8.6.2011 | 18:03
Guðmundur Jónsson á Háeyri skipstjóri og skipsmiður
Guðmundur Jónsson á Háeyri við Vesturveg á sér markverða sögu , sem er nátengd útgerðarsögu Vestmannaeyja. Saga hans er snar þáttur í sjósókn, aflabrögðum og ekki síst báta- og skipasmíðum Eyjamanna frá því laust eftir aldamótin 1900.
Guðmundur fæddist að Framnesi í Hraunshverfi við Eyrarbakka 1888 hann lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 27. nóvember 1976.
Foreldrara hans voru hjónin Jón Guðmundsson, formaður og Ingibjörg Jónsdóttir. Þau hjón eignuðust 17 börn , 10 syni og 7 dætur.
Guðmundur var í áratugi farsæll formaður á bátum frá Vestmannaeyjum og einnig vann hann seinni part ævi sinnar við skipasmíðar. Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja segir að Guðmundur Jónsson á Háeyri hafi verið sérlega traustur og öruggur formaður, rólyndur gætinn og athugull og virtur af skipsfélögum sínum. Þeim var kært að vera með honum og fundu til öryggiskenndar undir hans stjórn. Aldrei urðu slys á mönnum sem með honum voru á hans formansferli. Guðmundur kvæntist árið 1912, kona hans var Jónína Sigurðardóttir frá Nýborg.
Þetta kvæði orti Brynjólfur Eiarsson skipasmiður m.m.
um vin sinn Guðmund Jónsson á Háeyri, er hann var áttræður.
Margt er um Gvend hinn góða skrifað.
Greinilegt er að hann hefur lifað
öðrum fremur en sjálfum sér.
Okkar samtíðar annar Gvendur
er við Háeyri jafnan kendur,
einkenni hins í ýmsu ber.
Gvendur sá er af góðu kynntur,
góðu málefni hverju hlynntur,
lipur til verka og lundin hress.
Leiðbeindi þeim, sem lítið kunnu
létti á þeim, sem honum unnu;
ég hefi lengi þekkt til þess.
Nú er hann orðinn næsta roskinn;
nú er dofnaður líkamsþorstinn;
að hætta slitvinnu meira en mál.
Þótt skrokkinn hafi hann skemmt með striti,
sem skæla hvern meðal járnkarl hlyti,
ennþá er furðu ung hans sál.
__ __ __
Sótti hvorki um brauð né biskupsstóla,
bar sig vel á hverju sem á gekk,
en með sæmd í lífsins langa skóla
lauk hann prófi upp úr hverjum bekk.
Brynjólfur Einarsson.
Að mestu leiti byggt á skifum í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja og Blik
Athugasemdir
Góður pistill eins og allt frá þér Sigmar/kveðja og þakklæti !!!!!
Haraldur Haraldsson, 8.6.2011 kl. 18:32
Sæll Sigmar,góður pistill um afabróður minn,en það er eins og mig minni að afi og Guðmundur hafi sem formenn á sitt hvorum áttæringnum lent í óveðri og orðið að berja uppí við Bjarnareynna og Þórður á Bergi hafi mannað bát sinn og farið út til móts við þá og bræðurnir hafi haft það með barningi og undanslætti að komast undir eyðið og þar í land.
Ég las þetta eitthverju sinni sem drengur og spurði af út í þetta,en gamli gerði lítið úr og sagði þá alla hafa sloppið með skrekkinn,málið er að ég man ekki lengur hver bókin er.
Kv Laugi
Sigurlaugur Þorsteinsson, 8.6.2011 kl. 22:55
Heilir og sælit Haraldur og Laugi og takk fyrir innlitið. Það er gaman að minnast þessara manna sem settu svip sinn á bæinn á sínum tíma, ég man vel eftir Gumundi á Háeyri en þá var hann í skipasmíðinni. Gaman væri ef þú gætir grafið upp þessa sögu Laugi, það er alltaf fróðlegt að rifja upp þannig sögur.
Ekki skemmir það ef maður finnur fallegt ljóð um þessa menn, ljóð eftir Brynjólf Einarsson eru að mínu mati undantekningarlaust bæði skemmtileg og góð.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 8.6.2011 kl. 23:11
Sæll Sigmar.
Kærar þakkir fyrir þennan pistil, og það að halda á lofti minningu um menn.
Pabbi var alltaf með hugann úti í Eyjum, þar sem hann var til sjós ungur eins og svo margir en sögur af mannlífi í Eyjum var eitthvað sem ég fékk með móðurmjólkinni.
Sveipað ævintýraljóma um hetjur hafsins, þar með talið Guðmund á Háeyri.
góð kveðja.
Guðrún María.
Guðrún María Óskarsdóttir., 8.6.2011 kl. 23:58
Kærar þakkir fyrir pistilinn. Háeyringar koma saman á ættarmóti í Eyjum í ágúst og þá verður gaman að fá að heyra fleiri sögur af Guðmundi frá mönnum eins og Sigga og Óskari á Háeyri.
Guðmundur Hörður Guðmundsson (IP-tala skráð) 9.6.2011 kl. 10:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.