3.6.2011 | 20:04
Sjómannadagurinn tekinn eignarnámi.
Sjómannadagurinn tekinn eignarnámi
Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga fyrir Sjómannadeginum. Í Vestmannaeyjum var hann einn skemmtilegasti hátíðardagur ársins og við peyjarnir sem áttum sjómenn sem feður og ættingja vorum svo sannarlega stoltir að tengjast þeim og þar með Sjómannadeginum. Sérstaklega fann maður það sterkt á þessum degi. Þegar ég síðar gerði sjómennskuna að ævistarfi mínu, gerði ég mér fljótt grein fyrir því að þessi dagur var miklu meira en skemmtun í tvo daga, hann er ómetanlegur hluti af stéttarbaráttu okkar sjómanna.
Í Vestmannaeyjum má segja að allir tengist sjómönnum á einn eða annan hátt eins og víða í sjávarbæjum úti á landi. Á Sjómannadaginn kynntum við sjómannsstarfið, minntumst þeirra sem höfðu látist í slysum á sjó, heiðrað sjómenn og ekki hvað síst gert okkur glaðan dag með fjölskyldum vinum og skipsfélögum.
Þess vegna er það mér óskiljanlegt að sjómenn skuli ekki mótmæla því að Sjómannadagurinn skuli nú vera tekinn eignarnámi og uppnefndur Hátíð hafsins á Reykjavíkursvæðinu þar sem öll stærstu sjómannafélög landsins eru staðsett. Hafið hefur tekið líf margra sjómanna sem voru vinir okkar og skipsfélagar. Til fróðleiks má nefna hér að af mínum jafnöldrum sem fæddir voru í Vestmannaeyjum 1946 eru fjórir sem fórust í þremur sjóslysum, þó vorum við einungis 12 peyar sem völdum sjómennsku sem ævistarf.
Þess má einnig geta að á árunum 1962 til 1992 þegar ég stundaði sjó frá Vestmannaeyjum, fórust 58 sjómenn sem voru á bátum frá Eyjum, og einnig eru hér taldir með þeir Eyjasjómenn sem fórust og stunduðu sjó annarstaðar á landinu. Auk þess létu lífið 3 erlendir menn í sjóslysum við Eyjar, og 3 sjómenn drukknuðu sem voru á aðkomubátum sem lágu í Vestmannaeyjahöfn, þá má hér minnast hjóna sem drukknuðu þegar bíll þeirra fór fram af Friðarhafnarbryggju, fl. dauðaslys hafa orðið við Eyjar á þessum tíma en verða ekki tíunduð hér. Þessi tala um dauðaslys á sjó væri að sjálfsögðu mun hærri ef taldir væru allir þeir íslensku sjómenn sem fórust á þessu tímabili annars staðar á landinu.
Það er eitt af markmiðum Sjómannadagsins að minnast þessara manna. Það verður ekki gert með því að uppnefna og fela daginn með þessu arfavitlausa nafni Hátíð hafsins. Finnst mönnum það viðeigandi að minnast þeirra sjómanna sem farist hafa á hafi úti og margir þeirra gista hina votu gröf, á degi sem kallaður er Hátíð hafsins? Að mínu viti er þetta fráleitt og hreinlega móðgandi fyrir sjómenn. Þessi gjörningur Sjómannadagsráðs er þegar farinn að smita út frá sér og sjómenn í hugsunarleysi farnir að endurnefna daginn.
Í Þorlákshöfn þar sem flest snýst nú um sjóinn og tengd störf, hafa þeir apað þetta eftir Reykjavíkurfélögunum og uppnefna nú Sjómannadaginn sinn Hafnardaga, og sjómenn samþykkja þetta umyrðalaust. Það er ótrúlegt að engin sjómaður skuli mótmæla þessu opinberlega á þessu svæði. Það er eins og sjómenn geri sér ekki nokkra grein fyrir því hvað Sjómannadagurinn er sjómönnum mikilvægur við stéttarbaráttuna og kynningu á starfi sjómanna.
Sjómannadagurinn er hátíðisdagur haldin sjómönnum til heiðurs, en ekki hátíð hafsins.
Í lögum um Sjómannadaginn segir m.a.:
2. grein a) Sjómannadagsráð hefur með höndum hátíðahöld Sjómannadagsins ár hvert í samræmi við stofnskrá um Sjómannadag frá 1937 og lög um Sjómannadag, nr. 20, 26.mars 1987. Við tilhögun Sjómannadags skulu m.a. eftirfarandi markmið höfð að leiðarljósi: 1. Að stuðla að því að Sjómannadagurinn skipi verðugan sess í íslensku þjóðlífi.2. Að efla samhug meðal sjómanna, hinna ýmsu starfsgreina sjómannastéttarinnar og stuðla að nánu samstarfi þeirra.3. Að heiðra minningu látinna sjómanna, þá sérstaklega þeirra sem láta líf sitt vegna slysfara í starfi.4. Að heiðra fyrir björgun mannslífa og farsæl félags- og sjómannsstörf.5. Að kynna þjóðinni áhættusöm störf sjómanna og mikilvægi starfanna í þágu þjóðfélagsins. b) Sjómannadagsráð hefur enn fremur m.a. eftirfarandi höfuðmarkmið í velferðarmálum sjómannastéttarinnar. 1. Að afla fjár til þess að reisa, kaupa og reka dvalarheimili, hjúkrunarheimili, vistunar- og endurhæfingaraðstöðu, íbúðir og leiguíbúðir, einkum fyrir aldraða sjómenn og sjómannsekkjur.2. Að stuðla að byggingu og rekstri orlofshúsa, sumardvalarheimila og alhliða orlofsstarfssemi fyrir sjómenn, fjölskyldur þeirra og starfsmenn samtaka þeirra.3. Að beita sér í fræðslu og menningarmálum er sjómannastéttina varða og vinna að velferðar- og öryggismálum hennar.4. Að beita áhrifum sínum á stjórnvöld til setningu löggjafar til styrktar framgangi markmiða Sjómannadagsráðs.
Ég er samfærður um að með því að uppnefna Sjómannadaginn Hátíð hafsins er ekki verið að stuðla að því að Sjómannadagurinn skipi verðugan sess í íslensku þjóðlífi, og því síður eflir það samhug sjómanna eða kynnir þjóðinni áhættusöm störf þeirra og mikilvægi, að fela Sjómannadaginn í þessu fáránlega nafni Hátíð hafsins.
Ég hef rætt þetta við marga starfandi sjómenn og hef engan hitt sem er ánægður með þessa nafnbreytingu. Nokkrir sem ég hef rætt við segja þetta afleiðingu þess að sum af stéttarfélögum sjómanna hafa verið sameinuð stórum landfélögum og þar með hafa tekið völdin menn sem hafa takmarkaðan áhuga á sjómannsstarfinu eins og dæmin sanna, þá nefna þeir lítinn áhuga sjómanna á félagsmálum.
Ég hef einnig rætt þetta við nokkra forustumenn í stéttarfélögum sjómanna í Reykjavik og þeir hafa sagt mér að ef Faxaflóahafnir hefðu ekki tekið þátt í hátíðahöldum sjómannadagsins, hefði hann sennilega lagst af. Það eru forustumenn sjómanna sem svona tala. Þá spyr sá sem ekki veit: Hafa Faxaflóahafnir virkilega sett þau skilyrði fyrir því að styrkja Sjómannadaginn, að nafni dagsins verði breytt í Hátíð hafsins? Ef svo er, samþykkti Sjómannadagsráð það umyrðalaust? Ef þetta er svona í pottinn búið er ekki von á góðu frá Sjómannadagsráði sem í eru hvorki meira né minna en 34 menn og 31 til vara. Að sjómannadagsráði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar standa eftirtalin stéttarfélög sjómanna: Félag skipstjórnarmanna, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Sjómannafélag Íslands, Félag íslenskra loftskeytamanna, Sjómannafélag Hafnafjarðar og Félag bryta.
Hvað vakir fyrir þeim stjórnarmönnum sjómannafélaga og stjórn Faxaflóahafna að vilja breyta nafni Sjómannadagsins? Þetta er allt hið furðulegasta mál sem sjómenn ættu að hugsa alvarlega. Allir hugsandi menn hljóta að sjá að þessi breyting á nafni Sjómannadagsins er niðurlægjandi fyrir sjómannastéttina, þótt Sjómannadagsráð sjái það ekki. Að sjómannasamtökin skuli samþykkja þessa breytingu á nafni Sjómannadagssin sýnir það svart á hvítu að Sjómannadagsráð er gjörsamlega slitið úr tengslum við sjómennina sjálfa. Síðan má auðvitað nefna að lítil sem engin endurnýjun hefur verið í forystu Sjómannadagsráðs. Þar hafa sömu menn verið við völd í áratugi. Það hlýtur að vera farsælla að endurnýja í forustu Sjómannadagsráðs eins og nauðsynlegt er í öllum öðrum félögum og gert er í Sjómannadagsráðum annars staðar á landinu. Þetta eru eflaust allt ágætir menn sem sitja í Sjómannadagsráði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, en ættu engu að síður að leyfa yngri mönnum að komast að, mönnum sem eru tilbúnir að verja hagsmuni sjómanna betur, alla vega finnst mér það lagmarkskrafa að þeir verji nafn Sjómannadagsins, þennan eina dag sem sjómenn sannarlega eiga lögum samkvæmt.
Að lokum vil ég skora á sjómenn um land allt að mótmæla því harðleg að Sjómannadagurinn sé uppnefndur Hátíð hafsins eða öðrum nöfnum. Við eigum ekki að sætta okkur við annað en að hann sé kallaður sínu rétta nafni, Sjómannadagurinn.
Gleðilegan Sjómannadag. Sigmar Þór Sveinbjörnsson
Athugasemdir
Ég tek undir hvert orð í þessari grein þinni. En því miður er þessi óáran ekki eingöngu bundin við höfuðborgarsvæðið, þótt hún sé mest áberandi, skömminni skást er þetta reyndar í Grindavík þar sem hátíðin heitir "Sjóarinn síkáti" t.d í Þorlákshöfn eru "Hafnardagar" og mörg fleiri dæmi mætti taka. Það sem einna mest fór fyrir brjóstið á mér var að sjá NIÐURLÆGINGU "Sjómannadagsblaðsins" sem var fylgikálfur Morgunblaðsins í gær. Fyrir það fyrsta var afskaplega lítið í því blaði sem minnti á Sjómannadaginn eða sjómenn yfirleitt, nema kannski auglýsingarnar. MÉR VARÐ Á AÐ HUGSA, EFTIR LESTUR ÞESSA BLAÐS, AÐ NIÐURLÆGING SJÓMANNADAGSINS OG SJÓMANNASTÉTTARINNAR YFIRLEITT GÆTI VARLA ORÐIÐ MEIRI.
Jóhann Elíasson, 3.6.2011 kl. 20:26
Heill og sæll Jóhann og takk fyrir innlitið og góða athugasemd. Já það er merkilegt að sjómenn skuli ekki átta sig á þessu rugli. Mér hefur þó fundist þetta vera í lagi í Grindavík þar sem þeir bæta við nafn Sjómannadagsins "Sjóatinn síkáti" þar haf þeir alltaf tengt þetta Sjómannadeginum. Þeir hafa einnig gefið út mjög flott Sjómannadagsblað eins og margir fleiri úti á landi. Ég vona að sjómenn taki þetta mál Sjómannadagsins til umræðu, þeir hljóta að sjá hvert stefnir ef þetta lið fær að ráða.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 3.6.2011 kl. 20:43
Sæll Sigmar
Þetta eru góðar hugleiðingar og auðvitað finnst manni ekki í lagi að breyta um nafn á Sjómannadeginum. Það væri annað ef þetta væri t.d. SJÓMANNADAGURINN - Hátíð hafsins, þá væri Sjómannadagurin í forgrunni og Hátíð hafsins sem góð viðbót.
Sjómannadagurinn var og er heima á Norðfirði ein stærsti hátíðisdagur ársins, ekki ósvipað og í Eyjum. Mér skilst að í dag séu rétt ríflega 4000 sjómenn á Íslandi en voru yfir 9000 fyrir aldamótin. Þannig fækkar sjómönnum á sama tíma sem landsmönnum hefur fjölgað. Þessir færri sjómenn flytja meiri afla að landi pr sjómann en nokkru sinni fyrr. Þannig fækkar Íslendingum sem eiga beina tengingu við sjómenn og sjómennsku, þó greinin sé áfram einn allra mikilvægasti undirstöðu atvinnuvegur okkar.
Ég hef velt fyrir mér hvort það gæti ekki verið Sjómannadeginum til gagns að flytja dagsetninguna og halda sjómannadaginn hátíðlegan síðla sumars. Núverandi dagsetning miðaðist við að útgerðir voru komnar heim af vetrarvertíð og þessi tími í byrjun júní, var svona smá millibilsástand hjá bátunum áður en farið var á suamr úthald. Forsendur sem ákvörðuðu þessa tímasetningu eru ekki lengur fyrir hendi. Í byrjun júní er varla komið sumar á Íslandi (nema kannski í Eyjum). í dag er aðal sumarleyfis tími landsmanna í kringum Verslunarmannahelgina. Þá eru líka oft t.d. frystitogara í landi áður en farið er út til að afla og landa á nýju kvóta ári í september. Þá eru líka margir bátar í landi sökum þess að þeir eru búnir með kvóta. Þetta er líka sá tími ársins þegar hvað hlýjast er á landinu okkar og margir landsmenn í sumarleyfi. Þannig eru mörg rök fyrir því að tímasetning fyrir Sjómannadag helgina fyrir eða eftir Verlunarmannahelgi henti betur bæði útgerð og sjómönnum.
Ég hef því velt fyrir mér hvort það gæti verið gott fyrir Sjómannadaginn að hann yrði fluttur til og haldinn helgina fyrir eða eftir Verslunarmannahelgi. Þá væri a.m.k góð vika sem væri bara almennt frí á landinu, ekki ósvipað og sem er t.d. í Noregi sem þeir kalla "fælles ferie". En lykilatriði er eftir sem áður að þetta sé Sjómannadagur, sem er hátíðisdagur þeirra sem hafa atvinnu af því að sækja björg í bú í greipar Ægis. Og okkar hetjur hafsins geti notið síns hátíðardags sem best með fjölskyldum sínum og vinum.
Gísli Gíslason, 3.6.2011 kl. 21:46
Góð og þörf hugvekja hjá þér Sigmar. Lykillinn held ég að sé samstaða sjómanna, í gegnum sjómannafélög, um land allt. Markaðssetning Sjómannadagsins hefur sínar skuggahliðar, sbr. Þjóðhátíðina í Eyjum.
Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 3.6.2011 kl. 22:10
Sammála Sigmar. Ég er þó ánægður með LÍÚ og útgerðir sem eru að óska sínu fólki til "HAMINGJU MEÐ SJÓMANNADAGINN".
Þetta hátíð hafsins er mjög ósmekklegt veit ekki hvað vakir fyrir fólki eða hvaða þörf er fyrir þessa nafnbreytingu.
Ólafur Örn Jónsson, 3.6.2011 kl. 22:18
Sæll, Sigmar. Ítök sjómanna á eigin degi hafa minnkað ár frá ári og skemmtanahald tekur víða mið af öðru en sjómennsku og tengdum hlutum. Þó glittir enn í gamla stemmningu í gömlu fiskiþorpunum, þar á þessi dagur sinn sess og kallaður sínu rétta nafni. Rót vandans er fjarlægð sjómennskunnar frá hinum venjulega íslendingi sem býr nú í miðstýrðu borgríki. Kvótakerfið með sinni margumtöluðu hagræðingu gerir æ færri borgurum kleift að stunda sjómennsku, hagræðingin útrýmir störfum, mannsæmandi launum og áhuga ungra íslendinga til að leggja starfið fyrir sig. Ímynd sjómannsins er stórlega löskuð og arður hinnar gríðar gjöfulu fiskiauðlindar flestum lítt sýnilegur. Hatrammar deilur um atvinnugreinina fæla fólk svo enn í burtu. Sjómannadagur dagsins í dag hangir því saman á hefð en ekki innihaldi. Til að breyta þessu þurfa sjómenn að berjast fyrir rétti sínum sem sjálfstæðir einstaklingar en ekki aftaníossar hagsmunasamtaka.
Kveðja, LÁ
lydurarnason (IP-tala skráð) 3.6.2011 kl. 22:29
Þetta er þörf og tímabær hugvekja hjá þér Sigmar varðandi Sjómannadaginn,takk fyrir.
Þetta er 73. Sjómannadagurinn frá því byrjað var að halda hann hátíðlegan. Við teljum árin saman.
Í mínum huga hefur þessi dagur alltaf verið heilagur hátíðisdagur tileinkaður öllum sjómönnum fyrr og síðar.
Sjálfur byrjaði ég að sækja sjó með föður mínum um 14 ára aldurinn. Líf ungra manna á þeim tímum tengdist sjónum mjög sterklega. Atvinnulífið var fábreytt og möguleikarnir til að afla góðra tekna voru á sjó.
Virðing sjómanna var mikil. Þeirra vinna var undirstaða lífsins í landinu.
Það voru ekki mörg heimilin í landinu að ekki væri sjómaður innan þeirra.
Nú er þjóðlífið orðið gjörbreytt . Menntafólkið er yfignævandi og störf fæstra þeirra tengjast sjó . Nú eru færri heimili í landinu þar sem sjómaður er innandyra.
Tengsl þjóðarinnar við sjóinn hafa minnkað stórum frá því sem var í upphafi Sjómannadagsins.
Farmennska er að þynnast út. Erlend leiguskip með erlendum áhöfnum að mestu.
Fiskveiðiflotinn orðinn mjög tæknivæddur. Störfum/fisktonn hefur fækkað mikið.
En að þessi þjóð ætli að afnema Sjómannadaginn- er hneisa.
Hátíð hafsins er innihaldslaus frasi sem enga merkingu hefur í lífi þessarar þjóðar.
Sjómannadagurinn er helgaður öllum sjómönnum Íslands frá upphafi.
Höldum Sjómannadaginn hátíðlegan um ókomin ár.
Kveðja.
Sævar Helgason, 3.6.2011 kl. 22:58
Þakka þessa hugvekju mjög þörf og góð!!!Vona bara að Ráðherran Jón Bjarnason komi ekkert við sögu þennan dag!!!/Kveðja og þakklæti !!!
Haraldur Haraldsson, 3.6.2011 kl. 23:01
Sæll Sigmar, takk sammála þér !
Snorri Gestsson, 3.6.2011 kl. 23:39
Sæll Sigmar.
Ég er innilega sammála þér, en mér til mikillar ánægju er Sjómannadagur í Hafnarfirði, og meira segja ögn veglegri en áður ef ég man rétt.
kv.Guðrún María.
Guðrún María Óskarsdóttir., 3.6.2011 kl. 23:47
Sæll Sigmar.
Það er í raun ekki hægt annað en að vera sammála þér í þessu,Sjómannadagurinn er í fyrsta lagi lögbundinn frídagur sjómanna og sem slíkur verið tákn sjómennsku um allt land og helgaður störfum og lífi sjómannsins sem hefur dregið fisk að landi,flutt farangur og fólk,flutt póst og í raun verið sú stétt manna sem borðið hafa hvað stæðstu byrðar þjóðfélagsins frá landnámi og sannaðist það svo ekki verður hrakið nú síðast í hrunadansinum sem taumlaus græðgi fjármálspegulanta olli.
Það er snarvitlaust að láta það viðgangast að nafni hans og tilgangi verði breytt og eins og þú nefnir löngu kominn tími á að skipta út í Sjómannadagsráði og koma í veg fyrir að hægt sé að sitja þar í áratugi,það er ekki hollt fyrir neinn að sitja í slíku ráði lengi og allra síst þá sem starfa á fyrir.
Ég tek undir með þér varðandi Sjómannadaginn heima í Eyjum,þar komu saman vinir sem féndur,frændlið og félagar,útgerðarmenn og sjómenn,konur,karlar,börn og eldra fólk í því augnamiði að halda daginn hátíðlegan og heiðra minningu þeirra sem gengnir eru og fagna fersku liði nýrra sjómanna og næra þá samkend sem einnkennir allar sjómansfjölskyldur og kemur berlega í ljós þegar vá ber að höndum.
Sjómannadagurinn einstakur og lögbundinn og á að vera í friði sem slíkur.
Kv Laugi.
Sigurlaugur Þorsteinsson, 4.6.2011 kl. 09:11
Fyrir sjómanninn geymir SJÓMANNADAGURINN minningarnar sem menn tala ekki um. Söknuðin, glímuna við hafið, efiðið og gleðina af afloknum góðum túr.
Blaðamaðurinn spurið Óla ufsa "hvað var það fyrsta sem þú gerðir þegar þú komst heim"?
"Elskaði konuna" svaraði Oli
"Og svo"? spurði blaðamaðurinn
"Elskaði konuna" svaraði Óli aftur
"Og svo" var spurt
"Fór úr stígvélunum" var svarið
Ólafur Örn Jónsson, 4.6.2011 kl. 09:23
Málefnaleg og góð hugleiðing hjá þér eins og alltaf. Hins vega komum við heim minnir mig 2008? og mér fannst bleik brugðið. Þáttakan ekkert í líkingu við það sem við sáum sem börn. Uppistaðan í koddalagnum og atriðum börn og unglingar en ekki ungir hraustir sjómenn? En það versta fólksfæð hvað sem veldur? Til hamingju með daginn vinur. Kær kveðja úr Golu RE 945 í suðurbuktinni ...
Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 4.6.2011 kl. 12:00
Heill og sæll Sigmar Þór Sveinbjörnsson.
Þínar hugleiðingar eiga rétt á sér. Sjálfsagt hefur verið fenginn auglýsingastofa til upphefja Sjómannadaginn. Yfirleitt var dagurinn haldinn á miðbakkanum þar sem aðsókn fór dvínandi ár frá ári. Þá var tekið á það ráð að henta trillukörlum út úr verbúðum sínum í þeirra stað komu veitingarstaðir og hátíðarhöldinn færð og tengt saman með sjóminjasafninu. Mig grunar að Faxaflóahafnir hafi staðið fyrir þessari nafnbreytingu með hjálp auglýsingastofu enda standa Faxaflóahafnir undir þeim kostnaði. Það er rétt hjá þér það er lítið talað um öryggismál sjómanna eða það sem tekist hefur vel.
Eitt sem mætti fjalla um er eitt stærsta afrek sjómanna á síðari tímum þegar eldur braust út í m/s Goðafossi í átakaveðri á leið til Færeyja í vetur. Ölduhæðin var á við Esjuna á móti, menn geta rétt ímyndað sér átökin sem þar áttu sér stað. Sumir fengu reykeitrun og urðu að liggja á gangi skipsins, á meðan barðist þessi hetjulega áhöfn við eldtungu og brottsjó á meðan. Hvorki skip né þyrla voru til taks þarna hefði geta orðið stór slys, því ekki var hægt að fara í yfirbyggðan björgunarbát því eldtungur stóðu á bátinn það eina sem var þá eftir það voru þessir gúmsbjörgunarbátar sem þú talar Sigmar um. Um þetta hefur verið lítið fjallað. Það sem gerði gæfu munninn voru æfingar um borð, Slysavarnaskóli Sjómanna, Nikkulás Halldórsson skipstjóri og áhöfn hans. Með í þessari för var Einar Örn Jónsson slökkviliðmaður sem var stýrimaður í þessari ferð enda er Einar landsþekktur á meðal sjómannastéttarinnar sem fyrrverandi kennari í Slysavarnaskóla Sjómanna.
Jóhann Páll Símonarson.
Jóhann Páll Símonarson, 4.6.2011 kl. 15:01
Takk fyrir góðan pistill Sigmar. Þessi breyting (eða afskræming) á Sjómannadeginum á sér þjóðfélagslegar rætur. Ég held (og nú er ég bara að hugsa upphátt) að þetta tengist þeirri hugsun að allt á að vera skemmtilegt. Frá sjónarhóli samtímans voru hátíðarhöld á Sjómannadegi fortíðarinnar leiðinleg. Við lifum í svomiklu músarsamfélagi að við erum hægt og bítandi að bola burt allri hefð. Afþreygingin er núna hreyfiaflið sem öllu ræður. Í dag lagði ég leið mína niður að Reykjavíkurhöfn í tilefni dagsins. Þar sá ég fjóra hoppikastala og blöðrur.
H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 4.6.2011 kl. 18:23
Til hamingju með morgundaginn Sigmar minn og ég er svo hjartanlega sammála þér hafandi föður, afa, frændur og forfeður sem sjómenn. Ég hafði aldrei velt þessu fyrir mér á þennan hátt en ég er sko algjörlega sammála þessum rökum. Þetta er ykkar dagur, ekki hafsins !
kv.
Katrín Eva
Katrín Eva Auðunsdóttir (IP-tala skráð) 4.6.2011 kl. 21:55
Mikið er ég sammála þér Sigmar Þór og mun því setja tengil á mína síðu á þessa grein þína. Kveðja Emil Páll
Emil Páll (IP-tala skráð) 4.6.2011 kl. 22:14
Sæll sigmar, ég er sammála þér hér að ofan, og ég tek eftir því að það nefnir engin ástæðuna fyrir því hvað sjómenn þegja yfir nafnabreytingunni á Sjómannadeginum, en að mínu mati er það "þrælsótti"
Atvinnuástandið til sjós er orðið þannig eftir bankahrun, að þau skip sem var erfitt að manna fyrir hrun eru fullmönnuð og jafnvel erfitt að komast um borð í þau nú.
Kær kveðja frá Eyjum.
Helgi Þór Gunnarsson, 6.6.2011 kl. 07:00
Þannig er ástandið orðið í umræðunni um fiskveiðistjórnina og sjávarútveginn. Enginn sem á eitthvað undir sjávarútvegi eða mönnum sem tengjast sjávarútvegi má viðra skoðanir sínar ef þær fara gegn hagsmunum þessara alfa.
Einhver kallaði þetta fasisma þar sem farið er eftir mönnum með ofbeldi innan þjóðfélagsins. Þeim meinaður aðgangur að annars sjálfsögðum hlutum eins og tíðkast í venjulegu viðskipta samfélagi. Menn sviptir atvinnu og viðskiptum, farið á eftir fyrirtækjum með viðskipta þvingunum.
Skyldi ekki vera tími til kominn að kanna hegðun sumra manna í útgerð og framkomu þeirra við starfsmenn í greininni.
Ólafur Örn Jónsson, 6.6.2011 kl. 07:42
Ég skal viðurkenna að ég deili með þér Sigmar þessum söknuði eftir hinum gamla tíma. En - það var gamall tími, löngu liðinn og kemur ekki aftur.
Það eru áratugir síðan hinn eiginlegi kappróður á Sjómannadeginum lagðist af. Það tók langan tíma, en ég man eftir því þegar ég spurði pabba heitinn, líklega á árunum 1965-1967, hvers vegna þeir kepptu ekki í róðrinum á hans skipi. Þegar hann svaraði rann upp fyrir mér að Sjómannadagurinn var að breytast. Hann sagði mér að áhafnirnar hefðu ekki nægan áhuga og þeir væru illa æfðir þannig að t.d. síðast þegar þeir kepptu komust þeir lítið áfram, árarnar "flæktust" alltaf saman. Upp úr þessu var farið að keppa í róðri með einhverjum hópum úr landi. Veit ekki hvað tíðkast nú í þessum efnum, sá einhvers staðar myndir frá kappróðri nú um helgina, tvö lið kepptu.
Þegar ég var polli var einhver uppákoma við höfnina, í þorpinu voru nokkrir vertíðarbátar og dálítil stemning í kring um suma þeirra, yngri strákarnir af bátunum kepptu í koddaslag og stakkasundi. Ég man eftir myndum í Mogganum lengi vel af stemningu í Eyjum á sjómannadaginn. Þegar ég var sjálfur til sjós á unglingsárunum fór sjómannadagurinn af einhverjum ástæðum að mestu framhjá mér. Bjó þá í Hafnarfirði, þar voru einhver hátíðarhöld.
Í minningunni eru hátíðarhöld Sjómannadagsins ekki neitt sem maður hlakkaði til. Í Reykjavík og Hafnarfirði voru þau dreifð út um allt, þar og á öðrum stöðum sem ég upplifði þetta tóku þau langan tíma og maður gat illa fylgst með dagskránni, veðrið var jafnan kalt og oft hvasst líka.
Það er á fimmta áratug síðan ég man eftir að Sjómannadeginum var farið að hraka mjög sem hátíð. Ég held að til þessa dags hafi sú þróun verið hæg, en nokkuð örugg.
Hins vegar, eins og ég sagði í byrjun, ég sakna Sjómannadagsins sem hátíðisdags. Kannski gerðu sjómenn best í því að endurhugsa þennan dag og gera hann á ný að eftirsóttri hátíð, hvort heldur fyrir sjálfa sig eða þjóðina alla.
Já, og hvað varðar nafngiftina, ég er sammála að felunöfnin (Hátíð hafsins o.s.frv.) eru leiðinleg. Einhvern tíma spurðist ég fyrir um þetta í Reykjavík og fékk þau svör að hafnarstjórnin hefði ákveðið þetta nafn eftir að farið var að skipuleggja sýningar og fjölbreytilega dagskrá fyrst á Miðbakka og svo úti á Granda í viðbót við hina hefðbundnu Sjámannadagshátíð í Reykjavík og byrjað var á laugardeginum. En, ekkert bannar sjómönnum að nota áfram og óhikað hið gamla (og lögbundna) nafn, Sjómannadaginn.
Í lokin segi ég og ítreka: Það yrði þarfaverk að hugsa Sjómannadaginn upp á nýtt, gera hann skemmtilegan, aðlaðandi og um leið áfram hátíðlegan og virðulegan. Sá tími er einfaldlega liðinn að öll heimili tengdust beint sjónum, sjómenn og samtök þeirra eiga að lifa í nútímanum, þótt jafnsjálfsagt sé að sýna hinu liðna virðingu eins og jafnan er gert á Sjómannadaginn.
Kveðja,
Þórhallur Jósepsson
Þórhallur Birgir Jósepsson, 6.6.2011 kl. 16:14
Sæll Sigmar eg er innilega sammála þér hér þarf að sporna við fótum svo að þetta endi ekki í tómu rugli þeir hafa 364 daga aðra til að skíra í höfuðið á hafinu kv. 'Oskar 'Olafss
oskar m. olafsson (IP-tala skráð) 6.6.2011 kl. 17:59
Heil og sæl öll sem hafa skrifað hér athugasemdir undir þessa grein mína, ég verð að viðurkenna að ekki datt mér í hug að ég fengi svona góða umræðu um þetta hjartans mál mitt að verja Sjómannadaginn. Þetta eru allt frábær skrif hjá ykkur og það gleður mig að langflesstir ef ekki allir eru mér sammála, ég þakka ykkur hér með innilega fyrir innlitið og málefnalegar athugasemdir. Þessar athugasemdir koma reyndar heim og saman við það sem ég hef áður fundið hjá hjá sjómönnum þegar ég hef rætt við þá um þessi mál, þeir eru ósáttir við þennan gjörnig Sjómannadagsráðs, en sjómenn virðast ekki tilbúnir að berjast á móti þessu. Þessi góðu viðbrögð við þessari grein minni ætti að stappa stálinu í sjómenn að mótmæla þessu og vinna að því að skipta út þessum mönnum sem hafa ráðið þarna í tugi ára, og geta ekki varið nafn Sjómannadagsins.
Ágætu bloggarar, þessi umræða og frábærar athugasemdir sem þið hafið skrifað hér um sjómannadaginn, sýnir okkur að við getum notað bloggið til að fá góða umræðu um þau mál sem á okkur brenna.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 6.6.2011 kl. 21:49
Sælir félagar.
Sammála Simma með nafngiftina. Hér í Eyjum höldum við SJÓMANNADAG, með kappróðri. Og auðvitað fleiri atriðum. Hátíðarsamkoman á laugardagskvöldið var alveg afskaplega vel heppnuð. Maturinn hjá Einsa Kalda var með ólíkindum góður. Skemmtiatriðin frábær og ballið geggjað. Þarna hittast sjómenn og landkrabbar og taka það óklárt og hlæja og skemmta sér saman. Bara einn fékk á kjaftinn um þetta kvöld. voru þó 600 manns í Höllinni.
Svo er varla til hátíðlegri stund til en Sjómannamessa í Landakirkju og minningarathöfn við minnisvarðann á eftir undir röggsamri handleiðslu Snorra í Betel. Svo Stakkó þegar við heiðrum aldna sæúlfa og konur þeirra og þá sem hafa bjargað mannslífum.
Málið er að við sjómenn gerum þetta sjálfir og sjómenn í Eyjum hafa sýnt að þetta er hægt með góðri skipulagningu og harðsnúnu liði sem er með vinnufúsar hendur.
Valmundur Valmundsson, 7.6.2011 kl. 20:24
Heill og sæll Valmundur og takk fyrir þessa athugasemd, góð lýsing á deginum okkar sem hefur heppnast vel eins og alltaf í Vestmannaeyjum. Ég er sammála þér að það er virkilega gott að fara í Landakirkju á Sjómannadaginn og vera síðan viðstaddur minningarathöfnina við Minnisvarðan á kirkjulóðinni.
En stundum vantaði pínulítið upp á heilsuna þegar maður fór í kirkjuna á sjalfann Sjómannadaginn, eftir dansleik fram á morgun á laugardeginum.
Til gamans má segja frá því að einn góður prestur í Eyjum sagði að það væri eitt skipti á árinu sem hann messaði við þær aðstæður að kirkjan angaði eins og spíratunna og það væri á Sjómannadaginn,ekki veit ég hvort þetta er sannleikanum samkvæmt, en ef svo er held ég að sá góði prestur hafi haft skilnig á þessu og verið ánægður að Landakirkja var oftast nær fullsetin á Sjómannadaginn.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 7.6.2011 kl. 21:42
Sæll Simmi
Sjómannadagsráð fer í skötu hjá Adda Johnsen kl 11 á að morgni Sjómannadags þannig að það slær aðeins á spíralyktina!
Valmundur Valmundsson, 8.6.2011 kl. 09:09
Sjómannadagurinn er mörgum kær og en samfélagið breytist osfrv. Það er gott að ylja sérvið góðar minnningar um Sjómannadaginn en er ekki lykilspurning hér hvernig viljum við að Sjómannadagur framtíðarinnar verði haldinn ?
Gísli Gíslason, 8.6.2011 kl. 11:47
Heill og sæll Gísli og takk fyrir að taka þátt í þessari umræðu um Sjómannadaginn.
Þú segir að mörgum sé Sjómannadagurinn kær og að samfélagið breytist, og það er gott að ylja sér við góðar minningar um Sjómannadaginn. Og þú spyrð: En er ekki lykilspurning hér hvernig viljum við að Sjómannadagur framtíðarinnar verði haldinn?.
Það er rétt hjá þér að Sjómannadagurinn er mér og örugglega mörgum mönnum og konum kær og gott að ylja sér við þær minningar sem gamlir Sjómannadagar gefa. Það er þó ekki þannig Gísli eins og mér finnst þú vera að gefa í skin, að við sem erum að gagrýna þessa arfavitlausu nafngift Sjómannadagsins viljum og höldum að við getum breytt þessum degi þannig að hann verði eins og í gömlu góðu daga. Nei ég geri mér alveg grein fyrir því að Sjómannadagurinn hefur þróast með nýjum mönnum og á margann hátt til betri vegar eins og gengur, en að þessu leiti með nafngiftina að mínu viti í vitlausa stefnu. Þetta er einmitt spurning um það hvernig við viljum að haldið verði upp á Sjómannadaginn í framtíðinni. Viljum við að dagurinn verði útmáður úr minningu manna sem sjómannadagur, það vil ég ekki.
Þetta vil ég hafar til grundvallarÞað er hvergi í lögum um SJÓMANNADAGINN talað um að það eigi að gera hann að hátíð fyrir hafið, eða breyta nafni hans. Í lögum heitir hann SJÓMANNADAGUR og þannig á það að vera.
Það er alveg eins hægt að kalla Jólin HÁTÍÐ verslunarmanna og Konudaginn Hátíð blómasala.Ég er t.d. alveg á móti þessum vangaveltum þínum Gísli um að kalla daginn Sjómannadagurinn, Hátíð hafsins, það er sama ruglið, þessi dagur er ekki hátíð hafsins þetta er hátíð sjómanna sem allir eiga og mega auðvitað taka þátt í ef þeir vilja. Þetta hljóta allir hugsandi menn að skilja.
Það er líka tómt rugl að fara að færa Sjómannadaginn, það þarf ekki, og oftast er ágætis veður á Sjómannadaginn enda vorið þá komið. Það eru ekki sjómenn sem eru að koma með þessar tillögur um að færa Sjómannadaginn, það eru einhverjir aðrir sem eru ekki með hagsmuni sjómanna að leiðarljósi.
Annars finnst mér ég hafa komið mínum sjónarmiðum sæmilega á framfæri í þessari grein sem ég skrifaði, og það gleður mig mikið hvað margir hafa tjáð sig um þessa grein.
Ég hef líka fengið mörg símtöl og menn hafa stoppað mig á götu og þakkað mér fyrir að hafa vakið menn til umhugsunar um þetta mál. Hver einasti maður hefur verið mér sammála og ótrúlegur fjöldi sagt við mig að þeir hafi bara ekki hugsað út í þessa breytingu á nafni Sjómannadagsins, fyrr en þeir lásu greinina mína.
Kær kveðja og hafðu það alltaf sem best Gísli
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 8.6.2011 kl. 21:16
Sæll Sigmar og takk fyrir svarið. Ég er sammála öllum þínum markmiðum með sjómannadaginn. En sjómennskan byggir á sókninni í hafið og því finnst mér ekkert órökrétt að hluti af markmiðum dagsins sé líka kynning á hafinu. Varðandi tímasetninguna þá vil ég segja að það vorar seinna fyrir austan og norðan samanborið við í Vestmannaeyjum. Í mínum huga er mikilvægast að dagurinn verði áfram hátíð sjómanna og þannig komið fyrir að þeir njóti hans sem best með fjölskyldum sínum. Mínar vangaveltur með að flytja daginn voru einfaldlega vegna þess að ég taldi og tel að það gæti styrkt daginn. Ég tek heilshugar undir að innlegg þitt var og er mjög þarft og þá er eðlilegt að menn velti þessum málum fyrir sér frá hinum ýmsu sjónarhornum. Og þá er ekkert að því að menn hafi að hluta mismunandi sýn. Ég held að við höfum allir sama markmið að Sjómannadagurinn skipi áfram þann sess sem honum ber. Bestu kveðjur
Gísli Gíslason, 13.6.2011 kl. 23:41
Heill og sæll Gísli og takk fyrir áhuga þinn á þessu málefni. Ég verð að endurtaka það enn einu sinni að þessi dagur er ekki stofnaður til að kalla hann Hátíð hafsins, þetta er SJÓMANNADAGUR og ekkert annað. Ef við tökum Konudaginn til viðmiðunar. þar má segja að eiginmenn sæki blóm til blómasala, það má fullyrða að það væri sennilega ekki almennilegur Konudagur ef engin blóm væru á boðstólum, svo rík er sú hefð að gefa þessum elskum blóm á Konudaginn. Finnst þér þá að eigi að kalla Konudaginn "Konudagur hátíð blómasala". Mér finnst þetta álíka vitlaust og tala um Sjómannadaginn sem hátið fyrir hafið.
Málið er það Gísli, það eru hvorki meira né minna en 34 menn og 31 til vara í Sjómannadagsráði og það sem er merkilegt við það er að þeir skipuleggja ekki Sjómannadaginn, það eru fengnar tvær konur frá Reykjavíkurborg til að gera það. Það er margt furðulegt að gerast í kringum sjómannastéttina sem verðugt er að gefa gaum. Þetta að reyna að fela Sjómannadaginn er er bara eitt af því.
Engin umræða er í þjóðfélaginu um öryggismál sjómanna, þar er búið að stoppa allar upplýsingar um sjóslys. Ef þú hefur áhuga á að kynna þér eithvað tiltekið sjóslys þá færðu engar upplýsingar frá Rannsóklnarnefnd sjóslysa. LOKAÐ fyrir með nýjum reglum. Þetta er ákvörðun sem hefur verið tekin eftir miklar umræður um þessi mál fyrir nokkrum árum.
Það er búið að loka fyrir allar upplýsingar frá Lífeyrissjóðum, eina sem þú mátt þar er að borga, engar upplýsingar gefnar eins og vinur minn Jóhann Páll Símonarson hefur fengið að reyna.
Þetta er hægt að gera vegna þess að menn sofna á verðinum, og láta forustumenn daga uppi og gegna starfi fyrir félögin í tugi ára, og þá á ég ekki bara við Sjómannadagsráð það eru miklu fleiri félög.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 17.6.2011 kl. 18:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.