13.4.2011 | 22:16
Úr minningarbókinni minni.
Ég var um tíma með Binna í Gröf á Elliðaey VE og fiskuðum við ágætlega, þetta var á þeim árum sem uppgjörstímabil sjómanna skiptust í þrennt það var vetrarvertíð, sumarvertið og haustvertið. Á þesssum tíma átti Einar Sigurðsson ríki Elliðaey VE og gerði hann bátinn út.
Ekki gekk alltaf vel að fá borgað þann hlut sem maður átti hjá Hraðfrystistöð Vestmanneyja eða Einari ríka þótt vel fiskaðist.
Benóný Friðriksson fiskaði alltaf mikið og hlutur var alltaf langt yfir lágmarks tryggingu eins og sagt var í þá daga.
Einar Sigurðson nafni Einars ríka sem lengi var vélstjóri með Binna á Gullborg og um tíma á Elliðaey reiknaði alltaf út aflahlutinn eftir hvern túr, þannig að við skipsfélagar hans vissum nákvæmlega hvað við áttum mikla peninga inni hjá Hraðfrystistöðinni eða Einari ríka.
Eitt sinn sem oftar fór ég á skrifstofuna til að fá pening fyrir Víxli sem ég þurfti að borga, ég vissi að ég átti töluverða upphæð inni hjá útgerðinni þegar hér var komið sögu.
Á skrifstofu Hraðfrystistöðvarinnar réði lengi ríkjum ein ágætis kona er Ósk hét. Hún var til svara þegar ég kom á skrifstofuna og bað um peninga og sagði henni jafnframt að ég þyrfti að borga með þeim víxil sem væri að falla á mig, en það var til siðs á þessum árum að gera grein fyrir því hvað maður ætlaði að gera við peningana sem maður bað um, sérstaklega ef það var einhver stærri upphæð en vanalega.
Ósk sagði að engin peningur væri til, þannig að ég gæti ekki fengið þá upphæð sem ég bað um. Ég var ekki sáttur við það og benti henni á að ég ætti þessa peninga inni hjá útgerðinni og miklu meira en það.
Þegar ég hafði rætt þetta nokkra stund við Ósk var farið að fjúka í mig, ég benti henni á að það væri helvíti hart að geta ekki fengið peninga sem maður á til að borga sínar skuldir, en henni var ekki hnikað.
Þegar hér var komið sögu kemur Einar ríki inn úr innri skrifstofunni öruggur í fasi, hann hafði örugglega fylgst með þegar ég var að biðja Ósk um peningana. Hann labbar beint að mér og er með í hendinni litla bók sem inniheldur sjómannasamningana, hann leggur hana á borðið og segir: Hér stendur svart á hvítu í samningunum að ég er ekki skyldugur til að borga þér nema tryggingu fyrr en að vertíð lokinni. Það höfum við alltaf gert og meira en það, þannig að þú átt ekki heimtingu á að fá meia frá útgerðinni.
Ég var náttúrulega ekki sáttur við þetta og bað hann að leyfa mér að skoða samningana.
Þar sýndi ég honum grein sem sagði að útgerðin ætti að gera upp eftir hvert tryggingatímabil en það hefði hann ekki gert, ég spurði hann hvort hann væri þar að fara eftir samningum.
Hann gaf lítið út á það og eftir nokkurt þras um samningana lauk okkar samtali með því að ég varð ösku illur og henti samningunum í hausinn á honum. Einar var þá einnig orðinn bál vondur og skipaði mér út af skrifstofunni, sagðist ekki vilja hafa svona menn eins og mig í vinnu . Ég sagði á móti að ég yrði dauðfeginn að hætta hjá svona skíta fyrirtæki en ég ætlaði ekki út af skrifstofunni fyrr en ég hefði fengið mína peninga. Ef þú hypjar þig ekki út strax þá hendi ég þér út sagði þá Einar ríki við mig. Eftir að hafa staðið í smá stund við afgreiðsluborðið, kom kallinn askvaðandi lyfti með látum og skellum upp hleranum á afgreiðsluborðinu og kom fram fyrir borðið og spurði mig hvort ég ætlaði ekki að hlíða og koma mér út ?. NEI sagði ég, ég ætla að fá peningana mína áður en ég fer.
Einar kom þá ógnvekjandi að mér reif í öxlina á mér og byrjaði að toga í mig að hurðinni, ég reyndi að streitast á móti, en kallinn var ótrúlega sterkur og hann hafði lítið fyrir því að koma mér út að hurðinni og henda mér langt út á götu, með þeim orðum að svona menn vildi hann ekki hafa í vinnu í sínu fyrirtæki.
Ég lét hann einnig fá nokkur vel valinn orð sem ekki verða endurtekinn hér.
Sonur Binna hafði fylgst með þessu öllu saman þannig að hann varð vitni af látunum.
Þegar ég kom heim hringdi ég strax í Binna skipstjóra og sagði að ég væri hættur á bátnum, enda hefði Einar ríki eigandinn sjálfur rekið mig. Binni sagði vera búinn að frétta þetta allt og hann ætlaði að tala við Einar og sjá til þess að ég fengi þessa peninga sem ég bað um, það var auðheyrt að Binni var ekki sáttur við þetta háttalag Einars Ríka. Ég gaf lítið út á þessi orð Binna enda ekki búinn að ná mér niður eftir þrasið við Einar.
Eftir hádegið hringdi Binni í mig aftur og sagði vera búinn að tala við Einar og henn hefði lofað að peningarnir yrðu tilbúnir þarna seinna um daginn. Ég sagði að ég vildi einnig fá uppgjörið mitt frá síðustu vertíð og var þá reyndar búinn að ákveða að fara aldrei um borð í bát hjá Einari ríka eftir þessa uppákomu. (reyndin var önnur).
Eftir hádegið var ég búinn að jafna mig nokkuð á þessu sem gerðist um morguninn og fór á skrifstofuna til að ná í peningana. Þegar þangað kom sá ég að Einar sat glottandi þar við skrifborð með lappirnar upp á borði og var að drekka kaffi, ekki var ég vanur að sjá hann þarna því hann hélt sig oftast inni á innri skrifstofu sinni. En þarna sat hann og fylgdist með mér en hafði sig ekki í frammi. Þegar ég kem að afgreiðsluborðinu kemur Ósk strax til mín með ávísanaheftið og spyr mig hvað ég þurfi mikið. Ég hélt mig nú við þá upphæð sem ég hafði beðið um fyr um morguninn en sá stax eftir að hafa ekki beðið um meira. Hún skrifaði ávísun og lét mig fá hana og spurði síðan hvort þetta væri þá ekki allt í lagi. Ég sagði vilja fá uppgjörið sem ég ætti inni hjá útgerðinni, hún sagði það ekki vera tilbúið en lofaði að það yrði til þegar ég kæmi næst af sjó ( sem Ósk stóð við). Þetta lét ég gott heita og var á leiðinni út þegar Einar ríki kallaði glottandi á eftir mér.: Heyrðu Sigmar minn, hefurðu nokkurn tímann verið hjá betri útgerðarmanni en Einari Sigurðsyni??. Og svo skellihló hann.
Ég var ekki í skapi á þessari stundu til að svara kallinum, heldur hélt mínu striki út af skrifstofunni og upp í Útvegsbanka til að borga mína skuld. Ég held að Einar hafi bara haft gaman af þessu, alla vega fann ég aldrei til þess meðan ég var hjá fyrirtækinu að hann hefði neitt á móti mér síður en svo.
Ég hélt áfram á bátnum og átti ágæt samskipti við Einar ríka eftir þetta, var reyndar hjá útgerðinni samfleytt í að minsta kosti 7 ár fyrst þarna með Binna og síðan með frænda mínum Gísla Sigmarssyni.
Einar Sigurðsson ríki frá Heiði var F. 7. febrúar 1906 D. 22.mars 1977
Athugasemdir
Sæll félagi
Skemmtileg saga hjá þér Simmi.
Pétur Steingríms. (IP-tala skráð) 14.4.2011 kl. 09:52
Sæll Sigmar, þessi saga er mjög góð og væntanlega sönn, takk fyrir hana.
Kær kveðja frá höfninni í Eyjum.
Helgi Þór Gunnarsson, 14.4.2011 kl. 11:44
Blessaður Sigmar. Flott saga og skemmtileg að lesa. Hafðu þökk fyrir. Kveðja.
Þorkell Sigurjónsson, 14.4.2011 kl. 14:11
Ævinlega blessaður frændi!!! Ég skemmti mér konunglega við að lesa þessa frásögn um samskipti þín við Einar ríka og Ósk, sem voru og hvort um sig ágætis manneskjur, en börn síns tíma. Mamma sagði mér einu sinni frá því að þegar hún og vinkona hennar, þá ungar stúlkur ,sóttu um að fá vinnu í nýlegu frystihúsi Einars ríka, Hraðfrystisyöð Vestmannaeyja. Eftir umhugsun sagði Einar að vinkonan gæti fengið vinnu, en ekki mamma, því hún væri frá "Bolsaheimili". Svona var nú það. Kveðja.
Björk Pétursdóttir (IP-tala skráð) 14.4.2011 kl. 16:18
Heilir og sælir félagar og takk fyrir innlitið, það er gott að fá smá athugasemdir við það sem maður er að blogga.
Helgi þór þessi saga er sönn, og það voru vitni að þessari uppákomu minni á skrifstofu Hraðfrystistöðvarinnar. Ég skrifaði þetta fyrir allmörgum árum ásamt tveimur öðrum sögum um samskipti mín við Einar Ríka. Það er gaman að rifja þetta upp á gamalsaldri.
Björk það er gaman að fá þessa athugasemd þína um Rúnu mömmu þína og vinkonu hennar. Kannski eru álíka tímar nú að renna upp hér á landi þar sem klíka ræður hvort þú færð vinnu eða ekki.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 14.4.2011 kl. 20:36
Sæll frændi. Þessi var flott.
Það væri gaman að fá eina sögu þegar þú varst að fá pening
hjá pabba mínum. Hann var nú bara skemmtilega stríðinn sem þú og Matti bróðir föttuðu það svo seint
Kveðja Stjáni.
Kristján Óskarsson (IP-tala skráð) 14.4.2011 kl. 23:06
Heill og sæll Stjáni frændi, já satt segirðu það væri gaman að rifja upp eins og eina sögu um það, ég man meira segja vel eftir einni sem gaman væri að segja frá, það var þegar ég rukkaði Pabba þinn um tímavinnuna forðum daga
kannski skrifa ég hana næst þegar ég dett í stuð að skrifa.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 14.4.2011 kl. 23:34
Sæll félagi, þetta er góð saga og skemmtileg aflestrar. Þetta hafa greinilega verið átakatímar hjá útgerðinni, og það í bókstaflegri merkingu. Gott að málið fékk farsælan endi og víxilinn var greiddur. :-)
Bestu kvejður frá Eyjum,
Sighvatur
Sighvatur Jónsson (IP-tala skráð) 16.4.2011 kl. 10:14
Sæll og blessaður Simmi
Frábær saga! Og í leiðinni vil ég þakka þér kærlega fyrir allar myndirnar og sögurnar frá Eyjum sem þú hefur birt hér á blogginu þínu.
Lít oft við hjá þér til að rifja upp gamla og glaða daga og endurnýja kynnin við allskonar skemmtilegt fólk - líf og liðið - sem var manni samskipa á Eyjaskútunni!
Bestu kveðjur - og haltu þessu áfram sem allra lengst!
Palli Magg
Páll Magnússon (IP-tala skráð) 16.4.2011 kl. 11:00
Heilir og sælir Sighvatur og Palli og takk fyrir innlitið. Alltaf gaman að fá jákvæðar athugasemdir og hvatningu. Það hvetur mann til að að handa áfram að blogga um bæði gamalt og nýtt. Ég hef reynt að forðast að blogga um pólitók þó mig langi nú stundum til þess.
Kærar kveðjur
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 16.4.2011 kl. 12:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.