15.2.2011 | 23:39
Minning um Mann Hannes Andresson
Hannes Andresson
Þann 5. nóvember 1968 fórst vélbáturinn Þráinn NK -70 austan við Vestmannaeyjar í aftaka veðri og stórsjó og brimi. Báturinn var að koma að austan af síldveiðum og var á leið til Vestmannaeyja. Ekkert fannst af bátnum þrátt fyrir mikla leit bæði með flugvélum og 40 bátum sem tóku þátt í leitinni. Með bátnum fórust 9 menn sem allir voru búsettir í Eyjum nema einn. Meðal þeirra sem fórust þennan dag var jafnaldri minn og skólafélagi Hannes Andrésson stundum nefndur Hannes í Holti.
Hannes var fæddur í Vestmannaeyjum 29. nóvember 1946 d. 5. nóvember 1968.
Foreldrar hans hjónin Guðleif Vigfúsdóttir frá Holti og Andrés Hannesson vélstjóri og skipstjóri í Eyjum til margra ára.
Hannes byrjaði kornungur til sjós og var góður og ósérhlífinn sjómaður.
Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja1969 er í Hannesar minnst og er þar m.a. ljóð eftir Björk er nefnist Sonarminning .
Frá móðir og föður:
Sonur minn ég sárt þín sakna.
Sár er dagsins vökustund.
- Á morgni hverjum verða að vaka
og vita að næ ei þínum fund.
- Hann með ljáinn beitta, bitra,
birtist- dagur varð að nótt.
Sjónum hvarfst þú, kæri sonur,
Í kalda gröf svo varð allt hljótt.
Ég minnist þín er varst í vöggu,
Hve vænt mér þótti um brosið þitt,
- Sporin fyrstu. Árin áfram
einatt glöddu hjarta mitt.
Þú varðst áfram eftir heima ,
Er æsku töldust liðin ár.
- Mamma og pabbi eru orðin
ein. Nú ríkir hryggðin sár.
Við þökkum sonur ástúð alla,
alla gleði og brosið þitt.
Ég á helga hjartans minning,
sem huggar særða geðið mitt.
Samverunnar sælustunda
Sífellt geymist minning björt.
Hún linar sviða innri unda
að ending hverfur nóttin svört.
Þökk sé Guði sem gaf þig sonur.
Hann gefi þrek á reynslustund.
Hann gaf og tók, hans verði vili.
- Þig, vinur, fel hans kærleiks mund.
Sofðu rótt. Í kaldri hvílu
Kristur vakir yfir þér.
Góða nótt, unz Guð oss kallar
að ganga í lífsins dýrð hjá sér.
( Björk)
Björk var skáldanafn en hún hét Margrét Guðmundsdóttir og bjó að Vallargötu 6.
Athugasemdir
Sæll Sigmar, ég man eftir þessu slysi, ég var fimm ára, en þannig er að skipsjórinn á Þránni á son sem er jafn gamall mér, og vorum við að leika okkur saman stuttu eftir slysið, en við fórum heim til hans og varð ég var við sorg inn á heimilinu hjá þeim, ég man þetta eins og hafi gerst i gær.
Var Björk móðir Hannesar?
Helgi Þór Gunnarsson, 16.2.2011 kl. 06:47
Heill og sæll Helgi. Þetta slys var alveg skelvilegt og þarna fórustst menn sem sem ég þekkti vel bæði skólabræður og leikbræður mínir. Ég var á einum bátnum sem tók þátt í leitinni að Þránni NK og man vel eftir þeim tíma, þegar fólkið í Eyjum var að átta sig á þessu skelfilega slysi. Þetta slys vakkti einnig áhuga minn á slysavörnum sjómanna, áhuga sem hefur haldist öll þessi ár.
Björk er held ég skáldanafn á konuni sem gerði ljóðið. því miður veit ég ekki hver hún er, en fróðlegt væri að fá svar við því ef einhver sem fer hér inn á bloggið veit deili á henni.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 16.2.2011 kl. 20:43
Helgi Þór Gunnarsson, 16.2.2011 kl. 22:05
Blessaður frændi. Mig minnir að þessi kona sem skrifaði undir skáldanafninu "Björk " hafi verið konan hans Guðsteins Þorbjörnssonar, ég man ekki hvað hún hét, en það birtust stöku sinnum ljóð eftir hana í Eyjablöðunum. Ef þetta er rétt munað hjá mér þá var hún móðir .Reynis, Birgis , Smára og fleiri systkina. Ég man að ég hreyfst af ljóðunum hennar. Kveðja.
Björk Pétursdóttir (IP-tala skráð) 16.2.2011 kl. 23:33
Sæll vertu. Þetta er hárrétt hjá Björk "pól"Þessi kona hét Margrét Guðmundsdóttir, gott ef Guðmundur skó hafi ekki verið faðir hennar,en allavega var hún mamma Reynis skólastjóra kv þs
þs (IP-tala skráð) 17.2.2011 kl. 13:01
Heil og sæl Björk og Þórarinn, Þakka ykkur kærlega fyrir þessar upplýsingar ekki ónýtt að eiga svona gott fólk að sem getur frætt mig um flesta hluti. Það er rétt hjá Björk að þessi kona hefur gert mörg falleg ljóð sem hafa birtst í Eyjablöðunum.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 17.2.2011 kl. 19:55
Já ég er sammála þér Sigmar,þetta slys hefur lifað með manni og hvat mig áfram í björgunarsveitarstörfum á meðan ég var í sveitunum,það held ég að flestir eyjamenn muni þennan dag og sorgina sem grúfði yfir öllum dagana á eftir.
Ég man vel eftir Guðmundi Skó en minnist þess ekki að hann hafi átt börn,en gott var að kíkja við hjá honum á verkstæðið og minnist ég hans ætíð með hlýju og virðingu.
Ljóðið hér að ofan er virkilega fallegt og vel kveðið og megi minningin um áhöfnina á Þránni lifa með okkur um ókomna tíð.
Kv Laugi
Sigurlaugur Þorsteinsson, 20.2.2011 kl. 19:29
Heill og sæll Laugi og takk fyrir innlitið og þessar athugasemdir, Ég á örugglega eftir að blogga meira um þetta slys og þá menn sem þarna fórust.
Kær Kveðja.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 20.2.2011 kl. 23:15
Sæll vertu,, til að hafa það sem rétt er þá var Guðmundur þessi kallaður "Guðmundur gúmmílímari" og gerði við allt sem líma þurfti og var með stofu á Vallargötunni eða nánar tiltekið í kjallaranum á Bjarkarlundi kv þs
þs (IP-tala skráð) 21.2.2011 kl. 20:41
Þettaljóð er eftir móðurmína sem hafði Björk sem skálda nafn. Hún hét Margrét Guðmundsdóttir og bjó að Vallargötu 6.
Kveðja Smári Guðsteinsson.
Smári Guðsteinsson (IP-tala skráð) 21.2.2011 kl. 23:28
Heilir og sælir Þórarinn og Smári og takk fyrir innlit og athugasemdir. Smári ég ætla að setja nafnið hennar móðir þinnar undir Ljóðið.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 23.2.2011 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.