9.1.2009 | 23:28
Trjámaðkur og tréæta í tréskipum
Trjámaðkur og tréæta í tréskipum.
Varðar öryggismál sjómanna.
Nokkuð hefur verið um það á síðustu árum að tréskip sökkvi við bryggju og reyndar einnig úti á rúmsjó. Þegar það gerist í höfnum er auðvelt að rannsaka og finna út ástæður þess að skipið sökk, en ef það sekkur úti á rúmsjó er erfiðara um vik. Dæmi eru um að tréskip hafa sokkið eða verið við það að sökkva vegna þess að þau hafa verið maðk- og/eða tréætuétin. Man ég eftir nokkrum tilfellum frá því ég byrjaði að vinna við skipaskoðun.
En þurfum við að hafa einhverjar áhyggjur af þessum trjámaðki og tréætum og er eitthvað eftir af tréskipum við Íslandsstrendur ?. Á íslenskri skipaskrá eru í dag 218 skip smíðuð úr eik eða furu. Þessi skip eru af ýmsum stærðum og eru þannig skráð eftir notkunartegund í skipaskrá. Fiskiskip 140, skemmtibátar 54, farþegabátar 10, farþega og fiskiskip 3, lóðsbátar 2, og eitt víkingaskip. Þessi upptalning sýnir að enn er töluverður fjöldi tréskipa í notkun við strendur landsins.
Trjámaðkur er í raun ekki maðkur, heldur skeldýr, eða samloka (Mollusca) með litla skel á framendanum sem hefur ummyndast og nýtist sem bor og borar hann sig inní tré. Sama er að segja um tréætuna. Hún er heldur ekki krabbi, en af ættkvíslinni jafnfætlur (Isopoda). Munur á skemmdum eftir maðkinn og tréætuna, (staurakrabba) er sá, að maðkurinn leynist inn í viðnum og holar hann að innan, en jafnfætlan og skemmdirnar eftir hana eru alltaf sjáanlegar á yfirborði.
Á síðustu árum hafa trjámaðkur og tréæta fundist í trébátum jafnvel á stöðum þar sem þessi kvikindi hafa ekki sést í áratugi. Skýringin gæti verið sú að hér áður fyrr var öllu skolpi dælt í hafnirnar eins og t.d. sápu, klór, vítissóta og fl. Þessi efni hafa sennilega drepið kvikindin eða haldið þeim í skefjum, allavega var lítið um að þau næðu að komast í tréskipin. Þegar aftur á móti kröfur voru gerðar um að koma skolpi út úr höfnunum og skolphreinsistöðvar komu til sögunar, og hafnir urðu aftur hreinar fór að bera meira á trjámaðki og tréætu í það minsta í sumum höfnum. Það er því nauðsynlegt eins og reyndar alltaf hefur verið að hugsað sé um að taka upp og hreinsa tréskipin og mála árlega, annars mega menn eiga von á að skip þeirra verði þessum kvikindum að bráð. Trjámaðkurinn og tréætan geta gjöreyðilagt botn á tréskipum á stuttum tíma ef ekkert er að gert. Ekki nægir að tjarga eða bera blakkfernis á botninn eingöngu, þó það hjálpi mikið, heldur verður að bera sérstakan botnfarva yfir tjöruna eða grunninn.
Maðkurinn er örlítill þegar hann kemur inn í viðinn og gatið út úr viðnum verður aldrei stærra en það er í byrjun þegar maðkurinn kemur í hann. Hins vegar heldur maðkurinn áfram að stækka inn í viðnum meðan hann lifir, sem er á bilinu 15 til 18 mánuðir. Hann fer aldrei út úr viðnum né inn í hólf eftir annan maðk. Trjámaðkurinn er þar af leiðandi mun alvarlegra vandamál en tréætan, þar sem erfitt getur verið að sjá götin eftir hann í viðnum, þó svo viðurinn sé kannski orðinn sem næst holur að innan.
Trjámaðkurinn lifir ekki í fersku vatni og hann verður að hafa opna leið út í sjóinn til að þrífast. Þetta litla auga sem hann gerir þegar hann kemur í viðinn opnar leið fyrir sjó inn í viðinn. Ef málað er yfir gatið eða því lokað á annan hátt, drepst trjámaðkurinn. Holrúmið sem hann hefur gert verður þó að sjálfsögðu áfram til staðar, en það getur þó verið betra að láta það vera óhreyft, en að sponsa viðinn eða höggva skemmdina úr, ef holrúmið er ekki því stærra. Stærð á holrúmi eftir trjámaðk má kanna með því að reka vír eða annað sambærilegt inn í gatið sem trjámaðkurinn skilur eftir sig.
Gamall skipaeftirlitsmaður sagði mér að þegar maðkétnir bátar voru teknir á land á sumrin og þeir stóðu í heitu veðri, þá kom hvítur vökvi út úr götunum eftir trjámaðkinn. Þetta gerist þegar trjámaðkurinn drepst inni í viðnum. þetta var kallað að báturinn gréti mjólk.
Tréætan (staurakrabbi) er vel þekkt í íslenskum trébryggjum. Hún lifir á mörkum flóðs og fjöru. Tréætan sem finnst oftast upp undir skörum í bátsskrokkum, er jafnfætla (Isopoda), sem borar sig inn í tréð. Hún verður um 6 mm löng, og 1-2 mm í þvermál og í flokkum svo þéttum að veggirnir á milli þeirra eru aðeins brot úr mm að þykkt og skolast því létt í burtu, en önnur kynslóð af þessari jafnfætlu kemur í staðinn, ef ekkert er að gert. Til að forðast skemmdir af völdum trjámaðks og tréætu er nauðsynlegt að láta útsúð tréskipa aldrei vera bera, heldur bera á hann viðurkenndan botnfarva.
Myndir koma síðar
kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt 12.1.2009 kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.1.2009 | 18:29
Í Álsey 1993
Myndina tók vinur minn Sigurgeir Jónasson ljósmyndari í júli 1993 og sendi okkur hana með jólakori. Tfv. Sigurður Óskarsson, Jón Bjarni Hjartarson, Sigurbjörg Óskarsdóttir, Harpa Sigmarsdóttir, Sigmar Þór , Kolbrún Óskarsdóttir, og Soffía Sigurðardóttir. Farið var í þessa ferð á Þyt VE og veiddir nokkrir fiskar í soðið handa Álseyingum og er Siggi með fiskinn í plastpokanum sem hann heldur á.
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)