17.1.2009 | 17:08
Minningar um fyrstu vélstjóravaktina mína
Fyrsta vakt mín sem vélstjóri.
Það var um árið að ég réð mig sem vélstjóra á Gullborgu ER 38. Skipstjóri var Benóný Friðriksson oftast nefndur Binni Í Gröf. Fyrsti vélstjóri var Einar Sigurðsson, sem var með Binna í fjölda ára, hann var hörkuduglegur náungi og eldklár vélstjóri . Báturinn var búinn til síldveiða með nót.
Ég hafði þá nýlega lokið vélstjóranámskeiði Fiskifélags Íslands, sem haldið var í Eyjum 1963 að Breiðabliki og verkleg kennsla á vélar og rafmótora var kennd í gömlu rafstöðinni við Kirkjuveg. Þetta námskeið gaf mér vélstjóraréttindi allt að 400 hestöflum sem dugði til að vera vélstjóri á flestum bátum í Eyjum á þessum tíma. Á þessum tíma fannst manni maður vera búinn að mennta sig til lífstíðar. Það væri synd að segja að ég hafi ekki haft áhuga á starfinu og öllu því sem við kemur vélum, fannst ég reyndar búinn að læra svo mikið um vélar að ég væri fær í flestan sjó.
Um þetta leyti var Gullborgin orðin hrörleg og illa útlítandi (seinna var hún endurbyggð) . Vægast sagt voru mannaíbúðir vart mönnum bjóðandi, svo ógeðsleg var slagvatnslyktin þegar báturinn fór að velta eftir inniveru að maður komst ekki hjá því að vera sjóveikur fyrstu klukkutímana um borð. Sem dæmi má nefna að svo hriplegt var þilfarið að ef rigndi eða smá pus gekk yfir bátinn þegar keyrt var á móti í slæmu veðri, þá lak sjór eða vatn niður í mannaíbúðir. Svo ekki læki í efri kojur, var segl neglt fyrir ofan þær og þannig var lekanum veitt út í síðu svo sængurfötin blotnuðu ekki.
Þá var ekki óalgengt að bekkirnir við matarborðið klipu mann óþyrmilega í afturendann, sérstaklega þegar voru brælur og mikill veltingur. Skýringin á þessu var að síldarnótin var í nótarkassa aftur á bátadekki fyrir ofan kokkhúsið og messan. Í veltingi liðaðist þetta sitt á hvað með braki og brestum. Ég hef oft hugsað um þetta eftir að ég varð sjálfur skipaskoðunarmaður, í dag fengi bátur í þessu ástandi ekki að fara á sjó.
Minnistætt er mér að á kabyssurörinu hjá Magga Kokk ( Magnús Sigurðsson) var samsetning á rörinu sem gekk upp og niður í rörið um nokkra sentimetra á veltunni, það var magnað að fylgjast með þessu. Oft var hlegið dátt af þessu en menn gátu fylgst með þessu frá matarborðinu. Ég sagði eitt sinn við Binna að mér finndist braka ískyggilega mikið í bátnum, en hann svaraði að bragði að þetta væru traustabrestir, sem ekki heyrðust nema í góðum bátum. Svei mér þá ég held í alvöru að hann hafi meint þetta.
Minnistæðast frá þessari vertíð er mín fyrsta vakt sem vélstjóri og við fengu fullfermi af síld.
Binni kastaði austarlega í Bugtinni og fengum við strax gott kast. Þegar búið var að þurrka að var strax byrjað að háfa síldina upp í bátinn, og er nokkuð var komið í lestina fór Einar vélstjóri niður í vél. Stuttu síðar er var skellettinu á vélarrúminu skrúfað upp og Einar heyrist öskra: ,,Binni slökktu á kastaranum ég þarf að lensa" . Um borð í Gullborg voru rafmagnslensur, en rafmagnsframleiðsla var ekki nægilega mikil til að nota bæði lensur og ljóskastara samtímis.
Það gekk vel að fá í ,,Gonnuna" ein og Einar kallaði bátinn oftast, og við fengum 1100 tunnur í tveimur köstum. Þegar lagt var af stað til lands var byrjað að bræla, og báturinn sigin með þennan afla.
Einar hafði á útleiðinni kennt mér á vélina, lensurnar og fleira, hvernig ég ætti að fylgjast með mælum og fleiru sem góðum vélstjóra sæmir. Þá sýndi hann mér rafgeymakompuna sem er nú ekki staður sem daglega er litið eftir.
Þegar ég kem aftur í borðsal eftir að búið er að gera sjóklárt á dekkinu, er Einar vélstjóri að koma upp úr vélarhúsi. Hann segir að nú eigi ég að taka mína fyrstu vakt, en ég þurfi nú ekki að fara strax niður því hann sé nýbúinn að smyrja og lensa, það þurfi því ekki að fara niður fyr en eftir hálftíma. Á þessum árum var það regla á þessum bátum að vélstjóri fór í vélarrúmið til eftirlits á hálf til eins tíma fresti.
Ég settist því bara niður í borðsalnum og fékk mér kaffi með hinum skipverjunum en það var alltaf gott með kaffinu hjá Magga kokk, hann var góður kokkur og skemmtilegur karakter.
Einar fer nokkru síðar í koju, en minnir mig á að hika ekki við að vekja sig ef eitthvað athugavert komi uppá. Einar hafði koju frammí lúkar á Gullborg.
Nokkru síðar fer ég niður í vélarrúm að huga að vélinni og athuga hvort einhver sjór sé kominn í bátinn. Ég byrjaði á að fara afturí rafgeymakompu, og athuga geymana eins og góðum vélstjóra sæmir. Rafgeymakompan var út við síðu frekar ofarlega. Þegar ég opna þar inn bregður mér heldur en ekki í brún, þegar ég sé að sjór lekur þar inn um síðuna - þó nokkur leki að mér fannst.
Ég hljóp upp úr vélarrúmi og í stýrishúsið til Binna skipstjóra og sagði honum all óðamála, að allmikill leki væri inn í bátinn í rafgeymakompunni. Ekki gat ég séð á Binna að honum brygði mikið við þessi tíðindi, en sagði við mig sallarólegur eitthvað á þá leið , að ég skyldi láta Einar vélstjóra kíkja á þetta.
Ég hljóp því næst fram í lúkar þar sem Einar lá steinsofandi í koju sinni. Vakti ég hann og sagði honum að mikill leki væri kominn að bátnum. Það læki sjór inn í bátinn afturí geymakompu og hann yrði að koma og kíkja á þetta. Einar hentist fram úr kojunni og í stigvélinn sín en spyr um leið hvort þetta sé mikill leki. ,, Já töluverður" segi ég. Alla vega verður þú að kíkja á þetta. Hljóp ég síðan aftur í vélarrúm og Einar fast á hæla mér. Þegar við komum niður að geymakompu, bendi ég honum á lekann, sem mér þótti heldur hafa aukist. ,,þarna er hann" segi ég töluvert æstur. Einar litur á lekann og síðan á mig og segir sallarólegur: ,, Er þetta nú allur lekinn? ". ,,Já",segi ég, ,,finnst þér þetta ekki töluvert mikið? - það lak hér ekki dropa í morgun".
Einar leit á mig hálfgerðum vorkunnaraugum og segir, að mér fannst hálffúll: ,, Að vísu lak hér ekkert í morgun það veit ég, en það er nú einu sinni þannig, að þegar komið er í Gonnuna sígur hún í sjó og það fer að leka á ýmsum stöðum og það oft meira en þetta. Við köllum þetta vart meira en rottupiss". Að svo mæltu fór Einar upp en sagði um leið við mig að ég mætti ekki vekja sig nema eitthvað umtalsvert kæmi uppá. Ég sat eftir hálfskömmustulegur, en fór svo að smyrja vélina og lensa út ,, rottupissinu".
Vaktin gekk vel og tíðindalaust eftir þetta og siglingin heim til Vestmannaeyja. Þar með lauk minni fyrstu vakt sem vélstjóra. En í vélstórastarfinu var ég í 11 ár á þremur bátum í Eyjum.
Myndir: nr.1 Gullborg RE 38 takið eftir síldarnótinni aftur á bátapalli, nr.2. Binni með hnísu sem hann skaut, nr. 3. Einar Sigurðsson vélstjóri. Nr. 4. Magnús Sigurðsson kokkur. nr. 4. Óskar og Binni.
Kær kveðja
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.1.2009 | 18:13
Rörsteypan í Vestmannaeyjum
Mynd 1. Rörsteypan húsakostur og hluti af framleiðslu. Mynd 2: Vélar í rörsteypu bæjarinns og starfsmenn Rörsteypu Vm.
Árið 1957 var Rörsteypan keypt af fyrirtækinu Pípugerð Vestmannaeyja hf. Voru hellugerðarvélar keyptar 1959 og aðstaða bætt til framleiðslu á holræsirörum og gangstéttarhellum. Með helluvélunum sem keyptar voru á þessum tíma var hægt með fjórum mönnum að framleiða 1000 til 1200 hellur á viku, eða 50 til 60 þúsund hellur á ári ef unnið hefði verið að framleiðslunni eingönngu. Þetta þættu kannski ekki mikið með þeirri tækni sem notuð er í dag, en voru góð afköst á þessum tíma.
Vignir Eggertsson
Myndir og upplýsingar eru fengnar úr riti sem heitir: Framkvæmdir og fjármál Vestmannaeyjakaupstaðar 1954 til 1961. Gefið út af Sjálfstæðisflokknum í Eyjum.
kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt 24.1.2009 kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.1.2009 | 23:27
Steingrímur Sigurðsson skipstjóri heiðraður 1981
Á myndinni er Pétur Sigurðsson þáverandi formaður Sjómannadagsráðs að afhenda Steingrími Sigurðssyni skipstjóra, Vestmannaeyjum afreksbjörgunarverðlaun á Sjómannnadaginn 1981.
Þann 8 janúar 1981 bjargaði Steingrímur Sigurðsson skipstjóri á Bjarnarey VE 501, 17 ára skipverja frá drukknun, er hann tók fyrir borð með netatrossu þegar skipið var að veiðum undan Hjörleyfshöfða. Synti Steingrímur með björgunarhring til piltsins en síðan voru þeir dregnir að skipshlið og teknir um borð.
Haustið 1978 tók son Steingríms fyrir borð með síldarnót og þá bjargaði faðir hans honum á sama hátt. Steingrímur var sæmdur afreksbjörgunarverðlaunum fyrir þessi björgunarafrek á Sjómannadaginn í Reykjavík 1981.
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.1.2009 | 20:06
Enginn mannskaði varð á sjó 2008
Einhver gleðilegasta frétt sem sem ég hef lesið og heyrt á nýbyrjuðu ári er að enginn mannskaði varð á sjó á árinu 2008. Telja menn að það þurfi jafnvel að fara allt aftur á landnámsöld til að finna slysalaust ár á sjó. Þetta er árangur margra manna og kvenna sem í tugi ára hafa unnið að slysavörnum sjómanna. Gaman væri að taka saman í grein hvernig unnið hefur verið markvist að fækkun dauðaslysa sjómanna. Þar hafa margir komið að og væri því fróðlegt að taka það saman.
En þó dauðaslysum hafi fækkað hefur því miður ekki öðrum slysum á sjó fækkað að sama skapi, þar er því verk að vinna.
Á aðalfundi SVFÍ að Laugum , sumarið 1981 kastaði Sigrún Sigurðardóttir fram þessari vísu:
Breyta, laga, byggja fleira,
bætum okkar starf.
Vaka, starfa, vinna meira,
vilji er allt sem þarf.
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.1.2009 | 23:28
Trjámaðkur og tréæta í tréskipum
Trjámaðkur og tréæta í tréskipum.
Varðar öryggismál sjómanna.
Nokkuð hefur verið um það á síðustu árum að tréskip sökkvi við bryggju og reyndar einnig úti á rúmsjó. Þegar það gerist í höfnum er auðvelt að rannsaka og finna út ástæður þess að skipið sökk, en ef það sekkur úti á rúmsjó er erfiðara um vik. Dæmi eru um að tréskip hafa sokkið eða verið við það að sökkva vegna þess að þau hafa verið maðk- og/eða tréætuétin. Man ég eftir nokkrum tilfellum frá því ég byrjaði að vinna við skipaskoðun.
En þurfum við að hafa einhverjar áhyggjur af þessum trjámaðki og tréætum og er eitthvað eftir af tréskipum við Íslandsstrendur ?. Á íslenskri skipaskrá eru í dag 218 skip smíðuð úr eik eða furu. Þessi skip eru af ýmsum stærðum og eru þannig skráð eftir notkunartegund í skipaskrá. Fiskiskip 140, skemmtibátar 54, farþegabátar 10, farþega og fiskiskip 3, lóðsbátar 2, og eitt víkingaskip. Þessi upptalning sýnir að enn er töluverður fjöldi tréskipa í notkun við strendur landsins.
Trjámaðkur er í raun ekki maðkur, heldur skeldýr, eða samloka (Mollusca) með litla skel á framendanum sem hefur ummyndast og nýtist sem bor og borar hann sig inní tré. Sama er að segja um tréætuna. Hún er heldur ekki krabbi, en af ættkvíslinni jafnfætlur (Isopoda). Munur á skemmdum eftir maðkinn og tréætuna, (staurakrabba) er sá, að maðkurinn leynist inn í viðnum og holar hann að innan, en jafnfætlan og skemmdirnar eftir hana eru alltaf sjáanlegar á yfirborði.
Á síðustu árum hafa trjámaðkur og tréæta fundist í trébátum jafnvel á stöðum þar sem þessi kvikindi hafa ekki sést í áratugi. Skýringin gæti verið sú að hér áður fyrr var öllu skolpi dælt í hafnirnar eins og t.d. sápu, klór, vítissóta og fl. Þessi efni hafa sennilega drepið kvikindin eða haldið þeim í skefjum, allavega var lítið um að þau næðu að komast í tréskipin. Þegar aftur á móti kröfur voru gerðar um að koma skolpi út úr höfnunum og skolphreinsistöðvar komu til sögunar, og hafnir urðu aftur hreinar fór að bera meira á trjámaðki og tréætu í það minsta í sumum höfnum. Það er því nauðsynlegt eins og reyndar alltaf hefur verið að hugsað sé um að taka upp og hreinsa tréskipin og mála árlega, annars mega menn eiga von á að skip þeirra verði þessum kvikindum að bráð. Trjámaðkurinn og tréætan geta gjöreyðilagt botn á tréskipum á stuttum tíma ef ekkert er að gert. Ekki nægir að tjarga eða bera blakkfernis á botninn eingöngu, þó það hjálpi mikið, heldur verður að bera sérstakan botnfarva yfir tjöruna eða grunninn.
Maðkurinn er örlítill þegar hann kemur inn í viðinn og gatið út úr viðnum verður aldrei stærra en það er í byrjun þegar maðkurinn kemur í hann. Hins vegar heldur maðkurinn áfram að stækka inn í viðnum meðan hann lifir, sem er á bilinu 15 til 18 mánuðir. Hann fer aldrei út úr viðnum né inn í hólf eftir annan maðk. Trjámaðkurinn er þar af leiðandi mun alvarlegra vandamál en tréætan, þar sem erfitt getur verið að sjá götin eftir hann í viðnum, þó svo viðurinn sé kannski orðinn sem næst holur að innan.
Trjámaðkurinn lifir ekki í fersku vatni og hann verður að hafa opna leið út í sjóinn til að þrífast. Þetta litla auga sem hann gerir þegar hann kemur í viðinn opnar leið fyrir sjó inn í viðinn. Ef málað er yfir gatið eða því lokað á annan hátt, drepst trjámaðkurinn. Holrúmið sem hann hefur gert verður þó að sjálfsögðu áfram til staðar, en það getur þó verið betra að láta það vera óhreyft, en að sponsa viðinn eða höggva skemmdina úr, ef holrúmið er ekki því stærra. Stærð á holrúmi eftir trjámaðk má kanna með því að reka vír eða annað sambærilegt inn í gatið sem trjámaðkurinn skilur eftir sig.
Gamall skipaeftirlitsmaður sagði mér að þegar maðkétnir bátar voru teknir á land á sumrin og þeir stóðu í heitu veðri, þá kom hvítur vökvi út úr götunum eftir trjámaðkinn. Þetta gerist þegar trjámaðkurinn drepst inni í viðnum. þetta var kallað að báturinn gréti mjólk.
Tréætan (staurakrabbi) er vel þekkt í íslenskum trébryggjum. Hún lifir á mörkum flóðs og fjöru. Tréætan sem finnst oftast upp undir skörum í bátsskrokkum, er jafnfætla (Isopoda), sem borar sig inn í tréð. Hún verður um 6 mm löng, og 1-2 mm í þvermál og í flokkum svo þéttum að veggirnir á milli þeirra eru aðeins brot úr mm að þykkt og skolast því létt í burtu, en önnur kynslóð af þessari jafnfætlu kemur í staðinn, ef ekkert er að gert. Til að forðast skemmdir af völdum trjámaðks og tréætu er nauðsynlegt að láta útsúð tréskipa aldrei vera bera, heldur bera á hann viðurkenndan botnfarva.
Myndir koma síðar
kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt 12.1.2009 kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.1.2009 | 18:29
Í Álsey 1993
Myndina tók vinur minn Sigurgeir Jónasson ljósmyndari í júli 1993 og sendi okkur hana með jólakori. Tfv. Sigurður Óskarsson, Jón Bjarni Hjartarson, Sigurbjörg Óskarsdóttir, Harpa Sigmarsdóttir, Sigmar Þór , Kolbrún Óskarsdóttir, og Soffía Sigurðardóttir. Farið var í þessa ferð á Þyt VE og veiddir nokkrir fiskar í soðið handa Álseyingum og er Siggi með fiskinn í plastpokanum sem hann heldur á.
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.1.2009 | 23:07
Sigarettuhósti
Sumar bækur opnar maður sjaldan, þessi úrklippa frá árinu 1971 datt úr einni bókinni minni um daginn þegar ég var að leita að upplýsingum sem mig vantaði. Á þessum árum var mikill áróður fyrir því að menn hættu að reykja en fáir fóru eftir því. En margir eru nú að reyna að hætta reykingum, ég vona að þeim gangi vel að losna við rettuna.
kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.1.2009 | 22:51
Myndirnar eru teknar í Bjarnaey
T.f.v Sigfús Johnsen, Hlöðver Jonhsen (Súlli) og Lárus (Lalli ) Að kippa lunda norður á ofangjafarnesi, Elliðaey í baksýn af sumum talin fallegasta úteyjan eða það fullyrða nokkrir vinir mínir sem ég ber mikið traust til . Mynd 2. Sigfús og Lalli með lundaháfa.
Þvottadagur í Bjarnarey tau á snúrum.
kær kveðja SÞS
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.1.2009 | 22:59
Þeir unnu að hafnargerð í Vestmannaeyjum 1960 - 1961
Þessir menn unnu að hafnargerð við Friðarhöfn 1960 - 1961 t.f.v. Ástþór Ísleifsson, Elías Gunnlaugsson Gjábakka, Bergsteinn Jónasson Múla, Oddur Sigurðsson Dal, Þórarinn Ögmundur Eiríksson Dvergasteini, ( Sveinn Þorsteinsson með hallamálið ég er ekki viss á þessu nafni, gaman væri að fá nafnið ef einhver þekkir hann,) Emil Magnússon Sjónarhól, Ragnar Guðnason, Gunnar ????, Arnar Sigurðsson ( var oft kallaður Addi Sandari en hann var frá Hellisandi)
Mikil gróska var í hafnargerð í Vestmannaeyjum á þessum tíma.
Kær kveðja og gleðilegt ár. SÞS
Bloggar | Breytt 8.1.2009 kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Upplýsingar frá Vigni Eggertsyni
Maðurinn til vinstri er, Eggert Pálsson. Fæddur á Fit undir Eyjafjöllum 19 -10 - 1916 D: 2 - 1 - 2000. bóndi á Núpi Eyjafjöllum. Flutti til Eyja 1953 og keypti þá Faxastíg 12. Vann lengi í steipustöðini og rörsteypuni, var verkstjóri þar síðustu árin sem bærinn átti þessi fyrirtæki. Flutti til Reykjavíkur gosnóttina, endaði starfsárin sem póstur í R.V.K
Maðurinn til hægri, Stefán Valdasson Bröttugötu 6, húsið sem er fyrir ofan rörsteypuna á myndini(dökka) var í steypustöðinni janf mörg ár og Eggert. Bróðir Sigga Valds á Vallagötuni og Ánra Valda (Gösla) og tengdababbi Agnas Ángantírssonar sem var yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum.