17.9.2009 | 22:37
Líkan að fyrirhugaðri stórskipahöfn við Eiðið
Séð inn að Eiði þar sem ný Stórskipahöfn er hugsuð og á seinni myndinni sést það svæði sem kæmi að hluta inn í höfnina.
Eitt af verkefnum Siglingastofnunar íslands er að gera hafnarlíkön af fyrirhuguðum höfnum eða af breytingum hafna. Nú er nýlokið við smíði á einu slíku, en það er af fyrirhugaðri stórskipahöfn norðan við Eiðið á Heimaey. Líkanið er smíðað í mælikvarðanum 1/ 100 og nær langleiðina að Faxaskeri að austan og nokkuð vestur fyrir Stóra Örn. Ef af verður er varnargarður sem þarna verður byggður engin smásmíði hann mun ná út á meira en 20 metra dýpi. Til gaman má geta þess að til að komast upp á yfirborð sjávar er garðurinn eins og 8 hæða hús en þá á eftir að byggja ofan á hann það sem stendur upp úr sjó, en hæðin á garðinum ræðst af þeirri öldu sem getur orðið mest á svæðinu. Öll líkön sem gerð hafa verið í Siglingastofnun hafa reynst mjög vel og hafa sparað mikla peninga þegar upp er staðið. Það verður skemmtilegt að fylgjast með þessum rannsóknum.
Myndin hér að neðan sýnir ströndina þar sem Stórskipahöfnin er verður og síðan er hér mynd af Stóra og Litla Örn
Þessar myndir tók ég þegar verið var að ljúka við líkanið, á þeim sést ströndin þar sem áætlað er að höfnin komi. Mismunandi litir á botninum er dýpið en mest er dýpið þar sem það er dekkst. Til að líkanið virki eðlilega þarf botninn að vera nákvæm eftirlíking af raunverulegum botni, þess vegna þarf smíði svona líkans að vera mjög vönduð og nákvæm. Línurnar sem fylgja hverjum lit eru dýptarlínur allt nákvæmlega mælt upp á millimetra.
Hér eru Eiðisdrangarnir reyndar á þurru og Stóri Örn séð vestan frá.
kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)