Hrakningar Eyjaskipa

Gunnar M Guðmundur Jónsson skipst.Þórður Jónsson

Gunnar Jónsson Guðmundur Jónson og Þórður Jónsson

Hrakningar á áraskipum.( Voru vélskip)

Sigurlaugur Þorsteinsson hefur verið að leita heimilda um hrakningar þeirra bræðra Gunnars Marel Jónssonar,Guðmundar Jónssonar og Þórðar Jónssonar. Laugi hélt að þetta hafi verið á árunum um 1910-1920.
Málið er Lauga skylt því Gunnar var afi hans og hefur hann verið að safna heimildum um ævi hans og störf,Hann sendi því beiðni til Bókasafns Vestmannaeyja um hjálp við efnisöflun.
Jóna Björg Guðmundsdóttir tók að sér að svara beiðninni fyrir Bókasafnið og afla þessara heimilda. Þar sem ég hef bloggað um marga af þessum frábæru mönnum sem gerðu garðinn frægann á sínum tíma, þá sendi Laugi mer svar Jónu Björgu sem ég fékk svo leyfi hjá honum til að birta hér á nafar blogginu mínu. Í bréfi til mín skrifar Laugi m.a.

Sæll Sigmar.
Þú bloggaðir um afa á Horninu fyrir nokkru síðan og þá minntist ég á þessa hrakninga sem þeir bræður Guðmundur á Háeyri,Þórður á Bergi og afi lentu í og þú baðst mig um að senda þér eitthvað um þá,ég leitaði til Skjalasafninu heim í eyjum til að fá sem réttasta mynd af þessum hrakningum og þetta email kom frá Jónu Björk í dag til mín þó hún hafi sent það fyrir mörgum mánuðum.
Hún fer val yfir þetta og ég sé ekki að ég geti fundið neitt meira um þessi mál með góðu móti né veit um fl heimildir. 

Svarið frá Jóna Björg Guðmundsdóttir til Sigurlaugar Þorsteinssonar Sent:10.júní 2011:
 

Hrakningar á ára skipum.

Sæll
Ég tók að mér að kanna hrakningasögu bræðranna frá Gamla Hrauni á Eyrarbakka =) Þ.e. Þórðar Jónssonar frá Bergi (f. 1887), Guðmundar Jónssonar frá Háeyri (f. 1888) og Gunnars Marels Jónssonar frá Brúarhúsi (f. 1891). Ég skoðaði Sjómannadagsblöð Vestmannaeyja, Þrautgóða á raunastund, 10. bindi, eftir Steinar J. Lúðvíksson og upplýsingar um bræðurna á netinu. Ég sé ekki betur en að um tvö atvik á sama árinu sé að ræða og þetta voru ekki árabátar,heldur vélbátar, enda allsráðandi vélbátaútgerð í Eyjum eftir 1910. Sögurnar (atvikin) virðast þannig hafa orðið að einni í  tímans rás. Árið sem um ræðir er 1914, og skeðu atburðirnir seint í febrúar og í apríl. Ég læt frásagnirnar fylgja hér með...

Enok veAðka VE 146 

Enok VE 164 og Aðga VE 146.Því miður fann ég ekki mynd af Olgu VE 



1. Vestmannaeyjabátar í hrakningum:
Seint í febrúar lentu tveir Vestmannaeyjabátar, m.b. Enok, VE 164 og m.b. Olga VE 139 í hrakningum og lágu úti um nótt. Tildrögin voru þau að er Eyjabátar komu að úr róðri þennan dag vantaði einn þeirra, m.b. Enok. Þrátt fyrir slæmt veður, austan hvassviðri og brim, fór m.b. Olga út til leitar.Fannst báturinn á reki með bilaða vél vestur af Vestmannaeyjum. Gekk greiðlega að koma dráttartaug milli bátanna og dró Olga síðan Enok upp að Eyjum. Þá var veður orðið svo slæmt að ekki var fært inn á höfnina. Komst Olga með hinn bilaða báta undir Eiðið og lá þar um nóttina. Daginn eftir var
veður orðið skárra og komust þá bátarnir inn á höfnina. Formaður á m.b. Enok var Þórður Jónsson á Bergi í Vestmannaeyjum, en formaður á m.b. Olgu var Guðmundur Jónsson frá Háeyri í Vestmannaeyjum.

2. M.b. Agða í hrakningum:
Í apríl vildi það til, að vél m.b. Ögðu, VE 146, frá Vestmannaeyjum bilaði er báturinn var á heimleið úr róðri. Var báturinn á reki um nóttina, en veður var þá gott og kyrrt í sjó. Undir morgun tók að hvessa af austri og tókst þá bátsverjum á Ögðu að koma bátnum á seglum undir Ofanleitishamar, þar sem honum var lagt við akkeri. Þegar á daginn leið herti veðrið til muna og slitnaði þá Agða upp og rak undan stormi og sjó til hafs. Þegar báturinn
var kominn vestur fyrir Einidrang bar að breskan togara, sem sá að báturinn var í nauðum. Lagði hann upp að bátnum og stukku þá bátsverjar upp í togarann. Ekki vildu togaramenn sinna bátnum og þótti bátsverjum á Ögðu súrt í broti að þurfa að yfirgefa bát sinn þannig. Togari þessi hélt síðan í landvar og lá af sér veðrið, en fór síðan til Vestmannaeyja með mennina. Þá hafði annar breskur togari komið þangað inn fyrir skömmu með Ögðu í togi. Hafði sá fundið bátinn á reki, og komið dráttartaug um borð í hann. Formaður á m.b. Ögðu í hrakningum þessum var Gunnar M. Jónsson.


Kveðja
Jóna Björg Guðmundsdóttir

Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja
Safnahúsinu við Ráðhúströð
Netfang jonab@vestmannaeyjar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Alltaf jafn fróðlegt að kíkja við hjá þér Sigmar.

Takk fyrir þetta.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 8.10.2011 kl. 00:41

2 Smámynd: Sigurlaugur Þorsteinsson

Sæll meistari Sigmar.

Ég þakka þér fyrir að birta þetta hérna,en mér finnst eiginlega eitthvað vanta upp á frásögnina sem mér hefur ekki tekist að grafa upp enn,en það kemur.Þessir bræður áttu ekki langt að sækja sjómenskuna,því langafi Jón Guðmundsson frá Gamla-Hrauni áður Framnesi var formaður frá Eyrarbakka í 40 ár,en samt hætta þeir til sjós ungir og allir fara í skipasmíðar og Guðmundur og Afi eru meðal stofnenda Dráttarbrautarinnar í Vm árið 1925,og starfa báðir við það til æfiloka,Eitthvern vegin finnst mér þessi saga þeirra sem ruddu brautina í iðnvæðingu (skipasmíðum og vélvæðingu)vera lítt haldið við,í eyjum voru fjöldi dugandi manna og kvenna sem lögðu grunninn að því samfélagi sem við lifum í dag,meðal þeirra frændur þínir og frænkur sem tóku lífið og tilveruna sem áskorun og sigruðu hverja þraut.'I mínum huga eru þetta fólk hvurndagshetur sem verðskulda virðingu okkar og þökk.

Kveðja Laugi.

Sigurlaugur Þorsteinsson, 8.10.2011 kl. 07:17

3 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Sæll Sigmar, mig langar að þakka þér og Sigurlaugi fyrir góðan fróðleik um uppruna okkar, og mikið er ég sammála sigurlaug hér að ofan, mér finnst illa farið með gamla fólkið í dag og alla tíma, það er svo mikil vanvirðing við allt sem er gamalt, þá meina ég hér í Eyjum, mér dettur í hug fornminjar eins og báturinn Blátindur, sem liggur við bæjabryggjuna hér í höfn. Það á að taka hann í skipalyftuna eftir helgi og draga hann undir Þrælaeiðið.

Helgi Þór Gunnarsson, 8.10.2011 kl. 14:43

4 identicon

               Sæll Höfðingi !

Ég tek undir þetta hjá Sigurlaugi. Óli Borgarnes mun vera að skrifa ágrip af sögu bræðranna frá Gamla Hrauni, Þórðar á Bergi, Gunnars Marels, Guðmundar afa míns á Háeyri og Magnúsar, sem lést ungur en náði að vinna mikið afrek í bátasmíði. Maður sem fer út frá Vestmannaeyjahöfn á tíu tonna bát í myrkri og austan óveðri að leita bróður síns, sem farið er að óttast um hefur verið alin upp við víðan sjóndeildarhring. Þegar Guðni Jónsson prófessor, bróðir þeirra átti stórafmæli, bauð hann bræðrum sínum sem bjuggu í Eyjum til afmælisveislu. Sumir þeirra áttu ekki heimangengt. bátsferð einu sinni í viku upp í sand og hætta á að verða strandaglópar í RKV. Þá held ég enga veislu, sagði Guðni. Þeir fóru allir.

Og veislan var í lengra lagi. Jón faðir þeirra lést hér Eyjum. Var ákveðið að flytja lík hans með Erling Ve sem Gunnar átti hlut í og Guðmundur skipstjóri bróðir hans þekkti innsiglinguna mjög vel. Kistu föður þeirra settu þeir ílestina.

Þegar þeir komu að innsiglingunni var fjöldi manns komin á sjávarkambinn að fylgjast með og votta Jóni virðingu sína.

Nú vildi ekki betur til að báturinn tekur niðri og  strandar. ekki hægt að hreyfa hann. Fólkið var mjög undrandi.

Eldri kona sló á lær sér og lét þau orð falla að henni þætti þetta skrítið. Hann Jón sem er svo kunnugur hérna.

Afi minn Guðmundur á Háeyri var góður vinur Óskars bónda á Miðbælisbökkum, föður Guðrúnar Maríu.

Þegar hann sagði, hann er drengur góður, tók maður mark á því.

      Hafðu þökk fyrir áhuga þinn á velferð okkar sjómanna.

 Við Inga biðjum að heilsa í kotið. Óskar.

ps

Afi minn Guðmundur á Háeyri var góður vinur

Óskar Þórarinsson (IP-tala skráð) 8.10.2011 kl. 15:31

5 Smámynd: Sigurlaugur Þorsteinsson

Sæll Sigmar.

Ég verð að viðurkenna að í fartinni gleymdi ég Magnúsi en bót skal þar gerð á,ég gat nú ekki annað en brosað út í annað er ég las pistilnn hjá Óskari,þennann frásagnarstíl kannast ég við og þykir vænt um,hitt er um það að frændi verður sjaldan orðlaus frekar en aðrir af þessu kyni,en hver er þessi Óli Borgarnes,vænt þætti mér að komast í samband við hann.Saga þessara manna má ekki falla í gleymsku og dá.

Guðmundur á Háeyri var að ég held líkur hinum bræðrunum,fastur fyrir á sínu en hlýr og tryggur vinum sínum,þeir bræður gátu verið hrjúfir á yfirborðinu,en ef tekið er mið af Gróu gömlu og framkomu þeirra við hana þá sá maður fljótt hvern mann Þeir höfðu að geyma.Ég hef haft verulega gaman af að grúska í sögu þeirra og langafa Jóni á Gamla-Hrauni,og er búinn að setja inn ættina frá Jóni fram til 96 og er núna að leitast við að uppfæra hana til dagsins í dag,en það er töluverð vinna með myndum af sem flestum og æviágripi þeirra sem mér tekst að grafa upp,vonandi verður það fróðlegt þegar upp verður staðið,hvenær sem það verður.

Kv Laugi.

ps það væri gaman að spjalla við þig Óskar um fólið á Háeyri við tækifæri. 

Sigurlaugur Þorsteinsson, 8.10.2011 kl. 17:20

6 identicon

Sæll vertu varðandi spurningu Sigurlaugs hver Óli Borgarnes væri,, til upplýsinga fyrir hann þá er Óli með bloggsíðuna "Sólir"og einmitt 14-8-2011 er grein frá honum þennan atburð sem Sigurlaugur er að tala um kv þs

þs (IP-tala skráð) 8.10.2011 kl. 22:01

7 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heil og sæl guðrun María. Laugi, Óskar og Þórarinn og takk fyrir innlitið. Það er gaman að fá svona góðar og fræðandi athugasemdir.

Laugi ég er sammála þér að það vantar sárlega mikið upp á það að saga skipasmíða í Vestmannaeyjum sé skráð, þó eru til nokkrar greinar í Sjómannagagsblöðum og reyndar fleiri ritum um þessar skipasmíðar og vélvæðingu bátaflotans í vestmannaeyjum. Þetta væri verðugt verkefni sagnfræðinga að vinna, en ekki er mikill áhugi ráðamanna til að setja peninga í það. Það þarf kannski ekki sagnfræðinga til, því við Vestmannaeyingar eigum frábæra menn til að vinna svona verkefni og vil ég þar nefna vini mína Guðjón Ármann Eyjólfsson og Friðrik Ásmundsson, þessir menn gætu báðir skrifað um þessi málefni og örugglega margir fleiri.

Helgi Þór Já það er rétt hjá þér að það er skömm að því að ekki skuli vera gert meira fyrir Blátind VE hann er að grotna niður og verður sjálfsagt endanlega ónýtur eftir nokkur ár ef ekkert verður að gert. Þarna vantar einhverja sterka aðila til að berjast fyrir varðveislu þessa skips. Glórulaus vitleisa var að brjóta niður dýpkunarprammann Vestmannaaey sem var í ótrúlega góðu standi og ekki hefði verið dýrt að halda honum við.

Óskar,  þakka þér kærlega fyrir þitt innlegg í þetta blogg mitt frá Lauga, þetta var góð saga um afmælið og flutninginn af líkinu. Það er ótrúlega gaman að lesa sig til um þessa liðnu tíma ekki hvað síst vegna þess að maður man og þekkti marga af þessum mönnum. Þegar maður kom niður í slipp til Gunnars Marel að sníkja efni í boga eða sverð, fór hann oft sjálfur í það að leita að góðu efni eða lét einhvern skipasmiðinn í það. En oftast bað hann okkur að vera ekki þarna í slippnum það væri hættulegt, sem var auðvitað rétt hjá honum.  þakka þér enn og aftur fyrir athugasemdina óskar.       ´Við Kolla biðjum kjærlega að heilsa ykkur Ingu , þið kíkið kannski í kaffi þegar þið komið í Kópavoginn.

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 9.10.2011 kl. 00:07

8 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Kær kveðja frá Eyjum.

Helgi Þór Gunnarsson, 9.10.2011 kl. 12:59

9 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Þakka Óskari á Háeyri fyrir innleggið um föður minn heitinn, en ung vissi ég um Gvend á Háeyri, og reyndar flesta er nöfnum tjáði að nefna úti í Eyjum því pabbi var alltaf þar með hugann við sjómennskuna og sjósókn, þótt væri bóndi undir Fjöllunum.

kær kveðja. Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 10.10.2011 kl. 01:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband