4.11.2010 | 23:18
Vertu alltaf Hress í huga
Gott að hafa þetta í huga þessa dagana þegar svartsýnin nær tökum á okkur, ekki skemmir þessi fallega mynd Heiðars Egils af höfninni í Eyjum, rólegheitastemming yfir höfninni.
Vertu alltaf hress í huga,
hvað sem kann að mæta þér.
Lát ei sorg né böl þig buga,
baggi margra þungur er.
Vertu sanngjarn, vertu mildur,
vægðu þeim sem mót þér braut.
Bið þinn Guð um hreinna hjarta,
hjálp í lífsins vanda og þraut.
Treystu því að þér á herðar,
þyngri byrði ei varpað er.
En þú hefur afl að bera,
orka blundar næg í þér.
Þerraðu kinnar þess er grætur,
þvoðu kaun hins særða manns.
Sendu inn í sérhvert hjarta,
sólargeisla kærleikans.
Höfundur ókunnur
Athugasemdir
Hvar ert þú að finna þessi ljóð ? Sigmar.Mér finnst þau vera alveg einstök eins ljóðið um eftirmælin sem þú varst með á síðunni fyrir ári eða svo,Mér er alltaf minnistætt þegar afi Gunnar á Horninu sat í stofuni heima á Horninu og las hin ýmsu kvæði og ljóð upphátt,og bætti svo við athugasemdum um kveðskapinn,allt eftir því hvernig lá á gamla það og það skiptið,Mér dettur hann í hug við lestur svona kvæða og tækifæriskveðskapar.
Kv Laugi
Sigurlaugur Þorsteinsson, 7.11.2010 kl. 11:43
Heill og sæll Laugi og takk fyrir innlit og athugasemd. Ég man nú ekki eftir hvaða eftirmæli þú ert að meina en flest af þessum ljóðum hef ég safnað saman gegnum árin úr blöðum, bókum og frá höfundunum sjálfum. Mörg af þessum ljóðum og heilræðum hef ég fengið hjá Maríu Pétursdóttir Mæju hans Sveins Matt heitins, hún safnaði þessu og setti stundum á jólakort sem hún sendi okkur.
Sérstaklega safna ég ljóðum og sögum sem eru jákvæðar og falleg og geta verið uppbyggjandi og góðar til eftirbreytni. Það er nóg af þessu neikvæða í kringum okkur eins og við sjáum í fréttum blaða og ljósvakamiðla, þar er keppst við að koma með neikvæðar fréttir eða það virðist ekki vera fréttnæmt nema það sé eitthvað neikvætt. Þetta neikvæða tal og skrif virka á mig niðurdrepandi og þess vegna reyni ég að vera jákvæður þegar ég er að blogga, þó það sé ekki alltaf þannig því auðvitað hef ég skoðanir á hlutunum eins og stundum kemur fram hér á blogginu mínu.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 7.11.2010 kl. 14:44
Ég held svei mér þá að ég sé farinn að þjást af þessu sama ofnæmi fyrir neikvæðni og niðurrifi,en já það er einmitt það sem mér hefur fundist svo áhugavekjandi við þessi ljóð og vísur,hvernig höfundum þeirra í ljósi augnabliksins tekst að setja saman sterkan boðskap á heillandi hátt,Ég hef nú gerst sekur um að stela sumum ljóðunum á síðunni hjá þér og öðrum og er kominn með nokkuð stórt safn.vonandi er það í lagi þín vegna,ef ég birti þau á öðrum síðum læt ég fylgja með hvar ég fékk þau.
Kv Laugi
Sigurlaugur Þorsteinsson, 7.11.2010 kl. 20:46
Heill og sæll Laugi, auðvitað máttu nota það efni sem ég set inn á síðuna mína , mörg af þessum heilræðum og vísum hef ég fengið leyfi til að setja inn á síðuna mína en sumi hef ég sjálfur stolið úr blöðum og bókum sem ég á, aðalega Eyjaritum. Það er bara jákvætt ef við dreifum jákvæðu efni hér á netinu. Margar af þeim vísum sem ég hef sett hér inn eftir Eyjamenn, er bara liður í að halda nafni þessa fólks á lofti, það getur engin verið á móti því.
Það væri gaman að fá að hitta þig Laugi.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 7.11.2010 kl. 22:34
Innlitskvitt og góðar kveðjur frá Eyjum.
Helgi Þór Gunnarsson, 7.11.2010 kl. 23:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.