6.5.2010 | 22:32
Byggðasafnið í Garðinum er til fyrirmyndar
Á sunnudaginn fórum við hjónin í Garðinn þar sem þessi glæsilegi viti er staðsettur, hann heitir Garðskagaviti og er byggður 1944, ljóshæð vitans er 24 m. Lengra í burtu má sjá gamla Garðskagavitan sem enn er haldið við.
Þarna við vitan er Byggðarsafn Garðahrepps. Þetta safn er virkilega gaman að skoða, þarna eru gamlir bátar, líkön og fjöldin allur af gömlum vélum og því sem vélum er tengt, eins og skrúfur, öxlar og gírar af fjölmörgum tegundum.
Hér er Kolla og Gils Guðmundsson við einn bátinn en hann er búinn seglum og árum.
Þó nokkur líkön eru á safninu bæði af vélskipum og segl og árabátum og svo eru þeir einnig nokkrir í fullri stærð. Mikið og gott myndasafn er þarna sem gaman er að skoða.
Hér má sjá mikin fjölda smávéla sem allar eru eins og nýjar og margar þeirra eru gangfærar, ótrúlega vel gerðar upp og ekki rykkorn á einni einustu vél frekar en öðru á þessu safni.
Hér má sjá netasteina og snellur eða færarúllur af gömlu gerðinni ásamt fleiri hlutum. Og ég mátti til að taka mynd af gömlu talstöðvunum og þarna á miðri mynd má sjá tæki sem kallað var TRILLIR og margir sjómenn kannast við.
Á borðinu eru önglabúnt og áhnýtingarstokkar sem notaðir voru til að hnýta á spaðaöngla og hamptauma, þetta notuðum við peyjarnir ( frændur mínir) í gamla daga því öðru vísi höfðum við ekki afl til að herða hnútinn á önglinum, Stjáni, Sigurjón og Matti kannast örugglega við þetta apparat. Lagningskallinn er vist með þeim fyrstu sem notaðir voru við lagningu línu, seinna urðu þeir tvöfaldir, og á honum hangir stokktré sem lína var sett upp á. Mennirnir á myndinni heita Gils og Gústi.
Þarna sá ég útvarp eins og ég átti á unglingsárum, en myndin sýnir aðeins hluta af útvarpssafninu sem þarna er og sama er að segja um símana.
Þessar myndir sýna aðeins brot af því sem á þessu safni er, það er virkilega þess virði að fara í Garðinn og skoða þetta safn, það er bæði fjölbreytt og sérstaklega snyrtilegt í alla staði. Garðbúar og starfsfólk safnsins meiga vera stolltir af þessu glæsilega Byggðasafni .
Ekki skemmir það að uppi í safninu er kaffistofa sem gaman er að komi í og njóta þess að fá sér gott kaffi og meðlæti, með útsýni út á sjóinn og nálagð við þessar fallegu vitabyggingar.
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)