30.9.2009 | 21:39
Minnig um mann. Friðfinnur Finnsson
Friðfinnur Finnsson frá Oddgeirshólum F. 22.12.1901. D. 6.9.1989
Friðfinnur eða Finnur í Eyjabúð eins og hann var oft kallaður fæddist 22. desember1901 á Stóru Borg undir Eyjafjöllum og ólst þar upp til 5 ára aldurs en flutti þá til Vestmannaeyja. Foreldrarar hans voru hjónin Ólöf Þórðardóttir, ættuð úr V. Skaftafellssýslu og Finnur Sigurfinnsson úr Landeyjum. Finnur faðir hans fórst í hinu mikla sjóslysi við Klettsnefið 16. maí 1901 þegar Eyjafjallaskipið Björgúlfur fórst og 27 menn fórust, en aðeins einn bjargaðist. Eftir þetta sjóslys bjó móðir hans nokkur ár upp á landi en fluttist síðan til Vestmannaeyja.
Ungur maður stundaði Friðfinnur ýmis störf , hann var sjómaður um nokkra ára skeið aðalega vélstjóri. Hann var einn af þeim sem byggði Þrídrangavitann. Hann var lundaveiðimaður góður. Friðfinnur hóf að kafa 1927 og starfaði sem kafari hjá Vestmannaeyjahöfn og víðar á landinu um 25 ára skeið, í því starfi stóð hann sig framúrskarandi vel, hann var kjörinn heiðursfélagi hjá Kafarafélagi Íslands 1958.
Í fróðlegri viðtalsgrein við Friðfinn í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1964 segir hann frá vinnu sinni sem kafari og lífinu neðansjávar, en sjaldgæft er að fá þannig lýsingar af lifnaðarháttum sjávardýra en þar segir Friðfinnur: ,,Þarna sá ég daglega smáufsa , stútung og alltaf meira og minna kola, bæði þykkvalúru, skarkola og sandkola. Einnig voru þar sprettfiskar, krabbar og stórir kuðungar. Krabbarnir fara hægt um botninn á sínum krabbagangi, og kuðungarnir líða þar afram. En kúðunga krabbinn er oft snar í snúningum. Stundum er hann fljótur að bregða sér úr kuðungnum og í hann aftur. Oft sá ég líka steinbít þarna á ferð og koma inn í höfnina. Þá kom allt í einu mikil hreyfing á kuðungana og krabbana. Þeir hræddust steinbítinn auðsjáanlega og flýttu sér sem mest þeir máttu. Sæi kuðungakrabbinn hættuna yfirvofandi, sá ég það oft mér til undrunar, að hann yfirgaf kuðunginn og skreið niður á milli steina, meðan steinbíturinn fór hjá. Síðan smeygði hann aftur halanum á sér inn í kuðunginn og rölti af stað, eins og ekkert væri. Mér er það mikil ráðgáta hvernig kuðungasniglarnir og krabbarnir skynjuðu nálægð steinbítsins, sem étur þá af græðgi , svo sem kunnugt er. Mér datt í hug hvort hér gæti verið um straumskynjanir að ræða í sjónum. Tvívegis sá ég seli af meðalstærð . þeir virtust skoða mig í krók og kring og hurfu síðan burt. Einu sinni eða tvisvar sá ég humar. Hann þótti mér einna einkennilegastur í tilburðum og háttarlagi. Fyndist honum eitthvað grunsamlegt, sem hætta gæti stafað af, sló hann halanum undir kviðinn og þaut aftur á bak, og hvarf hann þá með öllu. Kom svo aftur á ,,sundi" eða eins og hann fálmaði sig áfram með örmunum. Væri hann kyrr við botninn, hélt hann sig upp við stein og snéri halanum að steininum en hélt griptöngunum fyrir sér eins og hann væri viðbúinn árás. Þetta benti til þess að hann vildi ógjarnan koma sér í opna skjöldu eða aftan að sér og ef til vill bíta af sér halann". Í þessu viðtali lýsir Friðfinnur líka gróðrinum sem var utan í Hörgeyrinni og segir: "Þarna eru hæðstu þaraþönglarnir full mannhæð. Það er ógleymanleg sjón í björtu veðri að skyggnast um í þessu undra ríki. Allt er þarna þakið marglitum sjávargróðri sem glitra og sindra í öllum regnbogans litum. Ég held að þetta sé fegursta blómaskrúð sem ég hef augum litið ".
Finnur var einlægur trúmaður og vann mikið starf á sviði trúmála, og var í sóknarnefnd Landakirkju í 25 ár. Hann hafði frumkvæði að því að reist var hið sögufræga hlið á kirkjugarðinn sem frægt varð í gosinu 1973 fyrir þær áletranir sem á því stóð.
Finnur rak verslunina Eyjabúð í um 14 ár þar sem seldar voru allar útgerðarvörur, byggingavörur, skór, stigvél, fatnaður, öl og sælgæti, skrúfur og boltar, flugeldar, blys og púðurkellingar. Vöruúrvalið í Eyjabúð var ótrúlega mikið, þetta er það sem mér dettur í hug í fljótu bragði. Friðfinnur er mér eftirminnilegur maður sérstaklega er hann rak Eyjabúð og vann þar innanbúðar sjálfur, þar var gott og gaman að versla og alveg sérstök stemming og sérstök lykt var inni í búðinni. Hann var einnig oft með skemmtileg tilsvör sem urðu fleyg um bæinn eins og: " þeir segja það í Ellingsen" eða ,, þeir segja það fyrir sunnan, ég veit ekki meir". Alla mína tíð var ég í reiknig í Eyjabúð eins og margir sjómenn í Eyjum.
Eftir að Finnur hætti með Eyjabúðina tók Finnbogi sonur hans við og Friðfinnur sonur Finnboga rak svo Eyjabúð þar til henni var lokað.
Finnur endaði starfsævi sína sem framkvæmdastjóri hjá Hraðfrystistöð Vestmannaeyja en því starfi gegndi hann í 7 ár þá orðin sjötugur.
Hann flutti til Reykjavíkur árið 1973 en var nýfluttur aftur til Vestmannaeyja er hann lést 6. september 1989. Hann var kvæntur Ástu Sigurðardóttir , frá Nýja- Kastala á Stokkseyri en þau kvæntust 16. október 1926 þau eignuðust tvo syni Jóhann og Finnboga.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson
Bloggar | Breytt 12.7.2020 kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)