22.5.2011 | 20:51
Heimaey VE 1 sjósett í Síle
Þessar myndir voru teknar þegar Heimaey VE 1 var gefið nafn og skipið sjósett í Síle í síðustu viku. Að sögn Þórarins Sigurðsonar sem sendi mér þessar myndir var þetta mikil og glæsileg athöfn, það fór ekkert á milli mála hvað þeir í skipastöðinni Asmar í Talcahuano lögðu mikið uppúr því að þetta væri stór stund eða viðburður þegar skipið var nefnt og sjósett. Þetta var fyrsta sjósetning skips úr skipsmíðastöðinni frá því jarðskjalftarnir urðu í fyrra, en þá olli flóðbylgja miklu tjóni í stöðinni.
Heimaey er rúmlega 71 m langt og 14,40 m breytt. Burðargeta allt að 2000 tonn í tíu tönkum. Skipið er útbúið til nóta- og flottrollsveiða. Skipið verður endanlega afhent í mars á næsta ári.
Ég óska eigendum þess, það er Ísfélaginu í Vestmannaeyjum til hamingju með þetta nýja glæsilega skip og vonandi fylgir því og áhöfn þess Guð og gæfa þegar það kemur til Eyja.
Athugasemdir
Hvenær verður flottroll bannað?
Vonandi fyrir næstu áramót.
Þetta veiðarfæri sæmir ekki þjóð sem kennir sig til menningar af einhverjum toga.
Aldrei hef ég séð jafnskelfilegan farm eins og úr flottrolli.
Árni Gunnarsson, 24.5.2011 kl. 13:51
Heill og sæll Árni og takk fyrir innlitið.
Ég hef rætt við skipstjórnarmenn sem hafa áhyggjur af flottrollinu og einnig eru margir sjómenn sem hafa áhyggjur af snurvoðinni. Sjaldgæft er að skipstjórnarmenn viðurkenni að þau veiðarfæri sem þeir nota hverju sinni séu slæm. Það eru líka fáir skipstjórnarmenn í dag, sérstakega á stærri skipum sem eru jafnframt eigendur, þeir ráða því ekki hvaða veiðarfæri þeir nota hverju sinni. Þú veist hver ræður ferðinni Árni minn, það hefur ekkert breyst nú síðustu ár.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 24.5.2011 kl. 19:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.