13.1.2010 | 22:11
Gosárið 1973 er eftirminnilegt
Árið 1973 þegar eldgosið stóð yfir á Heimaey var gefið út blað er fékk nafnið Samfélagið með undirfyrirsögn : Blað Vestmannaeyinga í dreifingunni. Ritstjórar og ábyrgðarmenn voru prestarnir Þorstein Lúter Jónsson og Karl Sigurbjörnsson. Blaðinu var dreift ókeypis til allra Vestmannaeyinga sem voru dreifðir um allt landið. Þeir sem skrifuðu í þetta blað voru auk ritstjóranna þeir Sigurbjörn Einarsson og Gunnar Thoroddsen.
Þorsteinn Lúther Jónsson var prestur Vestmannaeyinga frá árinu 1961 til 1975. Hann var fæddur í Reykjavík 9. júlí 1906 og lést 4. október 1979, myndin hér til hliðar er af Þorsteini Lúter.
Tvö ljóð eftir sr. Þorstein Lúter Jónsson eru í umræddu blaði og lýsa þau vel þessum eftirminnilegu tímum. Ég kynntist Þorsteini Lúter nokkuð vel er hann kenndi okkur við Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum, hann var frábær maður og góður penni hvort sem hann samdi ljóð eða skrifaði greinar í blöð. Ég birti meira úr þessu blaði á næstu dögum en hér koma ljóðin:
Andspænis náttúruhamförum
Orðin svört með sog og læti,
sóknardjarfa Eyjan mín,
aska byrgir öll þín stræti,
eldur gleypir húsin þín,
hrynja veggir, hníga þök,
hér við gígsins valdatök,
með voðalegum eldi í æðum
alla býr þig sorgarklæðum.
En lífsins guð æ boðar bætur
bænarorðum gefur svar,
í roða dagsbrún rísa lætur
ríki nýrrar framtíðar:
bjartir dagar fegra fold,
frósöm talar gróðurmold,
sjómenn glaðir sækja miðin,
sól upp runnin, nóttin liðin.
Að tveimur mánuðum liðnum
Eldregnið æðir,
Eyjunum blæðir,
eldurinn eyðandi fer.
Farg-þunginn flæðir,
faðminum læðir.
Hrammurinn hrauntungan er.
Stormur hér stinur,
sterkur er dynur,
megnar ei mannshöndin neitt
að hjálpa, er hrynur
húsið þitt vinur,
sem áður var athvarf þitt eitt.
Brakar og brestur,
bjálki hver gnestur,
er byltist og bifast þitt hús.
Vor guð veri gestur,
sem í getunni er mestur
og ætíð til aðgerða fús.
Þ.L.J
Kær kveðja SÞS
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.