7.5.2011 | 23:00
Hann sat einn, ljóð eftir Sigurgeir Kristjánsson
Sigurgeir Kristjánsson F: 30. júní 1916.- D. 5. júní 1993.
Hann sat einn
Hann sat einn sá aldni maður,
ævilúinn hárin grá,
flestum þótti hann fátalaður,
fleira hugsaði karlinn sá.
Brún var hvöss og bar þess merki,
þó báturinn væri orðin hró,
að karlinn hafði að vilja og verki,
verið fær í allan sjó.
Hann greiddi bæði kóng og klerki,
kvittur og skuldar engum neitt,
en höndin kreppt er heiðursmerki,
hún er starfsins rúnum skreytt.
Þó hann fæddi konu og krakka,
og kæmi þeim öllum vel til manns,
fannst honum varla þörf að þakka,
þetta voru forlög hans.
Þekkti hann strit með orfi og ári,
öllu hefur tæknin breytt.
Amboð horfin, engin skári,
ekkert róðraleiði þreytt.
Litið get ég lagt til baka,
lífið gaf mér seiglu og þrótt.
Mér fannst betra á skútu að skaka,
en að skrölta á trolli dag og nótt.
Oft var rætt um aflahlutinn,
það urðu sjaldan mikil söfn.
Hár þó félli skafl við skutinn,
skilaði fleyið mér í höfn.
Nú fer að verða fátt til vona,
því finnst mér orðin hvíldin kær.
Í minningunni er myndarkona,
í mínum huga hlý og kær.
Ég kann því vel að krakkagreyin,
kæmust talsvert betur af.
Ég bjargaðist alltaf einhvern veginn
í ellinni fékk ég göngustaf.
Sigurgeir Kristjánsson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.