Ljóð um mann að "meintum ólöglegum veiðum"

Siggi í BæIMG_3621 copy

 Þyrla landhelgisgæslunar á flugi myndina tók Ómar Kristmannsson, myndina af Sigga í Bæ tók  Sigurgeir Jónason ljósmyndari

Í tilefni af banndögum krókaleyfisbáta. ( Vísurnar eru í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja frá árinu 1992)

Landhelgis brot hafa ekki verið tiltakanlega tíð nú í seinni tíð. Því kom það nokkuð á óvart um páskana þegar landhelgisgæslan stóð einn af aldursforsetum flotans, Sigga í Bæ að „ meintum ólöglegum veiðum“ og það á skaki. Þessi atburður var Stokkseyringnum Stefáni Jónssyni að yrkisefni en hann er hagyrðingur góður. Vísurnar fara hér á eftir:

-

Á skírdag barst gæslunni skuggaleg frétt

skakbátur kominn á sjóinn,

nú yrði að kanna hvort allt vaæri rétt

og áttræður karlfuskur róinn.

-

Send var nú þyrla að sveima um haf

frá Surtey og vestur að Dröngum,

árangur snarlega góðan það gaf

af gæslunaræfingum ströngum.

-

Snöggir þeir þefa upp númer og nöfn

nú skyldi útgerðin borga-

skipuðu þrjótnum að halda í höfn

og hætta sem snarast að dorga.

-

En gamlingin hlýddi ei réttarins rödd

hélt rólegur áfram að skaka,

þyrlan í vandraæðum virtist nú stödd

bað varðskip nú þrótinn að taka.

-

Með gínandi fallbyssum geystist um sjá

gæslan í sókn vildi ráðast,

forhertum lögbrjótum nú skyldi ná

og neyða til hafnar sem bráðast.

-

Lögum að hlýða oss landmönnum ber

og lagast að reglum og siðum,

aflinn af bátnum skal upptækur ger

til eflingar gæslu á miðum.

-

Aðeins í róðrinum ýsukóð tvö

að endingu féllu í valinn,

þarna við bættust svo þyrslingar sjö,

þarmeð var fengurinn talinn.

-

Verðið á þorskinum þykir vist hátt

þeim sem á markaðinn sækja

í veskjum þeirra samt vegur það smátt

sem verndarstörf landgrunnsins rækja.

-

Í sífellu gæslan á eftir þeim er

sem annast af príði sinn nökkva,

en þeir eru friðhelgir, því er nú ver

sem þjóðfélagsskútunni sökkva.

-

Stokkseyri 17.04.1992

Stefán Á. Jónsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er bara fjandi dýrt kveðið.  Takk fyrir að deila. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.1.2012 kl. 13:56

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Algjör snilld Sigmar.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 13.1.2012 kl. 23:39

3 Smámynd: Sigurlaugur Þorsteinsson

Sæll meistari Sigmar.

Eitt sinn undir jól 78 vorum við á varðskipinu Óðinn á siglingu vestur af Barðanum og á leið norður,það var mjög dimmt af nóttu og ég nýkomin á vakt 12-04 vaktina,stýrimennirnir voru aftur í kortaklefa,annar þeirra kemur fram og lítur í radarinn og fer eitthvað að stilla og allt í einu skipar hann mér niður að ræsa skipherra og 3 stýrimann og lofskeytamann og segja þeim að það sjáist skip á veiðum inni á lokuðu svæði rétt já,jafnframt átti ég að ræsa bátsmann og láta vaktina vita sem var í brú 8-12 og segja þeim að gera sig klára í bátana.

Skipherra kemur upp og stýrimaður segir honum frá staðsettingu og stefnu á landhelgisþrjótinn og svo mæta þeir sem ræstir voru út upp og það var mannaður radar og 3 stýrimaður settur á kortaborðið að færa jafnóðum inn staðsettningar,1 stýrimaður stilti sér upp við stjórnboð velarinnar og lofti kveikti á öllum græjum og tólum inni í talstöðvarklefa,bátsmaðurinn kominn á rattið,svo bárust boð um að 2 gúmíbátar og mannskapur væru klár á þyrlupallinum.

Nú var skipið klárt og skipherra biður um stefnu og fjarlægð í þrjótinn og sem hann fær frá radarnum,kortaborðið endutekur boðin og svo skipherra,sem gefur skipun um að setja baðar vélar á fulla ferð,stýri hringir á fulla ferð,en þar niðri eru 1-2-3- vélstjóri,1 í stjórnrúmmi,2 og 3 við vélsímann á hvorri vél og smyrjarinn klár við dagbókina,að skrá samviskusamlega allar skitingar og skipanir sem berast niður í vél,þeir svar samstundis og Óðin nötrar stafna á mill af átökunum og svo rýkur hann af stað með hálft atlandhafið í bógöldunni á undann sér og uppi í brú er staðsettnig landhelgisbrjótsins og fjarlægð í hann gefin upp af radarnum með nokkurar mínútna millibili og allt sem radarinn segir ekkoar frá kortaborðinu lofta og kaptein,svo allir séu nu með sömu uppfærslu og nálgast varðskipið nú þrjótinn hratt og örugglega,því Óðinn hélt sínum 18,7 mílum á fullu ferðini sama hvernig veður og alda var,í upphafi var gefin skipun um að kveikja ekki nein aukaljós svo afbrotamennirnir yrðu nú ekki varir við okkur og næðu að skera á og forða sér,þeim skyldi náð glóðvolgum við iðju sína með veiðarfærin úti.

Svo segir radarinn fjarlægð í skip 1/2 míla og þetta ekkoar um brúnna til skipherra,sem snarlega skipar fyrir um að kveikt sé á ljóskastaranum og geislanum sé beint að bátnum,þetta ekkoar um brúnna og svo kviknar ljós mikið og öflugt á brúarloftinu og þarna blasti landhelgisþrjóturinn við okkur vel inni á miðju lokaða svæðinu,náðum honum sagði stýri á stjórntækjunum,við náðum helvítinu.

Þarna blasti skipið við okkur í ljósgeislanum,þar sem það lá og vaggaði á bárunni,vel hirt og fallegt,ekki nokkur maður á dekki og öll ljós slökkt nema framljósið og lanternurnar,fyrst var framendi skipsins lýstur upp og svo var geislanum beint aftur með skipinu og á afturdekkinu sáust báðar næturnar velfrágengnar og niðurbundnar eins og vera ber á loðnuskipi sem lætur reka og bíður eftir að loðnufréttirnar fari að berast frá þeim sem voru að kasta út og vestur af Horni í skítabrælu,það var þögn í brúnni á Óðinn og skipun er gefin um að slá af og beygja frá,því þetta var lokað línusvæði,en öllum heimilt að láta reka og hvíla karlanna,þessir borðalögðu í brúnni sögðu fátt og það hætti að ekkoa í brúnni og spennan í andrúmsloftinu sem var hvarf,Þá allt í einu er varðskipið uppljómað af 2 miklum og öflugum ljósgeislum og svo kemur kall í talstöðina,Ég man ekki nákvæmlega kallmerkið sem notað var en röddin í stöðini spyr hvort eitthvað sé að og hvort okkur vanti aðstoð af eitthverju tagi,eftir óvenjulega langa stund ítrekar röddin spurninguna og spyr hvort hann eigi að koma okkur til aðstoðar.skipherra grípur microfonin og afþakkar gott boð og segir að þetta hafi einungis verið æfing og með það sigldum við burt og enduðum norður í Aðalvík við akkeri í 2 daga,en stýri sem kallaði út um nótina var kallaður niður til skrafs og ráðagerðar til Skipherra morgunin eftir og var ansi rjóður í kinnum fram eftir degi.

Svona var lífið á sjónum á gráu skipunum.

Kv Laugi

Sigurlaugur Þorsteinsson, 14.1.2012 kl. 15:09

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahaha Laugi takk fyrir þessa frábæru sögu.  Þú segir svo skemmtilega frá, ég sá þetta ljóslifandi fyrir mér. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.1.2012 kl. 15:31

5 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heil og sæll öll og takk fyrir innlitið, já það er gaman að lesa svona hveðskap eftir góða hagyrðinga. Ekki skemmir að fá svona flotta sögu frá þér Laugi, ég færi hana hér upp við tækifæri með einhverjum myndum. Það er rétt hjá Áshildi að þú átt gott með að stýra pennanum Laugi minn.

Kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 14.1.2012 kl. 20:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband