Samgöngur á sjó við Vestmannaeyjar gegnum árin

Afrit (3) af Ólafur Á Áraskip við vík

Samgöngur á sjó við Vestmannaeyjar í gegnum árin 

Það hefur verið mikið rætt og ritað um Bakkafjöruhöfn ( Landeyjahöfn) á undanförnum mánuðum og árum, þar  hafa menn haft ólíkar  skoðanir á þessum framkvæmdum, það er hið besta mál að menn láti þær skoðanir  ljós.

Samgöngur á sjó hafa verið umræðuefni í Vestmannaeyum í meira en hundrað ár og er fróðlegt að kynna sér þá sögu í stórum dráttum svona til samanburðar við daginn í dag.

 

 

 Í bókinni Ægisdyr II. Bindi eftir Harald Guðnason segir m.a.  eftirfarandi  í kafla um Samgöngur við Vestmannaeyjar: ,,Samgöngur á sjó fram undir 1940.

Eyjamenn áttu lengst af við erfiðar samgöngur að búa, og er svo enn að nokkru. Aðalleiðin var upp í Landeyjasand á stórum áraskipum. Skemmsta leiðin var upp á svonefndan Tanga austast í Austurlandeyjum, fram af bænum Bakka. Þá er Eyjamenn komu suður á sjóbæi og þurftu að komast heim til Eyja var kynt bál austur á Bakkatúni, þar sem heitir Brennutótt, ef sjór var dauður. Það var merki til Eyjamanna að sækja ferðalanginn. Að Hallgeirseyjasandi var lengri leið. Leiðin ,,upp í sand´´ er um 6 sjómílur, nálægt 11 km. Landeyingar og Eyfellingar héldu uppi ferðum til Eyja í verslunarerindum, og sumir formenn héldu úti skipum sínum frá Eyjum.

En oft var ófært við hafnlausa strönd. ,, Teppur “ gátu orðið langar, margar vikur stundum mánuði.”

 

 gömul4

Í þessum kafla lýsir svo Haraldar  þróuninni næstu áratugina sem hér er of langt upp að telja.

En það hafa einnig verið hér framsýnir menn sem hafa reynt að sigrast á briminu við suðurströndina og ætla  ég  hér að vitna í  grein í Skeggja, 29. tbl  frá árinu 1919, um tilraun sem Einar Magnússon gerði það ár. Einar Magnússon var járnsmiður fæddur 31. júlí 1892 í Hvammi undir Eyjafjöllum, hann lést í Vestmannaeyjum í gassprengingu sem varð í vélsmiðju hans 25. ágúst 1932.

 

 

 

 

Brimbátur Einars Magnússonar

Nýtt bátalag. Einar Magnússon járnsmiður gerði í vetur (árið 1919) nýjan bát með spánýju lagi. Hann er ætlaður til uppskipunar við sandana og þannig útbúinn að sjór gengur ekki í hann og naumast á hann að geta ,, farið af kjölnum”. Með honum á að takast að koma vörum úr landi og miklu oftar en með venjulegu aðferðinni, og fara auk þess miklu betur með fólk og farangur.

Báturinn er mjög lítill, stuttur en víður og flatbotna og sterkur vel. Ætlast er til að hann þoli högg af brimsjónum.

Hann var reyndur á mánudag í landferð og fór Einar sjálfur til að sjá hvernig báturinn færi í sjó og lætur hann vel af því.

Segist hann helst hafa kviðið fyrir að hann mundi ekki fylgja löðrinu nógu langt upp í sandinn. ,, En það var þvert á móti, hann skreið lengra upp en ég gat gert mér vonir um,, segir Einar.

Bændur sem voru við tilraunina láta hið allra besta yfir og telja bátinn besta grip.

Enginn vafi  er á því að slíkir bátar þykja ómissandi við sandinn.

Það er einhver munur á að láta sauðfé ofan í lokaðan bát, eða ferja það í opnum fjörubát í gegnum brimið.

Svo er frá bátnum gengið að fólk getur farið í honum þó sjór gangi yfir hann jafnt og þétt, og jafnvel þó honum hvolfi. Er það stórmikill munur við sanda.

Einar hefur unnið þarft verk með því að smíða þennan bát og mun hann ekki vinna þar til fjár.

Grunaður er hann að eiga fleira í fórum sínum sem hann hefur ekki lokið við ennþá, en hann fer dult með. Illt er það ef hann ætlar að eyða æfi sinni yfir götugum pottum og prímus hausum en láta bestu smíðar sínar ryðga til ónýtis’’.  

Tilvitnun í Skeggja lýkur.

 

 

 

 Fiskibátur                                                                                                                                                            Þegar fiskibátar héldu uppi samgöngum

Sjálfur man ég nokkuð langt aftur í tímann eða þegar hér voru fiskibátar sem héldu uppi samgöngum við Stokkseyri, Þorlákshöfn og Reykjavík þessir bátar hétu Gísli J. Johnsen VE 100, Vonarstjarnan VE 26, Skaftfellingur VE 33 Skógarfoss VE og fleiri bátar voru í þessum ferðum. Ég man vel eftir minni fyrstu ferð til fastalandsins þá 11 ára gamall, fór ég með  Gísla Sigmarssyni frænda mínum, við fórum með Blátindi VE 21 til Þorlákshafnar mig  minnir að einn fólksbíl hafi verið þversum á dekkinu yfir lestarlúgu, skipstjóri í þessari ferð var Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum.

 

 

 

 

 

 

                                                                                                                                                           Helgi VE 333 Fórst á FaxaskeriEkki man ég eftir neinu alvarlegu slysi á ferðum þessara báta  þó auðvitað hafi þessar ferðir oft verið erfiðar og  innsiglingar á Stokkseyri og Eyrarbakka ekki verið árennilegar og oft á tíðum hættulegar. Það þurfti t.d. að sæta sjávarföllum til að komast inn í þessar hafnir á þessum litlu fiskibátum. 

Nokkru áður eða fyrir mitt minni varð hörmulegt slys þegar Helgi VE 333 fórst á Faxaskeri með allri áhöfn og farþegum þann  7. janúar 1950 Helgi var að koma frá Reykjavík í mjög slæmu veðri og varð fyrir vélarbilun rétt austan við Faxasker og rak báturinn upp á Skellir og Faxasker og fórst þar.

 

 

 

 

 

 

Vanadis 2Í ágúst 1967 var gerð nýstárleg tilraun þegar fengið var svifskip af gerðinni SRN 6 sem fór fyrstu ferðina upp í sand 15. ágúst 1967. Skipið gat farið með 50 til 60 km hraða yfir hafflötinn ef veður var gott. Í skýrslu sem Jón Í Sigurðsson hafnsögumaður gerði um ferðir SRN 6 svifskipsins á þessum tíma segir orðrétt: ,, Fyrsta ferð með gjaldskylda farþega. Árið 1967 þann 16. ágúst kl.15.31 startað. Kl. 15.35 í hafnarmynni, kl. 15.37 við Klettsnef , stefna á Krosssand. Kl. 15.47 lent í Krosssandi. Farþegar fóru út á sandinn um stund. Kl. 15.57 startað, keyrt vestur sand. Kl. 16.05 á flot á leið til Vestmannaeyja, kl.16.19 í hafnarmynni kl. 16.22 lentir í Botni. Veður VSV 3 vindstig ölduhæð 0,60 m. Farþegar 29 (þar af eitt barn) áhöfn 3 menn.” Myndina af loftpúðaskipinu hér að ofan tók Eiríkur Einarsson.

 

 

 

 Loftpúðaskip Tryggvi

Þannig lýsir Jón þessari fyrstu ferð Svifskipsins með farþega upp í sand. Það tók sem sagt 12 mínútur  að fara frá hafnarmynni og upp í Krosssand. Í stuttu máli sagt var skipið hér í nokkra daga og flutti farþega upp í sand og til baka eða fór kringum Eyjar og stundum að Surtsey,  en 18 ágúst bilaði svifskipið og man ég að það var þó nokkra daga jafnvel vikur uppi á Nausthamarsbryggjunni.

 Undirritaður var svo heppinn að komast með þessu skipi eina ferð upp í sand og mun ég seint gleyma henni. Til gamans má geta þess að meðal farþega í þessari ferð var aflakóngurinn og sægarpurinn Benóný Friðriksson venjulega kallaður Binni í Gröf og kona hans Katrín Sigurðardóttir, það var skemmtilegt að fylgjast með Binna sitjandi í farþegasætinu, manni sem vanur var að standa við stjórnvölinn er siglt var á öldum hafsins.

 

 

 

Herjólfur svarti

 

 

 

 

 

Þann 12. desember 1959 kom fyrsti Herjólfur að bryggju í Vestmannaeyjum og þótti skipið góð samgöngubót fyrir Eyjarnar en það sigldi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja og einnig sigldi það til Hornafjarðar. Síðustu árin hélt það uppi ferðum milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar ásamt ferðum til Reykjavíkur 

 

 

 

 

 

 

 

Herjólfur GlæsilegurNýr Herjólfur kom 4. júli 1976 og sigldi það skip eingöngu milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, þótti það mikil samgöngubót þótt skipið hafi strax  verið talið gamaldags, var t.d aðeins með eina aðalvél og eina skrúfu, það þótti samt gott sjóskip. (Elsti Herjólfur var með tvær vélar)

Þetta skip þjónaði Eyjunum vel þau 16 ár sem það var notað og gæfa fylgdi því skipi alla tíð.

 

 

 

 

 

Nýjasti Herjólfur sem nú heldur uppi samgöngum við Eyjar  kom  árið 1992, glæsilegt skip sem hefur reynst vel í alla staði nema hann er of lítill að margra mati. Allir þekkja það skip og ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það. Þetta skip er nú notað til að sigla í Landeyjahöfn, það á eftir að koma í ljós hvort skipið hentar við þær aðstæður sem þar eru.

 

 

 

 

Ívar Herjólfur 008

 

 Landeyjahöfn.

Landeyjahöfn er nú orðin að veruleika langþráðu takmarki margra manna gegnum tíðina þar með náð. Við skulum vona og biðja þess að Guð og gæfa fylgi þessari höfn og öllum þeim mannskap og skipum sem um hana fara í framtíðinni.

Sigmar Þór Sveinbjörnsson

   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Fróðlegt og greinar gott yfirlit.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 2.8.2010 kl. 11:58

2 identicon

Sæll félagi og velkominn heim ég var farinn að sakna þín og takk fyrir þessa samantekt mjög fróðlekt kveðja úr Eyjum

Helgi Sigurlásson (IP-tala skráð) 2.8.2010 kl. 22:10

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þessi pistill er alveg meiriháttar.  Ég tek heilshugar undir með þér, varðandi Landeyjahöfn en ég er ekki mjög bjartsýnn.  En greinin hjá þér er mjög góð og fróðleg ef það er hægt vildi ég gjarnan fá að vita meira um BRIMBÁT Einars Magnússonar.

Jóhann Elíasson, 3.8.2010 kl. 09:50

4 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heilir og sælir Þorsteinn, Helgi og Jóhann og takk fyrir innlitið og góð orð um þetta blogg mitt. Það er alltaf gaman að skoða málin svona aftur í tímann, þó það taki tíma að flétta þessu upp þá er það að mínu mati skemmtilegt. Jóhann því miður fann ég ekki meira Brimbátinn hans Einars en eflaust hefur eithvað verið skrifað meira um hann og þessa tilraun. Þetta sem þarna er skrifað um Brimbátinn fékk ég fyrir nokkrum árum hjá góðum vini mínum Haraldi Guðnasyni sem nú er látinn, hann sendi mér stundum svona fróðleik um ýmis efni sem hann vissi að ég hafði áhuga á.

Kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 3.8.2010 kl. 17:07

5 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Kvitt og gaman að lesa þennan pistil/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 4.8.2010 kl. 23:27

6 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Sæll Sigmar, alltaf gaman að lesa svona fróðleik hjá þér.

Kær kveðja frá Eyjum 

Helgi Þór Gunnarsson, 8.8.2010 kl. 10:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband