16.12.2010 | 21:11
Bergmálar í hamrahöllum háum
Edda Sigurðardóttir
Gerði texta og lag.
Tekið úr Þjóðhátíðarblaði Þórs frá 1984
Ágústnótt í fjallasal.
Þegar sunna signir sker og sund
og eyland okkar grænum möttli skartar.
Við okkar eigum saman endurfund
í dal sem geymir minningarnar bjartar.
Ó ágústnótt nú skarlatfeldi skartar
ágústnótt í fögrum fjallasal.
Roða slær á hamraborgir svartar
ævintýranótt í Herjólfsdal.
Bergmálar í hamrahöllum háum
hátt við kveðum þjóðhátíðarbrag.
Bergþursans í sínu veldi sáum
sprota sínum sveifla um sólarlag.
Sumargolan leikur létt við vanga
vitjar þín og græðir hjartasár.
Á meðan aldan kyssir kletta og dranga
lofa ég að koma næsta ár.
Þegar sunna signir sker og sund
og eyland okkar grænum möttli skartar.
Við okkar eigum saman endurfund
í dal sem geymir minningarnar bjartar.
Hlustaðu.
Hlustaðu vinur er húmar að nótt
og hulinn er dalur í töfranna móðu.
Að aldan við klappirnar kvíslar svo hljótt
hugljúfum orðum um eyjuna góðu.
Er sólin sest þá roðnar allt í kring
og kristallar á eyjasundi titra.
Særinn lokar smaragðsgrænum hring
og demanturinn aftur nær að glitra.
Sterkur stendur vörð um sker og sund
Heimaklettur grænum feldi skartar.
Golan leikur létt um ljúfa lund
og leikur létt á streng í mínu hjarta.
Hlustaðu á það vinur er húmtjald fellur á
Og heimabyggð föstum svefni sefur.
Þá berst til okkar söngur hamraklettum frá
og sungið er um allt, sem eyjan gefur.
Er sólin sest þá roðnar allt í kring
og kristallar á eyjasundi titra.
Særinn lokar smaragðsgrænum hring
og demanturinn aftur nær að glitra.
Texti Edda SigurðardóttirLag Edda Sigurðardóttir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)