Björgunarbúningar og vinnuflotbúningar eru mikilvægur björgunarbúnaður

Björgunarbúningar og vinnuflotbúningar

Í frétt mbl. is  segir um björgun mannana sem voru á bát sem sökk við Akurey á laugardag og var bjargað af björgunarsveitinni Ársæli: 

Þegar við komum á staðinn var báturinn að sökkva og aðeins stefnið stóð upp úr. Við sáum tvo menn fljóta í flotgöllum og fórum strax í það að bjarga þeim um borð. Annar mannanna var orðinn mjög kaldur því að honum hafði ekki gefist tími til að klæða sig í gallann áður en báturinn sökk,“ sagði Kristinn Guðbrandsson, skipstjóri á björgunarbátnum Höllu Jónsdóttur. Kristinn sagði ljóst að báturinn hefði farið mjög hratt niður.

Það sem vekur athygli mína við fréttina um þetta slys er að mennirnir voru í flotgöllum sem líklega hefur bjargað lífi þeirra, þó litlu hafi munað með þann sem ekki komst strax í sinn  flotgalla. Ekki veit ég hvernig gallar þetta hafa verið sem þeir voru í en flotgallar voru það, að sögn björgunarmanna. Þar sem fréttamenn kryfja sjaldan orðið svona slys langar mig að benda á mikilvægi þessara galla fyrir sjómenn og reyndar ekki síður þá sem stunda skemmtibátasiglingar, þeir hafa svo sannarlega sannað gildi sitt.

Árið 1987 voru settar reglur um að í hverju skipi 12 m og lengra skyldi búið viðurkenndum björgunarbúningum fyrir alla um borð og má segja að í lok árs 1988 hafi þetta björgunartæki verið komið í öll skip. Hér var stigið stórt spor í að auka öryggi íslenskra sjómanna en sjómenn og áhugafólk um öryggismál sjómanna voru lengi búin að berjast fyrir því að fá björgunarbúninga lögleidda í skip. Strax á eftir setningu reglugerðarinnar sá Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) um að kaupa 3400 björgunarbúninga frá Danmörku til að setja um borð í íslensk fiskiskip og gerðir voru samningar um kaup á 1600 björgunarbúningum til viðbótar. Þetta var gert til að tryggja það að sem bestir búningar yrðu valdir fyrir okkar sjómenn. Á sama tíma fór það í vöxt að sjómenn keyptu svokallaða vinnuflotbúninga sem þeir gátu verið í við vinnu á dekki. Óvíst er hvort menn geri sér yfirleitt grein fyrir því hvað þessir björgunarbúningar hafa í raun haft mikið gildi fyrir öryggi sjómanna. Hér má nefna örfá dæmi.Í nóvember Björgunarbúningur að bandariskri gerð

1987 fór skipverji af loðnuskipinu Grindvíkingi GK útbyrðis á Halamiðum í myrkri og kulda. Maðurinn náðist aftur um borð eftir 15 mínútur úr köldum sjónum en sjávarhiti var 1 til 3°C. Sjómaðurinn fullyrti að hann hefði ekki komist lífs af nema af því að hann var í vinnuflotgalla sem hann ásamt fleirum úr áhöfn skipsins höfðu keypt viku fyrir slysið.

Þann 22 maí 1993 var Andvari VE 100 að veiðum með botnvörpu í Reynisdýpi . Veður vaxandi austan 6 – 7 vindstig og þungur sjór. Þegar átti að fara að hífa inn trollið festist það í botni með þeim afleiðingum að þegar verið var að hífa inn togvírana komst sjór í fiskmótöku, spilrými og millidekk með þeim afleiðingum að skipið fékk á sig slagsíðu. Slagsíða Andvara jókst stöðugt og skipverjar klæddust björgunarbúningum. Einn skipverja hugðist sjósetja gúmmíbjörgunarbát eftir að hafa klæðst björgunarbúning en ekki gafst tími til þess þar sem skipið lagðist á hliðina og sökk mjög snögglega. Skipstjórinn gat látið skipstjóra á Smáey VE vita hvernig komið væri en þeir voru að ljúka við að hífa og settu því stefnu strax á Andvara. Það kom sér nú vel að allir skipverjar Andvara komust í björgunarbúninga. Þeir lentu allir í sjónum. Þar héldu þeir hópinn þar til þeim var bjargað um borð í Smáey eftir að hafa verið í sjónum í 20 til 30 mínútur. Það skal tekið fram hér að gúmmíbátarnir á Andvara VE voru ekki tengdir sjálfvirkum losunarbúnaði þar sem ekki hafði unnist tími til að ganga frá þeim búnaði í skipið.

Þann 9. mars 1997 fórst Dísarfellið er það var statt milli Íslands og Færeyja í 8 til 9 vindstigum og þungum sjó. Skipið hafði fengið á sig mikla slagsíðu og misst út nokkra gáma sem flutu kringum skipið. Áhöfn skipsins klæddist björgunarbúningum og var þannig tilbúin að yfirgefa skipið. Þeir höfðu misst frá sér tvo gúmmíbjörgunarbáta og fastan björgunarbát. Skipið hélt síðan áfram að hallast þar til því hvolfdi og skipverjar lentu allir í sjónum. Voru skipverjar í sjónum innan um gáma brak og olíubrák í um tvo klukkutíma eða þar til þyrla Landhelgisgæslunnar TF- LÍF kom þeim til bjargar. Tveir úr áhöfn Dísarfells létust í þessu slysi en 10 björguðust. Í báðum þessum slysum hefðu sjómennirnir ekki lifaða af allan þann tíma sem þeir þurftu að bíða í sjónum eftir hjálp. Þetta eru örfá dæmi um mikilvægi Bjögunarbúninga, ég gæti nefnt miklu fleiri dæmi þar sem björgunarbúningar hafa bjargað sjómönnum, en læt þetta duga að svo stöddu.

 Ég er sannfærður um að björgunarbúningar og flotvinnubúningar eiga stóran þátt í fækkun dauðaslysa á sjó. Það er því mikilvægt að halda því á lofti þegar þessi björgunarbúnaður á þátt í björgun manna sem lenda í sjóslysum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Sæll Sigmar, svo sannarlega er góð vísa aldrei of oft kveðin, eins og við vitum báðir, sem og allir þeir sem eitthvað hugsa um björgunarmál almennt, svo er annað sem mig langar að komi fram, en það er að vinnuflotbúningur er svo hlýr í kulda, en þar af leiðandi er hann mjög hlýr í hita, ég svitnaði mjög mikið í honum.

Ég sagði oft við þá svitahræddu: þykir ykkur ekki vænt um fjölskyldu ykkar, og benti þeim á að svona flotgalli væri ekkert annað en viðbótarlíftrygging. Ég var sennilega oft leiðinlegur, en mér var sama um það, það er hópur að fólki á bakvið hvern sjómann.

Kær kveðja frá Eyjum.

Helgi Þór Gunnarsson, 28.3.2011 kl. 11:34

2 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Helgi og takk fyrir innlitið og athugasemd. Ég tek heilshugar undir það að Björgunarbúningur með stórum staf er góð líftrygging sem allir sem stunda sjó ættu að eiga eða hafa afnot af eins og atvinnusjómenn. Það er að mínu viti leiðinlegt hvað fáir sjómenn hafa áhuga á öryggismálum, alla vega eru fáir sem vilja tjá sig um þessi mál.

En "við gefumst aldrei upp þó á móti blási" sungum við hér áður fyr og það gildir enn Helgi minn

Kær kveðja úr Kópavogi

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 29.3.2011 kl. 15:49

3 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Helgi Þór Gunnarsson, 30.3.2011 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband