leita sannleikans.

 

Höfðingjarnir hreyknir skálma

um helgidómsins gólf. –

Úti er á ferli

einn með sína tólf.

 

Reiðubúinn, lítillátur,

lögin gefur ný

farandsveinninn fagri,

fæddur jötu í.

 

Nýja heima nemur

naktra hjartna þrá. –

Faríseans boð og bönn

blakta eins og strá.

 

Inn í hallir háar

hljómur enginn nær.

- en í hreysum öreiganna

ómar söngur skær

===========

III Hjúpar misturhula

Höfuðkúpustað.

Skrjáfar skrælnað laufið,

skelfur pálmablað.

 

Undarlegur uggur fer

yfir héruð víð.

- Sigur yfir sálir

syndafallsins tíð.

 

Fræðimenn og farísear

fremja sannleiksmorð.

Höfuðprestar háir

hæða lífsins orð

 

Æðir óður lýður,

æpir sturluð þjóð.

Röðull hverfur rökkrið í,

rauður – eins og blóð.

 

Konur nokkrar kveina,

- kveðja farandsvein.

Ekki skilja herrar heims

heimsins þyngstu mein.

 

Inn í hreysi öreiganna

ómar dauðans lag.

Guð á gömlum krossi

gistir enn í dag.

 

Með góðri kveðju

Heiðar Kristinsspn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Sigmar.

Mikið er þetta fallegt.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 17.12.2012 kl. 23:32

2 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Tek undir með Guðrúnu Maríu.

Kv.,KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 18.12.2012 kl. 06:28

3 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heil og sæl Guðrun María og Kristján og takk fyrir innlitið, já þetta er fallegt.

Kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 18.12.2012 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband