Um áratuga skeið var Alfreð Washington ein af driffjöðrunum í tónlistarlífi hinna tónelskandi Eyjamanna og þar vann hann með mörgum góðum listamönnum, Oddgeiri Kristjánssyni, Ása í Bæ, Lofti Guðmundssyni, Sigga á Háeyri og mörgum fleiri. Alla tíð samdi Vosi lög, bæði sönglög og píanóverk.
Fyrir nokkrum árum hlutaðist þannig til fyrir áeggjan Hafsteins Stefánssonar verkalýðsleiðtoga að ég gerði útvarpsþátt um Alfreð,en þar lék hann 11 af lögum sínum og Kristinn Sigmundsson söng nokkur þeirra við undirleik Jónasar Ingimundarsonar. Flest þessara laga eru hvergi til nema á þessu tónbandi Ríkisútvarpsins, en lögin hans Vosa voru þess eðlis að margir vildu hafa samið þau, slík er fegurð þeirra og sérstaða. Vosi var alla tíð rómantíker sem sótti tóna sína í náttúrustemmninguna og fékk svar frá henni. Hann var snjall píanóleikari og harmonikkuleikari á fyrri hluta aldarinnar, svo snjall að hann var í fremstu röð í Vestur-Evrópu. En Vosi var alltaf eins konar huldumaður í tónlistinni. Þekktasta lag hans er Heimaslóð við texta Ása í Bæ:
Meðan öldur á Eiðinu brotna
og undir fugl í klettaskor.
Mun ég leita í Eyjarnar eins og fyrr
í æsku minnar spor.
Þar sem lundinn er ljúfastur fugla,
þar sem lifði Siggi Bonn,
og Binni hann sótti í sjávardjúp
sextíu þúsund tonn.
Meðan lífsþorstinn leitar á hjörtun
og leiftrar augans glóð.
Þó á Höfðanum þjóti ein þrettán stig
ég þrái heimaslóð.
Lagið Heimaslóð taldi Ási í Bæ fegursta lag sem hann hefði heyrt og um eitt lag Vosa, Fjóluna, hafði Oddgeir þau orð að hann vildi hafa samið það lag.
Hafi Alfreð Washington Þórðarson heila þökk fyrir innlegg sitt í lífsmelódíuna, því lögin hans Vosa eru geymdur fjársjóður inn í framtíðina, engin fjalllendi, en fagrar perlur sem skín af tærri birtu. Megi góður Guð fylgja vini vorum að flyglum eilífðarinnar því þeir þurfa á því að halda, megi eftirlifandi vinir og vandamenn varðveita minningu sem skiptir máli.
Árni Johnsen.
Athugasemdir
Heill og sæll Sigmar; æfinlega !
Alfreð heitinn; kom oft og iðulega við, í tækjasal Hraðfrystihúss Stokkseyrar, þegar ég var þar við birgðavörzlu freðfiskjar (1983 - 1991) - þægilegur og ærlegur drengur, í allri umgengni.
Hélt hann þá til; misminni mig ekki,hjá þeim Sigurði heitnum Friðrikssyni og Elísabetu, hans konu, vestur í Eyjasels hverfinu svonefnda, á Stokkseyri. Þeim; kynntist ég aftur á móti ekki, en heyrði vel af látið, alla tíð.
Man ég; að þeim Pálmari heitnum Eyjólfssyni, Tónskáldi og samstarfsmanni mínum og Alfreð varð oft skrafdrjúgt, í hinum ýmsu viðfangsefnum lista; sérílagi Tónlistarinnar - sem og annarra andlegra þátta, sem unun var á, að hlýða.
Blessuð sé minning; þeirra beggja.
Með beztu kveðjum út í Eyjar; sem jafnan /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 21.10.2012 kl. 16:04
Sæll Sigmar.
Heimaslóð er yndislegt lag, og blessuð sé minningin um þessa höfðingja.
kv.Guðrún María.
Guðrún María Óskarsdóttir., 21.10.2012 kl. 23:03
Heill og sæll Óskar Helgi og fyrirgefðu hvað ég svara seint. Takk fyrir innlitið og athugasemd. Það er rétt hjá þér að hann hélt til hjá þeim Hjónum Sigurði og Elísabetu. Það er gaman og gott að halda uppi minningu þessara manna sem voru virkilega miklir snillingar en kannski voru ekki metnir sem skyldi á sínim tíma.
Ég man vel eftir Alfreð og heyrði hann spila og gleymi því aldrei.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 28.10.2012 kl. 22:20
Heil og sæl Guðrún María og takk fyrir innlitið. Já ég tek undir það að það er fallegt lag eins og svo mörg Eyjalög.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 28.10.2012 kl. 22:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.