Ræða flutt á Sjómannadegi 1976

 Á sjómannadag 1976

Á sjómannadaginn 1976 fékk ég það hlutverk að setja Sjómannadaginn, ég var þá í Sjómannadagsráði og það var einhver vandræði að fá sjómann til að setja daginn. Mér er þett mjög minnistætt þar sem ég kveið mikið fyrir að standa þarna uppi á svölum á Samkomuhúsi Vestmannaeyja fyrir framan fjölda fólks.

Eins var erfitt að semja ræðu sem varð að mínu mati að vera  stutt þannig að hún tæki fljótt af. En ég held að þetta hafi allt gengið vonum framar með hjálp góðra manna, þó ég hafi nokkuð skolfið í hnjáliðum þegar ég kom fram og byrjaði ræðuna. Þessa ræðu hef ég geymt vel og vandlega, enda fyrsta og eina útiræða sem ég hef flutt.

Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga fyrir Sjómannadeginum og geri mér grein fyri því að hann er ómetanlegur hluti af stéttarbaráttu sjómanna. Þess vegna er það mér óskíljanlegt að sjómenn skuli ekki mótmæla því að dagurinn okkar Sjómannadagurinn skuli nú vera uppnefndur Hátíð Hafsins á Reykjavíkursvæðinu og í Þorlákshöfn það sem flest snýst nú um sjó, þar er Sjómannadagurinn uppnefndur Hafnardagar. Það er ótrúlegt að engin sjómaður skuli mótmæla þessu, það er eins og sjómenn geri sér ekki grein fyrir því hvað Sjómannadagurinn er sjómönnum mikilvægur í sambandi við stéttarbárattu þeirra.

 

En til gamans læt ég hér setningaræðu mína á Sjómannadaginn 1976 fylgja, hún getur vel átt við í dag ef breytt væru ártölum.

 Hér er lika mynd af Sjómannadagsráði Vestmannaeyja 1972 en þetta var hörku lið.

 

Sjómannadagsráð Vestmannaeyja 1972

 

Góðir hátíðargestir.

Nú á þessu ári eru 38  liðin , frá því fyrst var hátíðlegur haldin Sjómannadagur á Íslandi. Það voru sjómannafélög í Reykjavík og Hafnarfirði, sem riðu á vaðið 6. júni 1938.

Hátíðarhöldin tókust þá vel fyrst og fremst vegna almennrar þátttöku.

Hér í Vestmannaeyjum var Sjómannadagurinn fyrst haldinn hátíðlegur vorið 1940 . Og nú er Sjómannadagurinn fyrir löngu orðinn fastur hátíðisdagur allra landsmanna. Markmið Sjómannadagsins voru í upphafi og eru enn margþætt.

Fyrst og fremst er Sjómannadagurinn hátíðisdagur. Þá gera menn sér glaðan dag. Á Sjómannadegi þakka sjómenn góðar gjafir liðins tíma, og skyggnast fram á veginn til nýrra sjóferða og nýrra veiðifanga.

Og á sjómannadegi minnast sjómenn einnig látinna vina og samstarfsmanna.

Hinsvegar er Sjómannadagurinn baráttudagur sjómanna. Á Sjómannadaginn minna sjómenn á ýmis velferðarmál stéttar sinnar, svo sem menntunarmál og rekstur dvalarheimila fyrir aldraða sjómenn . Og seinast en ekki síst er Sjómannadeginum blátt áfram ætlað það hlutverk að minna á sjómannastéttina og störf hennar og mikilvægi í þágu lands og þjóðar.

Sjómannadagsráð Vestmannaeyja 1976 vill nú á þessum Sjómannadegi leitast við að halda merki hans á lofti með fjölbreyttri dagskrá.

Fyrir hönd Sjómannadagsráðs óska ég öllum áheyrendum gleðilegrar hátíðar og segi hátið Sjómannadagsins setta.

 

 

Sigmar Þór Sveinbjörnsson


Bloggfærslur 25. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband