2.10.2009 | 17:54
Líkan af höfn fyrir utan Eiðið á Heimaey
Líkan af höfn fyrir utan Eiðið. Nokkrar upplýsingar um líkön sem byggð eru í Siglingastofnun
Myndin hér til hliðar er af Heimaey séð úr lofti, þar sést vél Eiðið utan við höfnina þar sem fyrirhugað er að gera höfn.
Í einu af húsum Siglingastofnunar Íslands að Vesturvör 2 í Kópavogi hefur verið gert líkan af fyrirhugaðri höfn norðan við Eiðið á Heimaey. Líkanið er nokkuð stórt og er byggt í mælikvarðanum 1 : 100 á gólffleti sem er 800 fermetrar. Það var byggt upp í sumar og er nú tilbúið eins og áður hefur komið fram hér á blogginu mínu. Á myndunum hér að neðan má sjá eina af tillögum um sjóvarnargarð ásamt bryggju fyrir stór skip.
Markmiðið með þessum líkantilraununum er að athuga hvort hagkvæmt er að gera höfn fyrir utan Eiðið og þá hvernig best væri að koma fyrir varnargörðum bryggjum og öðrum mannvirkjum sem fylgja slíkri höfn. Þetta er gert með því að mæla öldu og sog í fyrirhugaðri höfn og einnig eru mældar skipahreifingar inni í höfninni með mismunandi varnargörðum og öldum.
Lýsing á líkani
Líkanið samanstendur af tölvu sem tengt er tveimur ölduvélum sem framkvæma eða gera öldur í líkaninu eftir því hvernig talvan er stillt, flestar af öldunum eru nákvæm eftirlíking af öldum frá nokkrum völdum stöðum í sjálfri náttúrunni t.d. eru til nákvæmar öldurmælingar frá Grindavík, Keilisnesi, Surtsey og fleiri stöðum , en einnig eru notaðar svokallaðar tölvuöldur við þessar prófanir.
Við þessar rannsóknir eru keyrð m.a. svonefnd viðmiðunarveður sem eru skilgreind á eftirfarandi hátt: 98% veður er veður sem hægt er að búast við samfellt í eina viku á ári, og eru skilgreind sem löndunarmörk þ.e.a.s. ef veður fer yfir þau mörk er ekki talið hægt með góðu móti að landa úr skipum.
Ársveður er veður sem kemur að jafnaði einu sinni á ári og er skilgreint sem viðlegumörk, þá þarf vakt eða sérstaka gæslu á skipinu þegar það er bundið við bryggju.
100 ára veður er veður sem kemur einu sinni á hundrað ára fresti. Það veður er notað til að búa til svonefnda hönnunaröldu sem er alda sem mannvirkin þurfa að þola við mikið álag.
Tölvan er tengd prentara, mæliboxi og ýmsum mælum svo sem öldumælum ( þeir sjást á myndinni og eru gulir á litin ) sem mæla nákvæmlega ölduhæð í líkaninu. Hreyfimælum sem mæla hreyfingar skipslíkans við bryggju svo sem veltu, lyftu, dýfu, svans, slátt og drátt. Kraftmælum sem mæla kraftinn sem tekur í landfestar við bryggju svo sem fram og afturband og fram og aftur spring.
Tölvan geymir allar þessar upplýsingar og ef menn vilja, er hægt að prenta út niðurstöður þeirra mælinga sem verið er að gera hverju sinni.
Þá er í líkaninu vatnshæðarmælistika sem mælir yfirborð vatnsins upp á millimetra en það er mikilvægt að vatnshæð sé nákvæm og alltaf eins milli mælinga, þegar verið er að gera viðmiðunarmælingar.
Allar öldu og skipahreyfingar í líkaninu eru 10 sinnum hraðari en í sjálfri náttúrunni.
Mælingar eru gerðar bæði sem svarar flóði og fjöru og stundum flóðhæðir þar á milli, þó er oftar gerðar mælingar miðað við stórstraums flóð, því þá er mest álag á hafnarmannvirkinn og skipin.![Eiðið og bryggja 2 Eiðið og bryggja 2](/tn/300/users/0a/nafar/img/c_documents_and_settings_sigmar_or_my_documents_ei_i_og_bryggja_2.jpg)
Mörg skipslíkön eru til og notuð í líkaninu og eru þau flest smíðuð í sömu hlutföllum og líkanið sjálft. Þau eru bæði fjarstýrð með vél og vélarlaus. Þau vélarlausu eru notuð til að prófa hreyfingar skipa við bryggjukanta og þau sem eru með vélum eru notuð til að prófa inn og útsiglingu úr höfnunum, eða hvort það er gott eða slæmt að leggjast að nýjum viðleguköntum, slíkar prófanir eru mjög marktækar eins og reyndar allt sem viðvíkur þessum líkantilraunum.
Líkantilraunir þessar sparað hundruð miljóna.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)