Gúmmíbjörgunarbáturinn hefur bjargað 1239 mönnum frá 1952

Gúmmíbjörgunarbáturinn hefur frá árinu 1952 bjargað 1239 mönnum. 

Gúmmíbjörgunarbáturinn er með bestu björgunartækjum sem fundin hafa verið upp, og ætluð til að bjargar sjómönnum í neyð. ( Var fyrst hugsaður til að bjarga flugáhöfnum og farþegum flugvéla). Það er merkilegt hvað það kostaði mikla vinnu og þras að koma þessu björgunartæki um borð í íslenska flotann, það hefur reyndar alltaf  verið þannig að erfitt hefur reynst að koma nýjum neyðarbúnaði í skip. Alltaf hafa verið einhverjir sem hafa barist og það hatrammlega á móti nýjum öryggisbúnaði sem reynt er að koma um borð í skip, þó augljóst sé að hann geti bjargað mannslífum. Aðra sögu er að segja um önnur tæki og tól sem þarf að fá eða endurnýja í skipum.. En ég ætla í þetta sinn að halda mig við gúmmíbjörgunarbátinn.

 

Sighvatur Bjarnason útgUpphaf gúmmíbjörgunarbáta í Vestmannaeyjum.

Á fundi í skipstjóra og stýrimannafélaginu verðandi  hinn 9. janúar 1945 urðu umræður um öryggismál sjómanna. Talaði Sighvatur Bjarnason, þá skipstjóri á Erlingi II. VE 325 , fyrir tillögu um þau mál og líkur henni með þessum orðum: “ Einnig að stjórn félagsins verði falið að leitast fyrir um hvort ekki væri hægt að fá gúmmíbáta sem hver mótorbátur hefði meðferðis til öryggis”. Hér er fyrst hreyft hugmyndinni um notkun gúmmíbjörgunarbáta í íslenskum fiskiskipum. Á þriðja landsþingi Slysavarnarfélags Íslands 1946 flutti Sigríður V. Magnúsdóttir fyrir hönd slysavarnardeildarinnar Eykyndils í Vestmannaeyjum tillögu um gúmmíbáta sem björgunartæki og var sú tillaga flutt oftar á sama vetvangi. Myndin er af Sighvati Bjarnasyni

 

Það var í vertíðarbyrjun  árið 1951 sem fyrsta gúmmíbjörgunarbátnum var komið fyrir um borð í m/b Veigu VE 291 frá Vestmannaeyjum. Hann var staðsettur uppi á stýrishúsi og komið þar fyrir í trékassa.

Undanfari þess var mikil vinna og deilur við embættismenn til þess að fá leyfi til að setja þetta björgunartæki sem kallað var ýmsum nöfnum um borð í Eyjabát. Að lokum samþykkti þáverandi skipaskoðunarstjóri, Ólafur Sveinsson sem örugglega var skynsamur maður, að það mætti hafa gúmmíbjörgunarbát um borð og tók hann þar með  rökum Eyjamanna eftir að hann hafði kynnt sér rök þeirra  og skoðað gúmmíbjörgunarbát sem var til sölu hjá Söludeild varnaliðseigna og Kjartan Ólafsson útgerðarmaður í Vestmannaeyjum var að kaupa.

En þar með var málinu ekki lokið, nú komu sérfræðingarnir hver af öðrum og fundu þessu allt til foráttu, voru skrifaðar margar greinar um málið  bæði í  landsmálablöð og héraðsfréttablöð, þar sem menn deildu á Vestmannaeyinga fyrir að verja þá ákvörðun að setja þessa ,,togleðursbáta” í skip sín. Eitt af rökum þeirra var að í engu öðru landi hafi þetta verið leyft. Páll Þorbjörnsson var einn af hörðustu Eyjamönnum sem tóku þátt í þessum ritdeilum. Hann svaraði þessum mönnum fullum hálsi og kom með góð rök fyrir því hvers vegna Eyjamenn vildu gúmmíbáta um borð í sín skip, það væri einfaldlega ekki hægt að koma fyrir plássfrekum flekum né stórum trébjörgunarbátum fyrir alla um borð í þessum litlu fiskibátum, þeir myndu heldur ekki gera neitt gagn.

 Flottur Sjómannadagur 2Það er of langt mál að rekja þessa sögu sem reglulega gegnum árin endurtekur sig ef einhver kemur með nýjungar hvað varðar öryggismál sjómanna, og þá sérstaklega ef hún  kemur fyrst frá Vestmannaeyjum en þaðan hafa þær flestar komið.

 

Eftirfarandi er bein tilvitnun í grein, tekin úr Alþýðublaðinu 16. apríl 1952 þar sem kemur fram að jafnvel besta fólk með góðan ásetning getur gert mistök eins og eftirfarandi samþykkt S.V.F.Í  frá árinu  1952 ber með sér en þar samþykkti Slysavarnarþingið eftirfarandi  ályktun:

 

Samþykkt 6. landsþings S.V.F.Í. árið 1952.

Á síðasta degi þingsins 2. apríl var málið afgreitt næstum einróma með samþykkt svohljóðandi tillögu til þingsályktunnar:

,, Sjötta landsþing Slysavarnarfélags Íslands ályktar:Samkvæmt öruggum heimildum hefur skipaskoðun ríkisins leyft að flothylki úr togleðri verði sett í fiskibáta af öllum stærðum, sem gerðir eru út frá Vestmannaeyjum, og koma flothylki þessi í stað hinna lögskipuðu skipsbáta og þeir því ekki hafðir með í sjóferðir, lengri eða skemmri.Landsþingið mótmælir þessari ráðstöfun. Í fyrsta lagi sem mjög hættulegri fyrir öryggi mannslífa á sjónum, í öðru lagi sökum þess, að flotholt sem þessi hafa í engu landi, sem kunnugt er um, fengið viðurkenningu sem örugg björgunartæki, er komið gæti í stað skipsbáta þeirra og björgunarbáta, sem krafizt  er að alþjóðalögum að notaðir séu á smærri og stærri skipum. Í þessu sambandi leyfir landsþingið sér að draga það mjög í efa, að til séu heimildir fyrir því í íslenskum lögum og reglum um útbúnað skipa, er heimili eða leyfi undanþágur sem þessar, sem hér um ræðir. Skorar því landsþingið á skipaskoðun ríkisin og önnur viðkomandi stjórnvöld að nema úr gildi framangreinda stórhættulega og að áliti þingsins heimildalausa undanþágu, sem veitt hefur verið.” 

Skipaskoðunarstjóri ræddi við slysavarnarnefnd þingsins eins og drepið er á héra að farman. Þær viðræður leiddu það í ljós að upplýsingar þær sem stjórn SVFÍ hafði gefið voru réttar: Mun skipaskoðunarstjóri hafa látið það í ljós að krafa frá samtökum útgerðarmanna og sjómönnum í Vestmannaeyjum hefði knúið sig til þess að veita undanþágu um að nota togleðursflothylki í stað skipsbáta á öllum fiskibátum þar. Enn fremur yrði þetta leyft á sams konar skipum við Faxaflóa. Hér mun engin stigsmunur gerður hvort skipið er 20 rúmlestir eða 100 rúmlestir að stærð eða meira. Nefndarmenn skildu ummæli skipaskoðunarstjóra á þann veg að þessi flothylki skyldu notuð á skipum sem stunduðu veiðar á djúpmiðum, ef til vill á Grænlandsveiðum. Þá taldi skipaskoðunarstjóri að heimilt væri að veita undanþágu sem þessa”. (Leturbreyting er höfundar.)

 

Frá sjómannad, GúmmíbáturÞannig er skrifað um þetta  í Alþýðublaðinu 16. apríl 1952 þegar Vestmannaeyingar höfðu tekið þá                                                                                                ákvörðun að setja gúmmíbjörgunarbát um borð í sína báta.

Framhaldið vitum við. Það þurfti ekki að bíða lengi eftir að þessi fyrsti gúmmíbjörgunarbátur m/b Veigu Ve 291 bjargaði mannslífum.

Laugardaginn fyrir Páska þann 12. apríl 1952 fórst vb. Veiga sem var  24 lesta bátur á netaveiðum vestan við Eyjar, þar björguðust 6 menn úr áhöfn í umræddan gúmmíbjörgunarbát en tveir menn drukknuðu. Þetta eru fyrstu sjómennirnir sem björguðust í gúmmíbjörgunarbát við Íslands strendur.

Tæpu ári seinna eða 23. febrúar 1953 fórst Guðrún VE og með henni 5 menn en 4 komust lífs af í gúmmíbjörgunarbát. Þarna hafði á aðeins tveimur árum 10 sjómönnum frá Vestmannaeyjum verið bjargað í gúmmíbjörgunarbáta og þar með höfðu þeir sannað gildi sitt.

Þó var það ekki fyr  en 8. maí 1957 eða 6 árum seinna sem Alþingi samþykkti lög um að öll íslensk skip skuli hafa gúmmíbjörgunarbáta fyrir alla áhöfnina.

Ásgeir Þ. Óskarsson, sem átti og rak Gúmmíbátaþjónustuna í Reykjavík í fjöldamörg ár og skoðaði á sínum tíma allt að 40 % af öllum gúmmíbátum á Íslandi, kom með góða gjöf til Siglingastofnunar fyrir 2 árum þ.e.a.s. möppu sem hann gaf Siglingastofnun Íslands til varðveislu. Ásgeir hefur þar látið skrá öll þau sjóslys þar sem menn hafa bjargast í gúmmíbjörgunarbáta. Þessi upptalning nær frá árinu 1952 til 2000 og kemur þar fram að 1196 sjómenn höfðu bjargast á þessu tímabili í gúmmíbjörgunarbát. Ég fékk leyfi Ásgeirs til að ljósrita öll þessi gögn, en aðalmappan er vel geymd í skjalasafni Siglingastofnun Íslands.

Eftir gögnum Rannsóknarnefndar sjóslysa, úrklippum og árbókum S.V.F Í.  hafa frá árinu 2001 til dagsins í dag bjargast að minsta kosti 43 sjómenn í gúmmíbjörgunarbát, þannig að heildartalan er þá kominn í 1239 sjómenn. Þetta er ekki lítil tala þegar haft er í huga að sjómenn eru ekki svo fjölmenn starfstétt.  Myndir af gúmmíbátum tók Friðrik Jesson.

Sigmar Þór Sveinbjörnsson

áhugamaður um öryggismál sjómanna

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Góður pistill og tímabært að rifja upp sögu þessa mikilvæga öryggismáls. Ég þekkti vel Skagfirðinginn Sigfús Agnar Sveinsson sem var einn þeirra sem björguðust af Veigu. Og um nokkra vetur söng ég ásamt Ásgeiri Þ. Óskarssyni og mörgu öðru ágætisfólki með Söngfélaginu Drangey undir stjórn Snæbjargar Snæbjarnardóttur. Ásgeir er góður drengur og vandaður sem gott er að fá að kynnast.

Svona rifjast margt upp af tilviljun.

Árni Gunnarsson, 18.9.2010 kl. 20:18

2 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Árni og takk fyrir innlit og góða athugasemd um þessa færslu mína. Já það er fróðlegt að rifja upp þennan gamla tíma og þá erfiðleika sem þessir menn þurftu að hafa fyrir til að fá þessi björgunartæki. Verst er að þetta hefur litið breyst hvað varðar báráttu fyrir nýjum tækjum.

Kær kveðja  

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 18.9.2010 kl. 20:48

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Og í framhaldi. Sigfús Agnar þekkti ég reyndar afar vel og við vorum lengi góðir kunningjar. Flest var honum vel gefið og margt afar vel. Hann var fjallgreindur og listfengur um mörg efni, vel hagmæltur og músíkalskur og lék allvel á píanó. Hann stundaði lengst af sjómennsku á Sauðárkróki en greip í múrverk þegar sjórinn bauð ekki upp á atvinnu. Hann gerði út eigin vélbáta af minni gerðinni og ég reri með honum einn sumarpart á 6 lesta snurvoðarbát sem hét Stígandi. Fáum kæmi í dag til hugar að gera slíkt fley út á dragnót!

Sigfús Agnar var svo vel verki farinn að það var unun að sjá hann leysa hratt og án vandamála hvert það verkefni sem að höndum bar og hversu óvænt sem það gerðist. Mér er minnsstætt atvik. Þetta var við Drangey.

Á þessum árum stunduðum við báðir ásamt nokkrum öðrum Skagfirðingum fuglveiðar á fleka. þarna vorum við hvor á sínum báti. Agnar á Stíganda en ég og félagi minn á opnum trillubát ca 3ja tonna. Ég og félagi minn skruppum i land í eyjunni í vorblíðunni á meðan flekarnir lágu en á sama tíma var sigflokkur við eggjatöku í Lambhöfðanum sem gnæfir yfir Uppgönguvíkinni - og skipuðum okkur á vaðinn í von um að fá greitt fyrir með svartfuglseggjum. Agnar var á dekkinu að "egna flekana"- græja kappmellur á snörurnar á flekunum sem hann skipti út fyrir flekana með fuglinum við umvitjunina. Við horfðum niður á víkina í góða veðrinu, sól og sunnangolu. Skyndilega tókum við eftir að bát okkar tók að reka hratt í átt að landi og greinilegt að af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hafði losnað hnúturinn af legufærinu.

Nú kom sér vel að Agnar var uppi á dekkinu. Hann sá þetta jafn snemma okkur og áður en auga festi hafði hann leyst Stíganda, sett í gang og bundið Þráinn S K 76 aftur við legufærið. Svo var hann tekinn til við að egna flekana sína í ró og næði eftir að hafa kveikt sér í sígarettunni að sjálfsögðu. 

Hann sótti okkur svo þegar við höfðum rölt niður stigann og skriðuna og líklega höfum við þakkað honum hantökin með hlut í eggjunum.

Um tíma átti hann samleið með slæmum förunaut sem tók þá völdin með ofbeldi eins og alþekkt er. Þar kom að minn ágæti vinur tók af skarið og sleit fyrir fullt og allt vinskapinn við þessa vofu ógæfunnar.

Hann lést úr krabbameini eftir hetjulega baráttu fyrir allnokkrum árum.

Mörg tilsvör Agga Sveins lifa í minningunni, kaldhamrað glens og matreitt af snilld. 

Ég sakna hans dálítið þegar ég rifja upp samveru okkar.

Árni Gunnarsson, 18.9.2010 kl. 21:09

4 Smámynd: Gísli Gíslason

Sigmar er það misminni að þegar Langanesið NK fórst við Eyjar það hafi í fyrsta sinn menn bjargast í björgunarbát úr sökkvandi skipi??

Gísli Gíslason, 18.9.2010 kl. 23:02

5 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Gísli, Skipverjar af Veigu VE 291 voru örugglega fyrstu ílensku sjómennirnir sem björguðust í gúmmíbjörgunarbát. Ég veit ekki hvað margir hafa áður bjargast af íslenskum fiskibátum eða skipum með því að komast á trébjörgunarfleka eða aðra björgunarbáta. Ég hef ekki kynnt mér þá sögu.

Veistu hvaða ár Langanesið fórst Gísli ?

kær kveðja 

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 18.9.2010 kl. 23:18

6 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll aftur Gísli, ég athugaði hvenær Langanesið NK 30 fórst en það var smíðað á Neskaupstað 1956. Báturinn fórst við Vestmannaeyjar 24 janúar 1959.

þannig að það var 7 árum á eftir að Veiga fórst.

Kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 18.9.2010 kl. 23:34

7 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góður pistil Sigmar.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 19.9.2010 kl. 02:08

8 identicon

Takk fyrir þennan góða pistil Simmi.Kveðja á Ykkur Kollu.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 19.9.2010 kl. 02:32

9 identicon

Finn pistill hjá þér og þörf áminning til allra sem tengjast útgeð og sjómennsku að aldrei má gefa eftir í

baráttunni um öryggismál sjómanna . kv 'Oskar Óafss

oskar m. olafsson (IP-tala skráð) 19.9.2010 kl. 15:46

10 Smámynd: Gísli Gíslason

Sæll Simmi.  Takk fyrir þetta. Það getur vel verið að áhöfnin á Langanesinu hafi verið fyrsta áhöfnin á norðfirskum bát sem bjargaðist á þennan hátt.  Ársæll Júlíusson annar eiganda að Langanesinu var frændi afa og þeir komu saman með sína báta á fyrstu vertíð í Eyjum.  Leigðu þá báðir hjá Marínó, pabba Trausta Mar.

Gísli Gíslason, 19.9.2010 kl. 16:24

11 Smámynd: Gísli Birgir Ómarsson

Það er alveg einstaklega gaman að lesa pistlana þína Sigmar.

Gísli: Ég man eftir því þegar afi minn - Trausti Mar, var að sýna mér gamlar blaðagreinar um sjóslys og annað því tengdu. Þ.á.m. Þetta tiltekna slys.

 Góðar stundir. 

Gísli Birgir Ómarsson, 23.9.2010 kl. 00:06

12 Smámynd: Gísli Foster Hjartarson

Eins og ávallt Simmi minn skemmtilegir pistlar á þinni síðu.

Gísli Foster Hjartarson, 23.9.2010 kl. 11:43

13 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heil og sæl öll ,  takk fyrir innlitið, atgugasemdir og góðar kveðjur.

Kær kveðja 

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 23.9.2010 kl. 20:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband