22.7.2009 | 23:11
Minning um mann.
Þórður Matthías Jóhannesson F. 10.feb. 1907 - D. 13. okt. 1994.
Þórður M. Jóhannesson var frá Neðri- Lág í Eyrarsveit. Við sjómenn þekktum hann sem trúboða sem setti á hverju ári í skipin okkar blaðið ,,Vinur Sjómannsins" og mörg önnur kristileg rit, einnig gaf hann og dreifði Biblíum í skip.
Ég kynntist Þórði þegar ég var stýrimaður á Herjólfi, en hann ferðaðist með skipinu þegar hann kom í sínar trúboðsferðir til Vestmannaeyja. Hann skildi þá eftir kristileg rit um borð í skipinu bæði fyrir farþega og áhöfn. Hann stoppaði oftast nokkra daga í Eyjum og notaði tímann til að dreifa þessu kristilega efni um borð í alla báta sem voru í Vestmannaeyjahöfn. Hann heimsótti mig oft á heimili mitt þegar hann var í Vestmannaeyjum og var gaman að spjalla við hann um áhugamál hans sem voru aðalega trúmál og líknarmál. Hann vann mikið að líknarmálum ekki einungis hér á landi heldur styrkti hann bæði börn og fjölskyldur á Indlandi. Ég heimsótti Þórð nokkrum sinnum á Fálkagötu 10 þar sem Kristilegt sjómannastarf var til húsa. Þá skiptumst við á blöðum ég fékk Vin sjómannsins en hann Sjómannadagsblöð Vestmannaeyja.
Síðast hitti ég Þórð Matthías fyrir framan hús Slippfélagsins í Reykjavík í júní 1994. Hann var þá á leið niður á bryggju, leiddi hjólið sitt og hafði gömlu snjáðu handtöskuna sína, fulla af kristilegu efni, á stýrinu. Hann sagði um leið og við hittumst að nú hefði Guð leitt okkur saman. Kannski var það rétt því þetta var í síðasta sinn sem ég sá þennan heiðursmann. Hann andaðist á Landspítalanum 13. október 1994.
Blessuð sé minning þessa góða manns sem helgaði líf sitt kristilegu sjómannatrúboði og þjónustu við þá sem minna mega sín.
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.7.2009 | 13:38
Björgunarbáturinn við Bæjarbryggjuna.
![IMG_1086 IMG_1086](/tn/400/users/0a/nafar/img/c_documents_and_settings_sigmar_or_my_documents_my_pictures_eyjafer_08_img_1086_878429.jpg)
Við enda Bæjarbryggju í Vestmannaeyjahöfn er björgunarbátur í davíðum, báturinn eða svipaður bátur var þarna í gamla daga og var þá hluti af þeim björgunarbúnaði sem þá þótti nauðsynlegur við höfnina, báturinn var með gafl að aftan og var búinn fjórum árum og fljótlegt að sjósetja hann. Ég sá þegar forveri þessa báts var notaður við björgun á manni úr Vestmannaeyjahöfn í kringum 1960. Ekki veit ég hvenær honum var fyrst fyrir komið þarna við Bæjarbrygguna.
Nú virðist sem þessum bát sé eingöngu komið þarna fyrir til að fegra umhverfi Bæjarbryggju sem hann svo sannarlega gerir.
En til hvers er ég að skrifa um þennann björgunarbát ?, jú það er staðreynd að Vestmannaeyingar hafa verið í forusu hvað varðar öryggismál sjómanna, ekki bara hvað varðar öryggisbúnað um borð í fiskiskipum heldur einnig hvað varðar öryggi hafna. Þarna er staðsettur björgunarbátur sem gæti þurft að nota, en þó báturinn sé eingöngu ætlaður sem sýnigar eða skrautgripur er alveg með ólíkindum að menn skuli hafa borað tvö göt á byrðing hans til að troða böndum í gegnnum byrðinginn, gera hnút á böndin fyrir innann og nota þau til að halda bátnum að davíðunum. Ég segi nú eins og maðurinn forðum: Svona gera menn ekki (við báta). Allra síst í bæjarfélagi eins og Vestmannaeyjum, þetta hlítur að hafa verið gert í einhverju hugsunarleysi. Ef ég man rétt þá voru bönd eða vírar klæddir slöngu settir utan um bátinn og þannig var honum haldið að davíðunum. Vonandi verður þetta lagfært og sponnsað í þessi göt á byrðing þessa fallega björgunarbáts.
kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt 31.7.2009 kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)