Enn sannast mikilvægi þyrlusveitarinnar

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-Líf, lenti í Vestmannaeyjum fyrir stuttu til að sækja fyrirbura sem fæddist þar fyrir skemmstu. Var gripið til þess ráðs að senda þyrluna á vettvang og flytja mæðginin á Landspítalann til frekari aðhlynningar.

PUMA TF-LÍF
Enn sannast mikilvægi þyrlunnar og þeirra sem henni stjórna, þetta er eitt af fjölmörgum verkefnum sem sem þyrla Landhelgisgæslunar þarf að sinna. Við íslendingar verðum að eiga og reka helst fjórar þyrlur svo öryggi okkar landsmanna sé tryggt, og auðvitað þarf einnig að vera til þjálfaðar áhafnir á þessi bráðnauðsynlegu björgunar og öryggistæki. Við skulum einnig meta þau störf sem áhafnir þessara tækja sinna, því oft á tíðum eru þessar bjarganir og flug í vondum veðrum ekki hættulaus þó sjaldan sé talað um það í fjölmiðlum.

Vonandi fer þetta vel og barn og móðir  sé komin í öruggar hendur á spítala í Reykjavík.  

          Svona atvik fá mann líka til að hugsa um það hvað nauðsynlegt það er að hafa góð og vel útbúin sjúkrahús úti á landsbyggðinni þegar veður gera allar samgöngur vonlausar. Það er ótrúlegt að sjórnmálamenn skuli ekki hafa skilning á því að það er einfaldlega lífsnauðsynlegt.


mbl.is Fyrirburi sóttur til Eyja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þórunn Sveinsdóttir og Sigurjón Óskarson Eyjamaður ársins

Þórunn Sveinsdóttir — skip og nafn —             

    Vélskipið Þórunn Sveinsdóttir VE 401,  var smíðuð í Stálvík hf. við Arnarvog í Garðabæ árið 1970. Hún er 105 brúttólestir og kom til Vestmannaeyja 20. febrúar 1971. Eigandi skipsins var Ós hf., fjölskyldufyrirtæki Óskars heitins Matthíassonar skipstjóra og útgerðarmanns   Þetta skip átti eftir að verða þekkt gæfu- og aflaskip undir öruggri stjórn Sigurjóns Óskarssonar skipstjóra og útgerðarmanns. Það er staðreynd að sumum skipum og skipsnöfnum fylgir gæfa og öðrum ekki, þó að auðvitað ráði þar miklu að skip sé vel mannað, með vönum og traustum skipverjum og með skipstjórn fari duglegur og góður sjómaður.          

     Móðir Óskars Matthíassonar hét Þórunn Sveinsdóttir. Hann hefur haft trú á að gifta fylgdi nafni móður sinnar og þess vegna skírt þetta nýja skip eftir henni. Þegar skipinu var gefið nafn hinn 11. des. árið 1970 var keypt kampavínsflaska sem hengd var í band til að brjóta á stefni skipsins eins og venja er við þess háttar athafnir. Þórunn, dóttir þeirra hjóna Þóru Sigurjónsdóttur og Óskars Matthíassonar, fékk þann heiður að skíra skipið og við sjósetningu þess fór hún með eftirfarandi texta:               

Þórunn Sveinsdóttir Staumsvík 2 „Signi þig sól, skip framtíðarlands, morgungeislum guðs. Verndi föng og fjöl giftuvættur Fróns,               og blessi þig í dag og alla daga. Um leið og þú kyssir Ægi konung skal nafn þitt nefnt í heyranda hljóði. Þórunn Sveinsdóttir skalt þú heita. Sú gifta, sem nöfnu þinni fylgdi, fylgi þér. Þeir menn, sem við þig starfa, hljóti heill og hamingju og njóti verndar Drottins, landi og lýð til heilla. Drottinn veri með þér alla tíð.” Eftir þessi orð fleygði Þórunn flöskunni í stefnið en flaskan brotnaði ekki heldur skall utan í kinnunginn og kom í bandinu óbrotin til baka. Sigurjón Óskarsson, bróðir hennar, var fljótur að hugsa, greip flöskuna á lofti, en hugurinn var svo mikill að klára málið að í stað þess að láta Þórunni hafa flöskuna aftur þeytti hann henni sjálfur af afli í stefnið svo að hún mölbrotnaði og kampavínið freyddi á stefninu.   

Fyrstu vertíðina var Óskar Matthíasson sjálfur skipstjóri á Þórunni Sveinsdóttur. Hann var kunnur skipstjóri og átti farsælan skipstjórnarferil að baki á nokkrum bátum hér í Eyjum, má þar nefna Leó VE 400 en á því skipi varð hann aflakóngur þrjár vertíðir. Sigurjón Óskarsson skipstjóri, sonur Þóru og Óskars, tók við skipstjórn á Þórunni Sveinsdóttur sumarið 1971. Honum gekk strax vel að fiska, varð aflakóngur 11 vetravertíðir í Eyjum þar af var hann aflakóngur tvisvar yfir landið. Á þessum 11 vertíðum fiskaði hann samtals: 12,547 tonn   Það verður að hafa í huga að á þessum árum voru mörg skip á vetrarvertíð í Eyjum og enginn kvóti á fiskinum í sjónum.   

Sigurjón Óskarsson skipstjóri er ekki einungis góður fiskimaður, hann og áhöfn hans hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að bjarga sjómönnum úr bráðum lífsháska og skipi úr strandi við erfiðar aðstæður.     Í örstuttu máli :  Þann 14. febrúar 1974 sökk togarinn Bylgjan RE frá Reykjavik. Skipið hafði verið að loðnuveiðum við suðurströndina en sökk 8 sjómílur SA af Hjörleifshöfða. Áhöfnin á Þórunni Sveinsdóttur bjargaði 11 mönnum en einn maður komst ekki í gúmmíbjörgunarbát og drukknaði.             Þann 18. janúar 1981 strandaði Katrín VE 47 á Skeiðarársandi í Meðallandsbugt. Hluta áhafnar Katrínar var bjargað í land en Sigurjón og áhöfn hans á Þórunni Sveinsdóttur náðu Katrínu á flot við mjög erfiðar aðstæður og björguðu þar með skipinu ásamt þeim mönnum sem eftir voru um borð. Norðan hvassviðri var og töluvert brim þegar þessi björgun átti sér stað og þótti þetta mikið afrek sem Sigurjón og áhöfn hans unnu þarna við erfiðar aðstæður.  þann 24. maí 1982 varð eldur laus í Jóhönnu Magnúsdóttur RE 74 þar sem báturinn var að humarveiðum í Skeiðarárdýpi. Urðu skipverjar að yfirgefa skipið og fara í gúmmíbjörgunarbát en á þessum miðum var þá austan 6-7 vindstig og talsverður sjór. Um klukkustund eftir að þeir yfirgáfu bátinn var Þórunn Sveinsdóttir komin á staðinn og bjargaði áhöfninni.  Þann 7. mars 1989 var vélbáturinn Nanna VE 294 að togveiðum skammt suður undan Reynisdröngum við Vík í Mýrdal í slæmu veðri. Nanna sökk á skömmum tíma og sjö skipverjar, sem á skipinu voru, komust í gúmmíbjörgunarbát. Skipstjóri gat sent út neyðarkall og klukkustund síðar var Þórunn Sveinsdóttir komin á staðinn og bjargaði áhöfn Nönnu. Skipstjóri á Nönnu VE 294 var Leó Óskarsson, bróðir Sigurjóns. 

Þessi aflamet og bjarganir voru unnin á þá Þórunni Sveinsdóttur sem smíðuð var í Stálvík við Arnarvog 1970. Það skip var síðan selt 1991. Árið 1991 var nýtt skip afhent Ós hf. frá Slippstöðinni á Akureyri. Fékk það skip, sem er skuttogari, nafnið Þórunn Sveinsdóttir VE 401. Hinni nýju Þórunni Sveinsdóttur hefur einnig fylgt gæfa og velgegni.   

Framhald á þessari sögu seinna.

Sigmar Þór Sveinbjörnsson


Bloggfærslur 7. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband