4.11.2010 | 23:40
Minningarbrot úr gamalli vasabók
Sigmar Guðmundsson, Jón Markússon,og Óskar Matthíasson hluti af áhöfn gamla Leó
Ég á nokkrar litlar vasabækur sem ég hef skrifað ýmislegt í gegnum árin og eru þær orðnar nokkuð gamlar sumar hverjar. Þarna hef ég skrifað sögur og vísur sem ég hef heyrt um menn sem ég þekki og stundum hef ég sjálfur gert vísur sem eru kannski ekki mikill skáldskapur en segja samt sína sögu um lífið á sjónum og hvað menn voru að hugsa og gera á þessum árum. Mér finnst gaman að glugga í þessu og rifja upp þessar sögur og vísur, kannski eru fleiri sem hafa gaman af að lesa þetta sérstaklega þeir sem þekkja til.
Ég tek hér eina sögu sem ég hef skrifað 1973 af lífinu á netabátnum Leó VE 294 fyrir árið 1960:
Það var eitt sinn á gamla Leó VE 294 að Massi ( Sigmar Guðmundsson á Byggðarenda) sem þá var kokkur á bátnum var að kokka niðri í lúkar. Eitthvað ólag var á eldavélinni sem var að sjálfsögðu olíukynt á þessum árum. Kolsvartur reykur kom því upp um reykrörið og lagði yfir dekkið og yfir þá sem voru að draga inn netin. Þeir urðu því sótsvartir og eftir því svekktir út í kokkinn sem þeim fannst bera ábyrgð á þessu ófremdarástandi og bölvuðu honum í sand og ösku. Þegar skipshöfnin kom niður í lúkar að borða stóð Massi þarna vígalegur við eldavélina með uppbrettar ermar, en hann var sérlega mikið loðinn á handleggjum.
Þegar Jón Markússon sem sennilega var vélstjóri þarna um borð sest við lúkarsborðið og sér Massa segir hann: Hungraðir saman situm, svartir og bölvandi. Þá segir einhver að þetta sé nú ágætur fyrripartur sem þurfi nauðsynlega að botna. Og Júlíus Sigurbjörnsson botnaði vísuna sem varð þá á þessa leið.
Hungraðir saman sitjum
svartir og bölvandi.
Þar stóð hann Sigmar Guðmundsson
berhandleggjaður upp fyrir haus.
Er Þetta ekki glæsilegur kveðskapur ???
Bloggar | Breytt 7.11.2010 kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2010 | 23:18
Vertu alltaf Hress í huga
Gott að hafa þetta í huga þessa dagana þegar svartsýnin nær tökum á okkur, ekki skemmir þessi fallega mynd Heiðars Egils af höfninni í Eyjum, rólegheitastemming yfir höfninni.
Vertu alltaf hress í huga,
hvað sem kann að mæta þér.
Lát ei sorg né böl þig buga,
baggi margra þungur er.
Vertu sanngjarn, vertu mildur,
vægðu þeim sem mót þér braut.
Bið þinn Guð um hreinna hjarta,
hjálp í lífsins vanda og þraut.
Treystu því að þér á herðar,
þyngri byrði ei varpað er.
En þú hefur afl að bera,
orka blundar næg í þér.
Þerraðu kinnar þess er grætur,
þvoðu kaun hins særða manns.
Sendu inn í sérhvert hjarta,
sólargeisla kærleikans.
Höfundur ókunnur
Bloggar | Breytt 6.11.2010 kl. 17:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)