Bifreiðarstöð Vestmannaeyja stofnuð 20.11.29

Áttatíu ár frá stofnun Bifreiðastöðvar Vestmannaeyja

Helgi Benónýsson

 

Bifreiðastöð Vestmannaeyja var formlega stofnuð 20. nóvember 1929, stofnendur voru eftirtaldir bifreiðastjórar;

Helgi Benónýsson, Vesturhúsum, Gunnlaugur Gunnlagsson, Hólagötu 11,  Lárus Árnason, Búastöðum, Páll Erlendsson Brekastíg 29, Baldur Sigurðsson Heiði, Ólafur Guðjónsson Stakkholti, Bernódus Stakkagerði, Jón Þorleifsson Sólhlíð 6.

Aðalhvatamaður að stofnun BSV var Helgi Benónýsson á Vesturhúsum.

 Myndin hér til hliðar er af Helga Benónýssyni

 Fyrsti stöðvarstjóri var Bjarni Jónsson Svarbarði.

Bilstjórar á BSV

Bifreiðastjórar á BSV 

Myndin er tekin 1967 t.f.v; aftari röð: Hilmar Jónsson, Magnús Guðjónsson, Guðmundur Högnason, Einar Jónsson, Magnús Ágústsson, Ari Pálsson, Adólf Sigurjónsson, Jens Ólafsson, Gustaf Sigurjónsson, Guðsteinn Þorbjörnsson, Páll Gíslason, Jón Þorleigsson, Haukur Högnason, Ármann Guðmundsson. Fremri röð t.f.v; Daníel Guðmundsson, Sigurður Jónsson, Jóhann Gíslason, Oddgeir Kristjánsson, Andrés Guðmundsson, Engilbert Þorbjörnsson, Sigurjón Sigurðsson.

 

 Gamlir BSV bílar

 Á fyrstu árum BSV voru verkefni mjög fjölþætt . Allflestir fiskverkendur söltuðu sinn fisk og sólþurkuðu á svonefndum stakstæðum sem þöktu mikið landsvæði í Vestmannaeyjum hér áður fyrr. Þá var einnig fiskhausum og hryggjum ekið út um tún og hraun og sólþurkað. Oft var hér um að ræða útflutning á stórum förmum. Þá var mikið um að bifreiðastjórar ækju slógi og húsdýraáburði á tún og í kálgarða. Akstur fyrir fiskibáta hefur ávalt verið mikill bæði með fisk og veiðarfæri. Það skapaði einnig þó nokkra vinnu hér áður fyr að keyra vatni í brunna eyjamanna, það lagðist af þegar vatnsleiðslan var lögð til Eyja. Einn þáttur í vinnu vörubílstjóra í Eyjum var akstur svonefndra bekkjabíla á Þjóðhátíð, var þá settir bekkir upp á vörubílana og þeir síðan notaðir til að keyra fóli úr og í Herjólfsdal. Ég var tvö ár rukkari aftan á vörubíl hjá Ástvaldi í Sigtúni og græddi vel á þeim Þjóðhátíðum, því Ástvaldur var mjög sangjarn og borgaði mér vel fyrir eða viss % af innkomu. En ég man að þetta var mikil törn meðan á þessu stóð, en gaf góðan pening ef bílstjórar voru duglegir að keyra.

Ætli stæðsta verkefni bifreiðastjóra í Vestmannaeyjum hafi ekki verið vikurhreinsunin eftir Heimaeyjargosið 1973 en gífurleg vinna var við að hreinsa bæinn af vikri sem þakkti svo til alla Heimaey.

Ísleikur Jónsson

Þeir sem lengst störfuðu sem bifreiðarstjórar á BSV voru í því starfi í 50 ár, og flestir voru bilstjórar á BSV 35 menn.

 BSV 50 ára

Það gefur auga leið að við sem unnum á bátunum kynntumst þessum mönnum nokkuð vel og í minningunni voru þetta upp til hópa skemmtilegir og góðir menn. Ísleikur Jónsson var einn af þeim sem var svolítið sérstakur maður, en hann talaði alltaf um sig og bílinn sem eitt. Hann sagði til dæmis: Ég er búinn að vera með vatnstankinn á mér í tvo daga og keyra út miklu af vatni. Ég hef verið undir mér í allan dag að gera við. ‘Eg ætla að bakka mér aðeins lengra og svo framvegis. Þetta var skemmtilegur kall og einstaklega góðu náungi. Mér er líka minnistætt að nokkrir af þessum mönnum leyfðu okkur strákunum að sitja í þegar þeir voru að landa úr bátunum. Þetta tafði þá aðeins því við urðum að fara út úr bilnum þegar verið var að vigta svo við skekktum ekki vigtina á fiskinum.

Hluta af þessari færslu tók ég úr gömlu Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja, en ég fékk á sínum tíma Magnús Guðjónsson bilstjóra til að skrifa um BSV sem hann og gerði vel og skilmerkilega. Það er því gott að þessi saga um Bifreiðarstöð Vestmannaeyja er til í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1985 ásamt mörgum myndum frá sögu stöðvarinnar.   Þökk sé Magnúsi Guðjónsyni.

Að sögn Magnúsar Guðjónssonar hætti BSV eða Bifreiðastöð Vestmannaeyja starfsemi 26. ágúst 2003.  

kær kveðja SÞS


Bloggfærslur 21. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband