Til Sjómanna ljóð eftir Sveinbjörn Á. Benónýsson

SjómaðurinnÞetta ljóð er eftir Sveinbjörn Ágúst Benónýssonog og er í blaðinu Sjómaðurinn sem gefið var út af Sjómannadagsráði Vestmannaryja á sjómannadaginn 1953.

Sveinbjörn Ágúst Benónýsson múrari og skáld F. 8.ágúst 1892 d. 31.maí 1965,  bjó á Brekastig 18 en það hús byggði hann og bjó í því til dauðadags. Kona hans hét Hindrika Júlía Helgadóttir húsmóðir f. 2. júli 1894 d. 27.febrúar 1968 . Þau hjón áttu tvo syni og eina dóttir; Sigurð Friðhólm múrara  f. 5. september 1923 d. 1. nóvember 1991, hann  þekkti ég ágætlega þar sem hann múraði húsið mitt sem ég byggði að Illugagötu 38. Herbert Jóhann sem ég man eftir sem bifvélavirkja á Bifreiðaverkstæði Tómasar Sigurðssonar (Sæsa), systir þeirra  Jóhanna Herdís f. 16. janúar 1929 d. 25. október 2009. 

Sveinbjörn hefur gert fjölmörg falleg ljóð um Eyjarnar, mörg af hans ljóðum eru í hinum ýmsu Eyjablöðum og bókum, þar má nefna Sjómannadagsblöð, Blik og ritið  Gamalt og nýtt.

 Það væri gaman að geta sagt eithvað meira um þennan ágæta Eyjamann.

Til Sjómanna

á sjómannadaginn 1953

Okkar sjómannastétt

hefur svipmótið sett

nokkur síðari umliðin vor,

á einn sólvermdan dag,

til að hefja sinn hag,

til að hyggja um framtíðarspor,

og hún vinnur af trú,

við að bera í bú,

og er bjargvættur íslenskri þjóð.

Þar fer einvala lið,

sem að ekkert stenzt við,

og með ólgandi sækóngablóð.

 

Þó að tíðin sé grá

og þótt hrönnin sé há,

ei er hikað, en siglt út á mar.

Marga skammdegisnótt

út í sortann er sótt,

þar sem sjóirnir byltast um far.

Þar sjást hetjur á ferð,

og af hraustustu gerð,

ekkert hik eða dáleysis vol.

þar er kraftur í mund,

þar er karlmennsku lund,

þar eru kappar með leikni og þol.

 

Hún er kná þessi sveit,

bæði harðskeytt og heit,

hún er hugprúð og gætin í senn.

Hvar hún siglir um dröfn

eða heldur í höfn,

úti‘ í heimi, þá fara þar menn,

sem að verður um sagt

að þeir vógu ei lakt,

að þar voru ei á ferðinni þý,

heldur djarfhuga lið,

sem að drífur á mið.

Þar eru drengir, sem töggur er í.

 

Nú skal þakka þeim hlýtt,

sem að út hafa ýtt

á hinn ólgandi en gjöfula sæ,

til að fyrra oss nauð,

til að færa oss brauð,

til að fegra og stækka vorn bæ.

Og þeirra skal minnst,

sem úr höfninni hinnst,

sigldu helþrunginn stórviðrisdag.

Fyrir börn sín og víf,

hvar þeir létu sitt líf,

fyrir lands síns og alþjóðar hag.

 

Sveinbjörn Á. Benónýsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband