4.1.2011 | 21:52
Minning um mann, sjómanninn Binna í Gröf
Benóný Friðriksson var fæddur 7. janúar 1904 að gröf í Vestmannaeyjum og ólst þar upp hjá foreldrum sínum. Við húsnafnið Gröf var hann kendur til æviloka og nefndur Binni í Gröf.
Binni var ekki gamall, þegar hann fór að draga fisk úr sjó. Innan fermingaraldurs fór Binni að róa á smábát hjá Jakob Tranberg ( Faðir Valdimars Tranbergs). Kom þá fljótt í ljós hjá honum framúrskarandi áhugi og fisksæld á handfærakrókinn.
Fimmtán ára gamall byrjaði Binni formensku að sumri til með árabát, sexæring. Voru þeir 4 á bátnum og voru hásetarnir jafnaldrar hans. Þeir fiskuðu vel og þarna kom strax í ljós yfirburða skipstjórnarhæfileikar hans, sem seinna gerði hann landsfrægan aflaskipstjóra sem varð alla tíð jafnvígur á öll veiðarfæri sem hann notaði til veiða.
Vertíðina 1954 varð hann skipstjóri á Gullborg RE 38 og það varð hans mesta happa- og aflaskip, því á því skipi varð hann Aflakóngur Eyjanna vetrarvertíðina 1954. eða til vertíðarloka 1959 eða sex vertíðir í röð og sjö urðu þær vetrarvertíðir alls sem hann varð aflakóngur í Vestmannaeyjum og margar þeirra hæstur yfir landið.
Benóný var dáður af sínum samstarfsmönnum og alveg sérstaklega af hans stéttarfélögum og þeim sjómönnum sem voru svo heppnir að fá að vera með honum á sjó og kynnast honum.
Ég undirritaður þekkti Binna nokkuð vel, var með honum á sjó og er alinn að nokkru leiti upp hjá Sjöfn ( Bobbu) dóttir hans og manni hennar frænda mínum Gísla Sigmarssyni.
Ég upplifði Benóný sem mjög skapgóðann mann. Hann gat reyndar orðið snöggillur ef ekki var farið að skipunum hans á sjónum, en það var búið um leið, gleymt og grafið. Hann er einn af þessum mönnum sem maður hugsar til með hlýhug og þótti vænt um og er stoltur af að hafa verið með til sjós.
Hann gat stundum verið skemmtilega sérstakur í háttum og tilsvörum..
Þegar slæmt var veður og við kallarnir á bátnum spurðum hann hvort það yrði farið á sjó? Þá svaraði Binni ætíð: Það er alveg á nippinu. Þetta var svona orðatiltæki sem hann notaði oft og þá vissum við að það yrði örugglega farið á sjó. Á nippinu þýddi einfaldlega Já því þó hann væri varkár í sjósókn sótti hann sjóinn fast, enda afburðugóður sjómaður í alla staði.
Aldrei hallmælti hann mat þó stundum hafi það komið fyrir um borð að matur var ekki alveg upp á það besta enda stundum óvanir menn eða konur að kokka. Þegar hann var spurður hvernig maturinn væri svaraði hann ávalt með þessari setningu: " þetta er alveg sallafínt hjá þér,,
Einar Sigurðsson sem var mjög lengi vélstjóri hjá Binna benti mér eitt sinn á að hægt væri að sjá á Binna hvort eitthvað væri í trollinu eða ekki. Þeta var þegar ég var með honum á Elliðaey. Þannig háttaði að Binni notaði handþokulúður til að ræsa okkur til að hífa. Þegar hann blés í lúðurinn áttu allir að koma upp á dekk og hífa inn trollið. Einar var búinn að taka eftir því að ef Binni hékk áhugalaus með höfðið út um stýrishúsgluggann og með lúðurinn í hangandi hendinni, þá var ekkert í trollinu. Ef hann kom út á brúarvænginn með báða þumalputtana í buxnavösunum, þá var smá möguleiki að það væri eitthvað í trollinu. En ef hann kom út á brúarvæng, hélt í handriðið með báðum höndum og iðaði allur, þá var víst að það var mikið í trollinu. Eftir að hafa fylgst með þeim gamla sá ég að þetta var rétt hjá Einari.
Eitt er mér mjög minnistætt í fari hans og það er hvað hann notaði mikinn sykur í kaffið, maður hélt stundum að hann væri búinn að gleyma sér þegar hann var að moka sykrinum í könnuna í það minsta 10 teskeiðar.
Binni var ótrúlega glöggur maður, það var eins og hann vissi alltaf nákvæmlega hvar hann var á sjónum þó hann hefði ekki öll siglingatækin í lagi. Það lýsir honum vel þegar eitt sinn bilaði ratarinn hjá honum. Skipstjórar í dag og engu að siður þá, vildu ekki vera radar lausir á sjó, en hann var ekkert að æsa sig yfir þessu, þetta virtist ekki há honum hið minsta. Hann lét ekki laga radarinn fyrr en mörgum mánuðum seinna. Hann þekkti sjávarbotninn kringum Eyjar og víðar eins og buxnavasana sína og einhvern veginn gat hann einnig staðsett sig eftir sjólaginu kringum bátinn.
Ég var um tíma stýrimaður hjá Binna á Elliðaey RE sem Binni kallaði aldrei annað en Ellirey, ég spurði hann einu sinni afhverju hann kallaði Eyjuna og bátinn Ellirey, og hann svaraði ; Af því að hún heitir Ellirey.
Við vorum á trolli og vorum oftast þrjá sólarhringa úti í hverjum róðri, allan þann tíma svaf Binni ekki eins og við hinir á bátnum. Kallinn var eiginlega vakandi allan tíman, en svaf þess meira þegar hann var heima hjá sér í landi.
Skipstjóraklefinn var fyrir neðan brúnna einungis stigi úr brúnni og niður í skipstjóraklefann. En þangað fór hann yfirleitt aldrei, nema þegar verið var að stíma lengri leiðir milli veiðisvæða.
Einstaka sinnum lét hann leysa sig af á toginu, en þá lagði hann sig á bekk sem var í stýrishúsinu, bekkurinn var svo þröngur að hann lá þar í hnipri. Maður hélt stundum að hann væri sofandi á bekknum en hann hafði einhvern veginn alltaf andvara á sér því hann var endalaust að spyrja: Lóðar hérna ? hvað er dýpið ? hvað er langt í land ? dýpkaðu aðeins á þér. Þannig var hann alltaf meðvitaður um það hvar báturinn var hverju sinni , þó hann legði sig á bekkinn og væri þar milli svefns og vöku.
Benóný var sæmdur Fálkaorðunni 1971 fyrir störf sín á sjónum.
Ég hef áður lýst á bloggi mínu veru minni á Gullborg RE 38 þegar ég réði mig þar sem II. vélstjóra og ætla því ekki að endurtaka þær sögur hér.
Kona Benónýs Friðrikssonar var Katrín Sigurðardóttir frá Þinghóli í Hvolhreppi og áttu þau saman 8 börn.
Benóný létst 12 maí 1972.
Skáldin kunna að segja hlutina í færri orðum en við hin, Hafsteinn Stefánsson skipasmiður, skipstjóri og skáld orti um vin sinn Binna eftirgarandi ljóð sem hann nefndi; Útför Binna í Gröf:
Hafsreinn Stefánsson
Útför Binna í Gröf
Út siglir fley í aftan skini
eilífðarstefnu velur sér.
Kveðjuna senda kærum vini
klettarnir, drangur, flúð og sker.
Regnský frá auga ægir strýkur
ávarpar stillt sín breiðu höf.
Nú fá ekki dæturnar leikið lengur
við litla skipið hans Binna í Gröf.
Þjóð sinni drjúgan færði fenginn
fórnaði kröftum lífi og sál.
Þeir vissu best sem þekktu drenginn
að þrek hans var mest ef syrti í ál.
Um ókomna tíma alltaf verður
ósk vors harðbýla föðurlands
að synir þess megi flestir feta
í fótspor hins mikla afreksmanns.
Hafsteinn Stefánsson
Það er gaman að halda minningu þessara manna á lofti, manna sem settu svo sannarlega svip sinn á sína samtíð, alla vega finnst mér að þeir eigi það skilið af okkur sem enn munum eftir þeim.
Sigmar Þór
Athugasemdir
Kærar þakkir fyrir þetta Sigmar.
Það hríslast alltaf um mann einhver tilfinning þegar minnst er Binna í Gröf.
kv.Guðrún María.
Guðrún María Óskarsdóttir., 4.1.2011 kl. 23:09
Sæll Simmi
Skemmtileg og fræðandi grein um Binna í Gröf.
Kveðja frá EYjuam.
Pétur
Pétur Steingríms. (IP-tala skráð) 5.1.2011 kl. 05:32
Takk fyrir þessa fallegu grein um Binna í Gröf, ég fékk þessa grein hjá þér og setti hana inná Facebókina mína með þínu nafni, var það ekki í lagi ??
Halldór B. Halldórsson (IP-tala skráð) 5.1.2011 kl. 11:19
Alltaf gaman að kíkja á bloggið þitt Binni í Gröf setti mikin svip á bæinn ég kom stundum heim til hans Svana Ben er vinkona mín þannig kynntist ég honum .Hafsteinn var föðurbróðir minn og eftir hann eru 2 ljóðabækur kveðja af Skaganum
Helga Pétursdóttir (IP-tala skráð) 5.1.2011 kl. 18:11
Skemmtileg minning Simmi, takk fyrir að deila henni. Nafn Binna í Gröf hefur maður heyrt frá blautu barnsbeini og heyrist oftast vel hversu menn sem til hans þekktu dáðu hann og virtu. Það er líka gaman að sjá hve afkomendur hans eru upp til hópa dugmiklir og skemmtilegir einstaklingar.
Ásgerður Jóhannesdóttir (IP-tala skráð) 5.1.2011 kl. 19:14
Heil og sæl öllsömul, og þakka ykkur innlitið, það er gaman að fá þessar jákvæðu athugasemdir við þetta blogg mitt um Binna. Það sannar það sem ég held framm að Binni var vinsæll og þekktur sjómaður og við eigum að halda minninu hans á lofti.
Halldór það er bara gott að þessi minning um Binna fari sem víðast, til þess er leikurinn gerður . Helga frænka já bækurnar hans Hafsteins eru oft á náttborðinu mínu frábærar ljóðabækur.
Ásgerður, já ég tek undir það með þér að afkomendur Binna í Gröf eru upp til hópa hörkuduglegt og gott fólk og skemmtilegir einstaklingar, það þekki ég vel persónulega.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 5.1.2011 kl. 20:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.