30.10.2010 | 17:25
Lokin voru skemmtilegur tími
Á fyrstu og annari mynd er Leó VE 400 og Óskar Matthíasson skipstjóri við SIMRAD dýptarmælinn. Myndirnar lánaði mér Ingibergur Óskarsson en hann hefur verið duglegur að skanna gamlar myndir inn á tölvuna sína.
Lokin voru skemmtilegur tími í minningunni og haldin í kringum 11. til 15. maí í vertíðarlok, eða fljótlega eftir að búið var að taka upp netin. Það voru margir sveitamenn á þessum bátum á þessum tíma og þeir voru oft orðnir órólegir á vorin og vildu komast í sauðburðinn sem fyrst. Mér er minnisstætt hvað þessir menn voru sérstaklega duglegir og hraustir. Jón Guðmundsson frá Vorssabæ er einn duglegasti maður sem ég hef unnið með um ævina.
Á myndunum eru t.fv: Guðjón og kona hans Ásdís, Sigríður (kölluð Besta) Sigurgeir kokkur, Þórarinn Ingi , Kristjana , Guðný og Matthías.
Það eru því miður ekki margar myndir til af þeim skemmtilegu stundum þegar vetrarvertið lauk og sjómenn og konur þeirra komu saman til að fagna þeim áfanga að vetrarvertiðinni væri lokið. Óskar Matthíasson heitinn skipstjóri og útgerðarmaður á Leó og síðar Þórunni Sveinsdóttir VE og kona hans Þóra Sigurjónsdóttir héldu alltaf veglega upp á lokin með mannskapnum á þessum bátum. Þetta var mikil veisla þar sem vel var veitt bæði í mat og drykk og alltaf haldið heima hjá Óskari og Þóru að Illugagötu 2 meðan ég var á Leó VE 400. Í áhöfn Leó voru menn sem var margt til lista lagt eins og Elvar Andresson sem spilaði eins og engill á harmónikku. Hann fékk óspart að njóta sín á slúttum og einnig á vertíðinni ef landlega var.
Á þessum myndum eru t.f.v: Óskar, Þóra, Sævaldur, Haukur með víkingaskipið sem veitt var fyrir mestann afla á vetrarvertíð, Matthías, Sigurjón með stöngina sem veitt var fyrir mesta aflaveðmæti, Jón.
Þetta voru skemmtileg samkvæmi þar sem menn borðuðu góðan mat og drukku eins og hver vildi, það var mikið rætt um það sem gerðist á vertíðinni bæði skemmtilegt og öfugt, auðvitað var þetta ekki alltaf dans á rósum á blessuðum netabátunum. Til dæmis tíðkaðist ekki að hafa matartíma þegar trossa beið dráttar, nei þá fengu menn aðeins að skreppa niður í nokkrar mín. gleypa í sig og svo strax upp á dekk. Ég kenni þessum tíma um það að ég er allof fljótur að borða, er oft búinn þegar fólkið í kringum mig er að ljúka við að laga sér á diskinn. Ég ætla nú ekki að fara að lýsa lýfinu á netabátum á þessum árum það væri efni í aðra bloggfærslu.
Á þessum myndum eru t.f.v: Sést aðeins í andlitið á Jörgen, Jón í Vorssabá, Elvar frá Vatnsdal, Brandur, Óskar, Gísli, Sigurður og Sigurgeir, Þóra og Óskar með verðlaunagripina sem veittir eru á Sjómannadaginn.
Á þessum myndum eru t.f.v: Hjálmar á Enda, Sveinbjörn, Óskar og undirritaður.
Bloggar | Breytt 2.11.2010 kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)