18.4.2009 | 14:28
Gleymum ekki þeim sem unnu að fækkun sjóslysa á undanförnum áratugum
Það hefur orðið mikil breyting á viðhorfi sjómanna og útgerðarmanna til öryggismála. Má það meðal annars þakka Slysavarnarskóla sjómanna, útgáfustarfsemi almennt á síðustu árum, áætlun um öryggi sjófarenda og ekki síst fjölmiðlum sem hafa gegnum árin fjallað ítarlega um þennan málaflokk.
Það er eðlilegt að menn sem áhuga hafa á slysavarnarmálum velti fyrir sér hver sé ástæðan fyrir þessari fækkun dauðaslysa. Margir hafa lagt hönd á plóginn til að fækka þessum sjóslysum á síðustu 20 til 30 árum. Það er rétt að hafa í huga þegar rætt er um fækkun slysa á sjó þá er það ekki einn aðili eða einn hópur manna sem á heiður af þessum ánæjulega árangri.
Það er sanngjarnt að minnast þeirra sem markað hafa leiðina og má þar nefna Slysavarnarfélagið með sínum duglegu kvennadeildum og björgunarsveitum, hönnuði að nýjum björgunarbúnaði og ekki hvað síst allan þann fjölda manna sem barist hafa fyrir bættu öryggi sjómanna. Þetta fólk hefur lagt á sig mikið starf á undanförnum áratugum og margir í sjálfboðavinnu. Margt af þessu fólki er fallið frá, en engu að síður skulum við minnast þess sem það gerði til að bæta öryggi okkar sjómanna.
Áhugamenn um slysavarnir eru stanslaust að hugsa um öryggismál sjómanna og reyna að finna lausnir til að fækka slysum. Það er ótalmargt ólokið í þeim efnum, og þó dauðaslysum hafi fækkað umtalsvert þá er margt hægt að gera til að fækka öðrum slysum á sjó sem enn eru alltof mörg . Hafa ber í huga að í langflestum tilfellum hafa sjómennirnir sjálfir og áhugamenn um öryggi sjómanna fundið upp þau öryggistæki sem fækkuðu mest alvarlegu sjóslysunum á undanförnum árum og þar á meðal dauðaslysum.
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)