22.5.2014 | 23:13
Sigurður Óskarsson kafari m.m. 70 ára
Sigurður Óskarsson 70 ára

Sigurður Óskarsson mágur minn og besti vinur er 70 ára í dag 24. maí 2014. Siggi á Hvassafelli eins og hann er oftast kallaður af vinum og kunningjum, er margt til lista lagt og hefur gegnum tíðina unnið fjölbreytta vinnu, enda þekktur maður um allt land af öllu góðu. Hann er lærður húsasmiður og vann við það nokkur ár, hefur næmt smiðsauga og er þess vegna auðvitað alltaf að smíða, en ekki er efniviðurinn alltaf tré, því hann smíðar einnig úr járni og plasti ef með þarf.
Sigurður Óskarsson er ekki bara lagin við smíði á tré, járni og plasti, hann er einnig frábær lagasmiður og textahöfundur og hann á auðvelt með að gera skemmtilegar vísur, enda mikill húmoristi. Hann hefur gert mörg gullfalleg lög, sálma og texta sem vert væri að taka saman og gefa út. Nokkur lög og textar hans hafa verið gefin út á plötur og diska.
Siggi stofnaði hljómsveitir á yngri árum og er frægust þeirra Hljómsveit SÓ eða hljómsveit Sigurðar Óskarsonar, sú hljómsveit var í mínu ungdæmi ein besta danshljómsveit á íslandi. Þar spilaði Siggi á trommur en hann spilar á mörg önnur hljóðfæri.

Þessi þúsund þjala smiður er einnig uppfinningamaður, hann fann upp afskurðarvél og fl. og það sem ekki allir vita, þá bjó hann til líkan af fyrsta sleppibúnaðinum fyrir gúmmíbáta það var 1970, en þessi hugmynd náði ekki eyrum útgerðarmanna né sjómanna. Sumir eru bara á undan sinni samtíð það er bara þannig.
Siggi var um nokkra ára skeið útgerðarmaður og gerði út ásamt Guðmundi Karli Guðfinnssini bát sem hét Guðfinnur Guðmundsson VE 445 auk þess að vinna við útgerð Huginn VE 55.
Hann var í stjórn Vinnslustöðvarinnar í 10 ár og á þeim tíma stjórnarformaður þess stóra fyrirtækis.
Siggi framleiddi og smíðaði nokkra plastbáta þegar hann stofnaði og átti fyrirtækið Eyjaplast, það voru tvær gerðir af bátum sem hann framleiddi svonefnur færeyingur og bátar af gerðinni Faxi, flottir og vandaðir bátar. Það má bæta því við að samhliða bátasmíðinni smíðaði Siggi sumarbústað úr plasti og flutti í tvennu lagi í Fljótshlíðina þar sem hann hefur komið sér upp sínum sælureit fyrir sig og konu sína Sigurbjörgu Óskarsdóttir.

Siggi rak kranafyrirtæki í mörg ár og var með tvo stóra bílkrana. Þau ár sem Siggi rak kranafyrirtækið var mikil vinna fyrir þessi tæki í Eyjum, mikil uppbygging og steypuvinna um allann bæ ásamt mikilli vinnu við Vestmannaeyjahöfn.
Það má hér minna á að bílkranarnir hans gengdu mikilvægu hlutverki í eldgosinu 1973 við björgun verðmæta, og það var ekki síður mikil vinna hjá Sigga og starfsmönnum hans í kranafyrirtækinu við uppbyggingu í Eyjum eftir gosið. Hann keypti einnig körfubíl sem hann leigði út í mörg ár og var hann þar brautriðandi í því í Eyjum.
Eitt af mörgu sem Siggi hefur unnið við er köfun, hann var kafari í mörg ár og ég get fullyrt að í því starfi stóð hann sig sérstaklega vel , það var ekki öfundsvert starf að kafa og hreinsa úr skrúfum á skipum ekki bara innanhafnar heldur líka út á rúmsjó oft við misjafnar og erfiðar aðstæður. Hann vann einnig sem kafari við að leggja vatnleiðsluna og rafstengi milli lands og Eyja , einnig vann hann við lagningu skolpleiðslu á haf út í Reykjavik og Eyjum svo eitthvað sé nefnt.
Nú síðustu ár hefur Siggi rekið Gluggaverksmiðjuna Gæsk en hún framleiðir plast glugga og plast hurðir af bestu gerð. Siggi hefur nú selt gluggafyrirtækið og þá er spurning hvað tekur við hjá honum.
Við sem þekkjum Sigga vitum að hann situr ekki auðum höndum þó hann sé hættur að vinna hann finnur sér örugglega eitthvað að gera, hann er líka þannig típa að hann þarf allaf að vera að breyta og bæta allt sem er í kringum hann, enda á hann mikið af verkfærum til þessara starfa, það er líka nauðsynlegt fyrir mann eins og Sigga á Hvassafelli að hafa allar græjur og geta smíðað það sem honum dettur í hug.

Ég hef stundum sagt að hann getur ekki með nokkru móti séð húsin sín í friði hann þarf alltaf að vera að breyta þeim og bæta og ber heimili þeirra hjóna þess merki.
Það er aðeins eitt sem þessi skemmtilegi og góði mágur minn á erfitt með, og það er að hann á ekki gott með að aðlagast þjóðfélaginu pappírslega séð, hann þolir illa allt þetta pappírs fargan sem fylgir nútíma þjóðfélagi. En lánið fylgir Sigga, hann á bróðir Friðrik Óskarsson sem hefur ótakmarkaða þolinmæði í að meðhöndla pappíra í hvaða formi sem þeir eru.
Sigurður Óskarsson mágur minn og besti vinur, til hamingju með 70 ára afmælið, hafðu það alltaf sem allra best og Guð og gæfan fylgi þér og þínum um ókomin ár.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson mágur þinn.
Bloggar | Breytt 26.5.2014 kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.5.2014 | 10:50
Hugsun mín
HUGSUN MÍN
Hugsun mín hún ferðast
um heima rúms og tíma,
vantar eigin vísdóm,
velur sjálf og hafnar.
Brýst í búmans raunum,
bágt á hún á stundum,
víkur burtu vanda,
veldur hver á heldur.
Vill allt vita og skilja,
vernda þekkja og kanna,
lýsa upp lífsins vilja,
leyndardóma sanna.
Rýnir í orð og eindir,
allt er máli skiptir
er hún söngtón sendir,
sanngirninni lyftir.
Gætir þess að gæfan
gefist eiað marki
sem vart til heilla hugsa
og helgast góðri breytni.
Bjarni Th. Rögnvaldsson

Ljóðið Hugsun mín, er úr ljóðabókinni Öldublik eftir Bjarna Th. Rögnvaldsson.
Í Öldublik eru mörg falleg ljóð sem gaman er að lesa.
Bjarni hefur einnig gefið út aðra ljóðabók se hann nefnir Árstíðirnar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)