21.6.2012 | 10:38
Björgunarbúninga í öll skip sem notuð eru í atvinnuskyni
Björgunarbúninga í öll skip sem notuð eru í atvinnuskyni
Innanríkisráðuneytið hefur sett reglur nr. 519/2012 um breytingu á reglum um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa, nr. 189/1994, með síðari breytingum
Fram að þessu hefur skv. reglum nr. 189/1994, með síðari breytingum verið skylt að hafa björgunarbúninga um borð í öllum skipum sem eru 12 metrar að lengd og lengri og notuð eru í atvinnuskyni, en í bátum undir 12 metrum á að vera viðurkenndur vinnufatnaður fyrir alla um borð, sem er einangrandi og búinn floti. Skemmtibátar með haffærisskírteini til úthafssiglinga skulu búnir björgunarbúningum fyrir alla þá sem eru um borð hverju sinni.
Með reglum nr. 519/2012 er kveðið á um að björgunarbúningar skuli vera um borð í öllum skipum sem notuð eru í atvinnuskyni, og tekur krafan gildi fyrir báta 8-12m frá og með 1. janúar 2013 og fyrir báta undir 8 metrum frá og með 1. janúar 2014.
Mál þetta á sér langan aðdraganda. Á árinu 2004 voru til umfjöllunar í siglingaráði tillögur í öryggismálum sjómanna sem Siglingastofnun gerði í framhaldi af fundum um öryggismál sjómanna sem haldnir voru árinu 2003 í tengslum við langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda 2001-2003, en fundirnir voru haldnir í Grindavík, Ólafsvík, Ísafirði, Akureyri, Reyðarfirði, Vestmannaeyjum og Reykjavík. Ein þessara tillagna var sú hvort gera ætti kröfu um björgunarbúninga í smábátum (bátum undir 12 metrum). Á fundi siglingaráðs 17. desember 2004 var lagt fram minnisblað Siglingastofnunar Íslands, þar sem lagt var til að björgunarbúningar skyldu jafnframt vera um borð í bátum undir 12 metrum sem notaðir væru í atvinnuskyni. Tillaga Siglingastofnunar var samþykkt af miklum meirihluta siglingaráðs. Í framhaldi af því lagði Siglingastofnun til við samgönguráðuneytið með bréfi dags. 18. desember 2004 að reglum um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa nr. 189/1994 yrði breytt í þá veru. Málið hefur verið tekið upp í siglingaráði og ráðið áréttað fyrri afstöðu sína. Jafnframt var málið rætt á Alþingi árið 2009 og sl. febrúar.
Frétt tekin af síðu Siglingastofnunar
Athugasemdir
Sæll Sigmar.
Fagna þessari reglugerð er varðar björgunarbúninga í trillurnar, löngu tímabær
aðgerð. Sem betur fer eru margir trillusjómenn með björgunarbúninga
um borð hjá sér.
Kv. frá Eyjum Leifur í Gerði
Leifur Gunnarsson (IP-tala skráð) 27.6.2012 kl. 09:29
Heill og sæll Leifur og takk fyrir innlitið og þessa athugasemd þína. Já þetta er tímabært og þessir gallar sem eru reyndar, eins og þú segir í mörgum smábátum, hafa þegar bjargað mönnum. Það veitir ekki af að auka öryggi smábátasjómanna, það virðist vera minni áhugi fyrir þessum málum nú á síðustu og vestu tímum.
Það er ekki margir sem setja athugasemdir hér inná síðuna mína ef ég blogga um öryggismál sjómanna, þess vegna gleður það mig að fá þessa athugasemd frá þér Leifur.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 27.6.2012 kl. 22:30
Ég kíki nú stundum
Einar Jóhannes (IP-tala skráð) 28.6.2012 kl. 15:35
Sæll Simmi
Kíki á síðuna þína daglega. En sammála Leifi í Gerði, löngu tímabært að lögsetja þetta, peningaleysi er engin afsökun.
Kveðja úr blíðunni í Eyjum
Valmundur Valmundsson, 4.7.2012 kl. 13:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.