8.2.2011 | 21:57
Eyjasjómenn kveðast á
Hafsteinn Stefánsson, Jón Stefánsson og Hilmar Rósmundsson
Eyjasjómenn kveðast á.
Í önn hins vinnandi dags er oft margt sér til gamans gert, sem aldrei er á bækur skrifað né skráð í annála ritað. - Meðal íslendinga hefur það löngum verið þjóðaríþrótt að kasta fram stöku. Þegar tilefni gefst til. Í Vestmannaeyjum eru þeir jón Stefánsson vaktmaður á Vestmannaeyjaradíói og Hafsteinn Stefánsson stýrimaður kunnir hagyrðingar og hafa iðulega skemmt með íþrótt sinni á þorrablótum víðfrægum, sem haldin eru ár hvert.
Um sumarmálin síðustu skiptust þessir góðkunningjar á stökum, og fleiri reyndu sig í þeim leik, þar á meðal aflakóngurinn Hilmar Rósmundsson með góðum árangri.
Í hvert skipti sem skip lætur úr höfn, ber því skylda til að tilkynna brottför. Kallmerki íslenskra skipa fiskiskipa eru fjórir bókstafir. Byrja öll á TF, en síðari tveir bókstafirnir eru breytilegir , Er látið næja að nota þá í brottfarartilkynningu.
Hafsteinn var s.l. vetur stýrimaður á Andvara KE og er kallmerki Andvara TFMZ. Notar Andvari því Magnús Zeta (MZ) við tilkynningu staðar, brottfarir o.s. frv.
Eitt sinn á leið á miðin tilkynnti Andvari KE brottför sína þannig:
Allir leita á einhver mið
ef þeir bara geta.
Út á haf um hafnarhlið
heldur Magnús Zeta.
Sæbjörg VE 56 tilkynnti næstur brottför úr höfn:
Bragasmíð að bögglast við
byrja fleiri en geta.
Ég held líka út á mið
eins og Magnús Zeta.
Jón Stefánsson mun hafa kunnað vel að meta þetta sjómannagaman. Á sumardaginn fyrsta sendi hann eftirfarandi kveðju frá Vestmannaeyjaradíó ti Eyjaflotans.
Hlýjar flytur hugur minn
heillakveðjur vítt um sjó,
vel svo þakkar veturinn
Vestmannaeyjaradíó.
Var þá Hafsteinn Stýrimaður á Andvara ( TFMZ ) ræstur út til að svara.
Kveðjur drengir hafa hér,
heyrt og kunna að meta,
innilega þakka þér
þetta Magnús Zeta.
Um aflaskipið sæbjörg ( TFZK ) kvað Hafsteinn:
Hrausta drengja létt er lund,
leið þó vindur gári,
út á breiða Ægisgrund
öslar Zebra Kári
Um Sigurð Gunnarsson skipstjóra á Sæunni kvað Hafsteinn.
Sigurð Gunnars sáuð þið
sigla hlunna dýri
fram á unnar ystu svið
allvel kunni á stýri.
Hafsteinn gekk eitt sinn á eftir öldruðum sjómanni, sem hafði stundað sjóinn um langan aldur, en var kominn í land:
Ég stóra hnúta stundum fékk,
þó stormar vildu bátnum granda.
Nú kemur ekki dropi á dekk
og dauður sjór til beggja handa.
Og að lokum ein bitavísa eftir Jón Stefánsson sem hann orti þegar Ísleifur VE 63 kom nýr til Eyja frá Noregi þann 7. nóvember 1967.
Aflasæll við alla veiði,
áföll hjá þér jafnan sneiði,
eigðu um höfin óskaleiði,
Ísleifur.
Eyja syni, dáða drengi,
djarfa hrausta, hafðu lengi,
alvalds hönd þitt efli gengi,
Ísleifur.
Skrifað úr Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1969 og bætt við myndum af viðkomandi mönnum.
Bloggar | Breytt 12.2.2011 kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)