29.1.2011 | 17:31
Gömul minningarbrot
Mér er minnistætt þegar Bjarni Jónasson þá stýrimaður ( Seinna flugmaður og kennari m.m.) var að byggja húsið sitt við Brekkugötu, þar sem þau Bjarni og jórunn kona hans búa en. Þá var á sama tíma Óskar Matt frændi minn og Þóra Sigurjónsdóttir að byggja sitt hús við Illugagötu 2 og við frændurnir, Stjáni, Sigurjón, og Matti vorum þar að nagldraga og skafa timbur. Þegar við höfðum klárað þá vinnu hjá Óskari var Bjarni að byrja að slá utan af sínu húsi sem var næsta hús við nýbyggingu Óskars. Hann sá að þarna voru peyjar á ferð sem gott væri að fá í vinnu enda þekkti Bjarni okkur alla vel. Á þessum tíma tíðkaðist ekki að borga peninga fyrir að slá mótatimbri utanaf húsum, nagldraga og skafa síðan timbrið, enda flestir staurblankir sem stóðu í nýbyggingum á þessum árum, eins og reyndar alltaf. En Bjarni dó ekki ráðalaus frekar en fyrri daginn. Þannig var að hann átti KK mótorhjól og Valgeir bróðir hans átti samskonar hjól nema það var gult að lit, annars voru þessi KK hjól yfirleitt fölgræn. Bjarni vissi að við höfðum mikinn áhuga á þessum hjólum, því við vorum oft að skoða þau fyrir utan nýbygginguna hjá honum þar sem þeir bræður voru að vinna. Hann kom því einn daginn og gerði okkur tilboð sem enginn af okkur gat hafnað.
Tilboðið var á þá leið að við ynnum við húsið hans að nagldraga og skafa timbur í einn klukkutíma í senn, og í laun fengum við að fara á mótorhjólunum í 15 mín Í staðinn, og þannig koll af kolli allan daginn. Reglur voru settar þessháttar að ekki mátti fara niður í bæ heldur varð að hjóla inn í dal og eða út á Hamar, enda vorum við allir próflausir. Það þarf ekki að orðlengja það að við tókum tilboðinu með þökkum enda eru þeir bræður einnig skemmtilegir að vinna með. Við kláruðum að naglhreinsa og skafa timbrið á mettíma. Ég fullyrði það, að allir vorum við frændurnir ánægðir með okkar hlut, og ekki síður voru þeir Bjarni og Valgeir Jónassynir ánægðir með sitt hlutskipti, en þeir hefðu verið nokkrum dögum lengur að nagldraga og skafa ef þeir hefðu ekki fengið hjálp okkar peyjana.
það er alltaf gaman að rifja upp þessar gömlu minningar sem ég reyndar skrifaði niður fyrir nokkuð mörgum árum.
Sigmar Þór
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)