Heimaklettur hátt þú rís

 Heimaklettur og Vestmannaeyjahöfn

Heimaklettur og Vinnslustöðin

Heimaklettur eftir Sigurbjörn Á Benónýsson 

 

Heimaklettur hátt þú rís

hrauns með gretta dranga.

Högg þér réttir hrannadís,

hörð og þétt á vanga.

 

Þú mátt brjóta stormastál

straumum móti gnafinn,

spyrna fótum Atlants-ál,

ölduróti kafinn.

 

Margra alda rún við rún

ristur gjaldameginn.

Upp í kaldann beitir brún,

bárufaldi þveginn.

Bátar inni í botni Heimaklettur
 

Þegar hríma hret á kinn,

hreggið hvín á skalla.

Norðri krýnir konunginn

köldu líni mjalla.

 

Þú ert bundinn ár og öld

út hjá sundi og vogum.

Mörg er stundin krapaköld

kólgu undir sogum.

 

Þó að megin Ránar rót

rjúki um vegu alla,

ei þú sveigir undan hót

eða hneigir skalla.

Heimaklettur og bátar 

Oft þó mæti gaman grátt,

gleði bætur lánar,

að um fætur þína þrátt

þreifa dætur Ránar.

 

Enn þú býður birginn einn

brögðum Víðisfalla,

sterkur, fríður, hár og hreinn,

höfuðprýði fjalla.

 

Til þín varma vorið nær,

vetrar armlög dvína,

sólarbjarma bylgjum þvær

brjóst og hvarma þína.

Egill Heimaklettur og hafnargarður 

Hafs að veldi hnígur sól,

hún þér geldur bætur,

dags að kveldi býr þitt ból

breiðum feldi nætur.

 

Ei er boðin hvíla köld,

klettagoða hlýnar,

aftanroði og árdags tjöld

eru voðir þínar.

 

Drauma vær er vaggan hlý,

vekur blær ei sæinn,

líf þó fæðist æðar í

undir skæran daginn.

 Heimaklettur í vetrarb.

Skugga- armur færist fjær.

Frjóvs með varma sínum

morgunbjarma  blærinn þvær

blund af hvarmi þínum.

 

Nóttin greiðir göngu frá,

gefinn eyðist frestur.

Röðull heiðum himni á

hraðar skeiði vestur.

 

Þó að landinn leggist nár

lífs á strandi grafinn,

þú munt standa eilíf ár

Ægisbandi vafinn.

 

Heimaklettur/ dufþekja

 

 

IMG_0612

 

 

EYJAR-25

 

 

Heimaey fyrir gos II

 

 

Vörubíll 2

 

Gulur Heimaklettur

 

Gulur Heimaklettur, myndina sendi mér Óskar Ólafsson stýrimaður

 

 

Mynd úr Heimakletti

 

Og þessa mynd af Vestmannaeyjahöfn sendi mér Ómar Kristmannsson hún er tekin ofan úr Heimakletti.

 

Heimaklettur er eftir Sveinbjörn Á. Benónýsson en hann hefur gert mörg falleg ljóð og vísur um Eyjarnar og um fólkið sem þar hefur búið. Ég skrifaði þetta upp úr mánaðarritinu Gamalt og nýtt frá nóvember 1949.

Sigmar Þór


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Sigmar.

Þetta er yndislega fallegur kveðskapur og myndirnar tala sínu máli með, takk kærlega.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 24.9.2011 kl. 02:09

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mikill fengur að þessu, ljóðið afbragð og ekki skemma myndirnar.

Takk fyrir!

Árni Gunnarsson, 25.9.2011 kl. 16:54

3 identicon

Takk fyrir þetta ljóð um það sem ég kalla ,,besta vin minn" kveðja úr eyjum.

margrét júlíusdóttir (IP-tala skráð) 26.9.2011 kl. 13:33

4 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heil og sæl Guðrún María, Árni og Margrét og takk fyrir innlit og kveðjur. Ég hef rekist á í gömlum blöðum og bókum mörg ljóð og vísur um Heimaklett, þessi er með þeim betri. Það er nú staðreynd að í hvert sinn sem maður heyrir nafnið Vestmannaeyjar kemur upp í hugan mynd af Heimakletti, þetta held ég að allir vestmannaeyingar upplifi. Sammála þér Margrét um besta vin þinn.

Kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 27.9.2011 kl. 21:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband