Um áratuga skeið var Alfreð Washington ein af driffjöðrunum í tónlistarlífi hinna tónelskandi Eyjamanna og þar vann hann með mörgum góðum listamönnum, Oddgeiri Kristjánssyni, Ása í Bæ, Lofti Guðmundssyni, Sigga á Háeyri og mörgum fleiri. Alla tíð samdi Vosi lög, bæði sönglög og píanóverk.

Fyrir nokkrum árum hlutaðist þannig til fyrir áeggjan Hafsteins Stefánssonar verkalýðsleiðtoga að ég gerði útvarpsþátt um Alfreð,en þar lék hann 11 af lögum sínum og Kristinn Sigmundsson söng nokkur þeirra við undirleik Jónasar Ingimundarsonar. Flest þessara laga eru hvergi til nema á þessu tónbandi Ríkisútvarpsins, en lögin hans Vosa voru þess eðlis að margir vildu hafa samið þau, slík er fegurð þeirra og sérstaða. Vosi var alla tíð rómantíker sem sótti tóna sína í náttúrustemmninguna og fékk svar frá henni. Hann var snjall píanóleikari og harmonikkuleikari á fyrri hluta aldarinnar, svo snjall að hann var í fremstu röð í Vestur-Evrópu. En Vosi var alltaf eins konar huldumaður í tónlistinni. Þekktasta lag hans er Heimaslóð við texta Ása í Bæ:

Meðan öldur á Eiðinu brotna

og undir fugl í klettaskor.

Mun ég leita í Eyjarnar eins og fyrr

í æsku minnar spor.

Þar sem lundinn er ljúfastur fugla,

þar sem lifði Siggi Bonn,

og Binni hann sótti í sjávardjúp

sextíu þúsund tonn.

Meðan lífsþorstinn leitar á hjörtun

og leiftrar augans glóð.

Þó á Höfðanum þjóti ein þrettán stig

ég þrái heimaslóð.

Lagið Heimaslóð taldi Ási í Bæ fegursta lag sem hann hefði heyrt og um eitt lag Vosa, Fjóluna, hafði Oddgeir þau orð að hann vildi hafa samið það lag.

Hafi Alfreð Washington Þórðarson heila þökk fyrir innlegg sitt í lífsmelódíuna, því lögin hans Vosa eru geymdur fjársjóður inn í framtíðina, engin fjalllendi, en fagrar perlur sem skín af tærri birtu. Megi góður Guð fylgja vini vorum að flyglum eilífðarinnar því þeir þurfa á því að halda, megi eftirlifandi vinir og vandamenn varðveita minningu sem skiptir máli.

Árni Johnsen.