22.5.2011 | 15:22
Rafveita Reyðarfjarðar frá 1930
Í starfi mínu sem skipaskoðunarmaður og eftirlitsmaður með öryggisbúnaði hafna kem ég á marga staði á landinu sem eru við sjávarsíðuna. Það hefur komið mér á óvart hvað fólkið sem byggir þessa staði er opið og duglegt við að varðveita það gamla sem minnir á liðna tíma, atvinnuhætti og sögu staðana. Einn af þessum stöðum er Reiðarfjörður sem enn heldur við og keyrir 80 ára gamla rafstöð frá 1930 ásamt mörgu öðru, áhugaverðum söfnum og öðrum minjum frá liðinni tíð. Rafstöðin gæti nú ekki annað rafmagnsnotkun dagsins í dag en engu að síður er henni haldið við og hún er enn keyrð inn á netið.
Sigfús Guðlaugsson núverandi rafveitustjóri á Reyðarfirði sýndi mér um daginn rafstöðina og fleira markvert á Reyðarfirði, hann leyfði mér að taka af þessu myndir, þakka ég honum kærlega fyrir það.
Við Eyjamenn mættum margt af þessu læra, en við höfum nýlega brytjað niður í brotajárn dýpkunarskipið Vestmannaey sem átti ótrúlega stórann þátt í uppbyggingu Vestmannaeyjahafnar og þar með byggðar í Eyjum. Þetta sögufræga dýpkunarskip var ótrúlega vel á sig komið enda hafði því alla tíð verið vel við haldið.
Rafveita í 80 ár
Hinn 1. apríl 1930 verður ætið talinn mikill hátíðisdagur í sögu Reyðarfjarðar og í lífi íbúana þar. Þann dag fyrir rúmum 80 árum voru vélar rafstöðvarinnar ræstar í fyrsta sinn og straumi hleypt á kauptúnið innan Búðarár. Gaman samur náungi kvað þá þessa vísu:
Apríl fyrsti á sitt hrós
árin þegar líða.
Höfðingjarnir hafa ljós
hinir mega bíða.
Til gamans má geta þess, að Þorsteinn Jónsson , kaupfélagsstjóri átti heima innan ár eða nánar tiltekið í Hermes. En biðin var ekki löng. Örfáum dögum síðar var straumi hleypt á ytri hlutann og það varð ljós um allan bæ.
Virkjun búðarár var stórvirki síns tíma, ekki síst þegar haft er í huga, að atvinna var ótrygg og fátækt mikil og almenn á þessum tíma. Sveitarstjórnin hafði í mörg horn að líta.
Eigi að síður var hafist handa og ríkti mikill áhugi meðal þorpsbúa um framgang málsins.
Árið 1929, hinn 12. janúar var haldinn fjölmennur borgarafundur á Reyðarfirði um málið. Fyrir fundinum lá áætlun um rafvæðingu Búðará frá Sigurði Vigfússyni. ,, Hann telur ánna skila 300 hestöflum og kosnað við að virkja 200 hestöfl kr. 80.000 eins og segir í fundargerðinni. Mikill áhugi og eindrægni ríkti á fundinum. Var skorað á hreppsnefnd að fylgja málinu eftir og tók hún það fyrir á fundi aðeins fjórum dögum síðar.
Myndina hér fyrir neðan tók ég þegar Sigfús Guðlaugsson (er á myndinni) sýndi mér gömlu Rafstöðina.
Orðrétt segir í fundargerð hreppsnefndar: ,,Fundurinn felur Þorsteini Jónssyni, sem er að fara til Reykjavíkur, að útvega áætlanir og mælingar og tilboð fyrir 200 hestafla rafstóð við Búðará og að leitast fyrir um að undirbúa lántöku til fyrirtækisins eftir föngum.
Hér var teningnum kastað og ekki aftur snúið. Nú gerðist margt á stuttum tíma. Annar borgarafundur var haldinn um málið 1. júní 1929.
Nefndin sem starfað hafði milli funda, skilaði skýrslu um málið og greindi Þorsteinn Jónsson frá farmgangi þess. Fundurinn heimilaði hreppsnefnd að taka ,,lán að verðmæti til virkjunar í Búðará allt að 90.000.00 til 20 30 ára. Fundinn sátu 79 og greiddu allir atkvaði með heimildinni nema 2! Tæpum tveimur mánuðum síðar eða 21 júlí barst hreppsnefnt skeyti frá Líftryggingafélaginu Thule: Lán fæst gegn ábyrgð ríkisins og sýslusjóðs. Hvort tveggja gekk eftir. Hófst nú undirbúningur að fullum krafti. Áætlanir og útreikningar um allan stofnkosnað annaðist Þorseinn Jónsson, rafmagnsstjóri í Reykjavík og í framhaldi af því var verkið boðið út. Hagkvæmasta tilboðið kom frá Rafmagni í Reykjavík. Hljóðaði það upp á kr. 96.000.00 með því skilyrði, að hreppurinn annaðist flutning á öllu efni að stíflu og gröft fyrir pípum og stöðvarhúsi.
Þessi saga verur ekki rakin lengra hér en Rafveita Reyðarfjarðar var byggð og hún er í fullum rekstri eins og þessar myndir sem ég tók sýna.
Ég þakka Sigfúsi Guðlagssyni fyrir skemmtilegt spjall og fyrir að sýna mér þessa gömlu rafstöð og segja mér frá þessu merka fyrirtæki á Reiðarfirði.
Myndin hér til hliðar er úr blaði sem gefið var út þegar Rafveita Reyðarfjarðar var 60 ára og er af öllum rafveitustjórum sem þar hafa starfað.
Heimildir í þetta blogg eru að mestu fengnar úr því blaði.
SÞS
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.