Þeir unnu í gamla daga við útflutning á fiski

Myndin er tekinn 1940

 

 

Myndin er tekin um 1940 líklega á Básaskersbryggu þegar fiskútflutningur frá Vestmannaeyjum til Bretlands stóð sem hæðst.

  Mennirnir eru t.f.v; Tryggvi í Völundi, Jón á Horninu með hatt, Bogi í Sandprýði, Hannes á Hæli, Magnús á Aðalbóli (Dengsi), Sigurður Margeirsson og Halli frá Pétursborg.

Sjálfur man ég eftir flest öllum þessum mönnum.

Kær kveðja SÞS


Neyðarnótin Hjálp endurbætt og prófuð

Neyðarrnótin Hjálp hefur nú verið endurbætt. Hún var prófuð í Slysavarnarskóla sjómanna í síðustu viku með góðum árangri að sögn Hilmars Snorrasonar og félaga í Slysavarnarskólanum. Hún hefur fengið viðurkenningu sem björgunartæki til að ná mönnum úr sjó frá Siglingastofnun.

Neyðarnótin Hjálp 1Neyðarnótin Hjálp 2

Neyðarnótin Hjálp prófuð í Slysavarnarskóla sjómanna 11. mars 2009

Neyðarnótin Hjálp 3Neyðarnótin Hjálp 4

Neyðararrnótin Hjálp heitir nýjasta björgunartækið til að ná mönnum úr sjó, hún var sett á markað 1996. Nótin er ætluð til að bjarga mönnum úr sjó og vötnum og kemur að gagni þó sá sem bjarga á sé meðvitundarlaus. Kristján Magnússon er höfundur nótarinnar og framleiðandi. Búið var að vinna að þróun nótarinnar í 10 ár þegar hún kom á markað, og enn hefur Kristján gert lagfæringar á Neyðarnótinni Hjálp. Meðal annars sett stífara flot sem er sjálflýsandi og heldur nótinni betur opinni.

Neyðarnótin Hjálp 5 HÖ

Þykir þetta tæki byltingarkennt. neyðarnótin Hjálp virkar þannig að menn sem falla í sjó eða vatn eru fiskaðir upp hvort heldur þeir eru með eða án meðvitundar. Aðalkostur nótarinnar er sá að menn eru teknir upp í láréttri stellingu, sem er einkar mikilvægt þegar um ofkælingu er að ræða.

Meðfylgjandi myndir segja meira en mörg orð.

Hér er mynd af hönnuði Kristjáni Magnússyni með kassana sem geyma nótina Hjálp.

 

 

Neyðarnótin Hjálp 5 Sæbjörg

 

 

Myndin er tekinn þegar prófanir fóru fram um borð  í Sæbjörgu.

 

 

 

 

Kær kveðja SÞS


Sjöstjörnu VE 92 sökkt við Eyjar

Sjöstjörnu VE sökktSjöstjörnu VE sökkt 1

Myndirnar tók ég þegar Sjöstjörnu VE 92 var sökkt norðan við Heimaey. Félagar í Félagi áhugamanna um öryggismál sjómanna sökktu bátnum til að gera tilraunir með losunar- og sjósetningarbúnað. Mikill áhugi var í Vestmannaeyjum á þessum árunum 1970 til 2000 til að bæta öryggi sjómanna, enda höfðu á þessum árum margir sjómenn frá Vestmannaeyjum látið lífið í sjóslysum. Þá var stofnað þetta félag sem fékk nafnið Félag áhugamanna um öryggismál sjómanna. Í félaginu voru 18 menn sem allir höfðu brennandi áhuga á þessu verkefni og stóðu fyrir mörgum tilraunum með ýmsan öryggisbúnað sem nú hefur verið lögleiddur.

kær kveðja SÞS


Bryggja við Vík í Mýrdal

Bryggja við Vík

 

Höfn í Vík í Mýrdal.

Hér áður fyr var oft rætt um að það vantaði fleiri hafnir við suðurstönd Íslands, kom þá oft til álita höfn við Dýrhólaós, Vík í Mýrdal og Þykkvibæ. Á sínum tíma var sérstök nefnd starfandi sem átti að kanna möguleika á nýju hafnarstæði en ekki er vitað hvað út úr þeirri nefnd kom.

Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1978 er teikning af hafnarmannvirkjum við Vík í Mýrdal dagsett í september 1921 og undirrituð af Torvald Krabbe þáverandi vitamálastjóra.

Hér er ekki um lokaða höfn að ræða heldur garð og bryggju, þar sem skip á stærð við Skaftfelling gamla gat lagst við bryggju. Þarna hefði verið hægt að skipa upp vörum og lítil fiskiskip getað lagt upp afla sinn. Þessi fyrirhugaða bryggja hefði verið staðsett nokkru vestan við sjálfa Víkurbyggð þ.e.a.s. við svonefndan Bás.

 Unnið úr Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1978

Kær kveðja SÞS

 


Gellupeyjar í Eyjum

Gellupeyjar í Eyjum

 

 

 

 

Gellupeyjar með gelluvagna.

Tfv: Jón Magnússon, Björn Friðriksson, Birgir Þór Leifsson, Stefán Pálsson, Kristmann Ómarsson 

 


Þyrlusveit Landhelgisgæslunar er lífsnauðsynleg

  Niðurskurður í þyrlusveit Landhelgisgæslunar eru sannarlega váleg tíðindi, eftirfarandi sem ég hef tekið saman snýr eingöngu að öryggi  og björgun sjómanna og ætti að fá fólk til að hugsa um það mikilvæga hlutverk sem Landhelgisgæslan hefur gagnvart öryggi þeirra. Við skulum hafa það í huga að þetta er eingöngu einn þáttur í hennar í starfsemini.  LHG Sinnir einnig mjög stóru hlutverki í sjúkra og björgunarstörfum á landi.    

LandhelgisgæslanPUMA TF-LÍF PÚMA TF-LÍF

Þegar fækkun dauðaslysa á sjó ber á góma kemur fyrst upp í hugann Landhelgisgæslan, hún mun eiga stóran þátt í að bjarga sjómönnum frá alvarlegum slysum og dauða, hún hefur haft á að skipa góðum sjómönnum, flugmönnum og flugliðum. Hennar  þyrlusveit hefur unnið ótrúleg björgunarafrek, og hefur hróður þyrluáhafna aukist til muna eftir að LHG fékk stærri og kraftmeiri þyrlur eins TF LÍF, en hún kom til landsins 23 júní 1995.

þyrlusveit á sjómannadaginn 1994 II

 Í samantekt sem ég fékk hjá flugdeild LHG kemur fram að frá árunum 1999 til 2008 eða í 10 ár hafa þyrlurnar bjargað 203 sjómönnum úr sjó eða frá skipum og er þá með taldir þeir sem sóttir hafa verið veikir eða slasaðir um borð í skip á hafi úti.

Þyrlusveitir LHG hafa því bjargað að meðaltali 23,3 mönnum á ári síðustu 10 árin. Það var stórt gæfuspor þegar ákveðið var að kaupa  nýju Puma þyrluna sem hefur sannað gildi svo um munar. TF LÍF og áhöfn hennar hefur bjargað hundruðum sjómanna á undanförnum árum.

Myndin er tekin á Sjómannadaginn 1994 af TF-SIF

Þyrlan TF LÍF bjargaði einu og sömu vikuna 5. til 10. mars 1997 hvorki meira né minna en 39 sjómönnum af þremur skipum sem voru: Flutningaskipið Vikartindur sem strandaði við Þjórsárósa þan 5 mars 1997. Þar bjargaði Þyrlan 19 mönnum af skipinu í slæmu veðri 8-9 vindstigum og gekk á með hagléli hvössum vindhviðum og  mikilli ölduhæð. Svo slæmt var veðrið og skyggni að björgunarmenn í landi sáu ekki þegar skipverjar voru hífðir frá skipinu þótt skipið væri aðeins 100 til 150 metra frá landi. 

Áhöfn TF LÍF

Flutningaskipið Dísarfelli sem fórst 9. mars 1997 er það var statt 100 sjómílur SA af Hornafirði í kolvitlausu veðri  og 8 til 10 metra ölduhæð. Þar var 10 sjómönnum bjargað en tveir menn fórust. Mennirnir höfðu þá verið í sjónum innan um fljótandi gáma, brak og olíubrák í tvo tíma þegar þyrlan kom þeim til bjargar, en þeir höfðu klæðst björgunarbúningum rétt áður en skipið fórst. 

 Þann 10 mars 1997 bjargaði TF LÍF  tíu manna áhöfn netabátsins Þorsteins GK þegar skipið rak vélarvana að landi undir Krýsuvíkurbergi, þar sem það strandaði upp í klettunum. Rétt eftir að björgun var lokið standaði skipið og eiðilagðist á strandstað

Áhöfn TF-LÍF sem bjargaði áhöfn á Dísarfelli. Tfv; Benóný Ásgrímsson Flugstjóri, Auðunn Kristinsson stýrimaður og sigmaður, Hilmar Þórarinsson flugvirki og spilmaður, Hermann Sigurðsson flugmaður, Óskar Einarsson læknir.

Þótt ég hafi hér að ofan nefnt örfáar bjarganir sem framkvæmdar voru á TF-LÍf, þá hefur ekki síður mörgum verið bjargað með öðrum þyrlum LHG.

þyrlusveit á sjómannadaginn 1994

Þann 14. Mars 1987 strandaði Barðinn GK norðurundir Dritvík á Snæfellsnesi þar sem hann skorðaðist milli klettana og hallaði 70 til 80° á stjórnborða. Skipbrotsmenn voru allir í þvögu inni í kortaklefa sem er inn af stýrishúsi. Stýrishúsið var opið og gekk sjór þar í gegn og voru mennirnir meira og minna í sjó.

Ekki reyndist mögulegt að bjarga mönnunum frá landi þó skipið væri mjög stutt frá björgunarmönnum sem komnir voru á strandstað.

Áhöfn TF SIF

Þegar Þyrlan TF- SIF kom á vetfang sást engin hreyfing á mönnum um borð enda gaf sjó yfir allt skipið. Eftir nokkra stund sáust menn í stýrishúsi Barðans GK.  Þrátt fyrir erfiðar aðstæður tókst áhöfn þyrlunnar að slaka línu niður að brúardyrum og þannig hífði áhöfn þyrlunnar mennina upp í þyrluna einn í einu. þarna var allri áhöfn skipsins  9 mönnum bjargað úr bráðum lífsháska, þegar ekkert annað gat komið þeim til hjálpar.

Barðinn GK 475 á strandstað

Þetta eru dæmi um afrek starfsmanna Landhelgisgæslunnar, það eru ekki fá mannslíf sem þeir  hafa bjargað, og oft á tíðum sett sig í lífshættu til þess.

Menn skulu hafa það í huga að björgunarstörf eru oft unnin við mjög erfiðar aðstæður og eru því oft á tíðum mjög hættuleg. Það er því rétt að minnast þess að LHG hefur misst 10 starfsmenn frá 1960 þar af fjóra í flugslysi í nóvember 1983 þegar Þyrlan TF-RÁN fórst í Jökulfjörðum og með henni fjórir menn. Sex hafa látist við skyldustörf á skipunum. Þá má einnig minnast þeirra 12 sjómanna sem fórust með vitaskipinu Hermóði 1959 en skipið hafði á þessum tíma verið leigt til að sinna landhelgisstörfum. 

Ég er ekki í vafa um að LHG og þyrlusveit hennar á mjög stóran þátt í að dauðaslysum á sjómönnum hefur fækkað á síðustu 20 til 30 árum.

Barðinn GK 475 á strandstað og TF-SIF við björgun. Myndina tók Stefán Böðvarsson Hellissandi

Kær kveðja SÞS


Síðutogarinn Bjarnarey VE 11

Bjarnarey VE og Elliðaey VE Einu sinni var

Þeir voru glæsilegir þessir gömlu síðutogarar. Hér á myndinni er togarinn Bjarnarey VE 11 og í fjarska má sjá Elliðaey VE- 10  sigla í gagnstæða átt. Þetta eru vel gerð mynd af tveim togurum sem gerðir voru út frá Vestmannaeyjam í gamla daga.

Bjarnarey VE  í höfn

 

 

 

 

 

 

 

 Bjarnarey VE - 10

Elliðaey í höfn

 

 

 

 

 

 

Ellíðaey VE - 11

 

 

Kær kveðja SÞS


Pétur Steingrimsson Lögga

Pétur á sjó

 

 

 

 

 

 

 

   Pétur Steingrímsson Lögga er hér um borð í Sæfaxa VE. En myndin er tekin þegar hann sem peyji er að fara í sína fyrstu sjóferð sumarið 1967. Það var vinsælt hér áður fyr að eyjapeyjar fengu að fara á sjó með bátum frá Eyjum. Pétur var á sjó áður enn hann gekk í lögregluna, alla vega vorum við saman á Hejólfi um nokkurn tíma.

 

'Eg færi hér upp athugasemd sem Pétur Steingrímsson  gerði hér að neðan við þessa mynd, takk fyrir þetta Pétur

Þetta rifjar upp skemmtilegan tíma.

Þessi mynd kom með sögu sem ég skrifaði í Sjómannadagsblaðið þegar þú varst ritstjóri. Sagan var um fyrstu sjóferðina mína og var hún farin á Sæfaxa VE-25, með þeim Lalla og Dóra. Ég man enn í dag eftir því hvað ég var sjóveikur í þessum túr þá 10 ára peyji. 

Ég get sagt þér það Simmi að ég var til sjós í 10 ár, byrjaði 17 ára og alltaf var ég drullu sjóveikur ef eitthvað var stoppað í landi. Eina síldarvertíðina, (að hausti) þegar ég var á Kristbjörgu VE-70 með Sveini Hjörleifssyni þá voru meira og minna brælur allan tímann og þá náði ég að léttast um 15 kíló, gat bara borðað í landi.

Fyrir þessa vertíð man ég eftir því að karlinn var að losa sig við nokkur hross og var þeim slátrað, stór hluti kjötsins var saltaður í tunnur og komu þrjár af þeim um borð í Kristbjörgina. Kokkurinn sem var um borð var eldri maður frá Þórshöfn á Langanesi en hafði búið í Eyjum í mörg ár og eins og karlinn, var hann mikill hrossakjötsmaður og vildi eins og hann helst hafa hrossakjöt í matinn annan hvern dag. Mér verður enn bumbult, bara af því að finna lyktina af soðnu, feitu og söltuðu hrossakjöti.

Ómar Kristmanns. var stýrimaður á Kristbjörginni þetta haustið, alveg er ég viss um að hann man eftir hrossakjötsátvertíðinni.

Kveðja.

Pétur Steingríms.

Kær kveðja SÞS


Línuuppsetnig í Eyjum, einu sinni var.

Snemma byrjað að vinna

 

   Hér áður fyrr var það algengt að  fjölskyldan öll vann við uppsetningu á línu, ásamt því að hnýta öngla á tauma fyrir útgerðarmenn í Vestmannaeyjum.

Þessi  systkini kunna auðsjáanlega vel til verka en þau eru að setja upp línu. Foreldrar þeirra voru Guðmundur Kristjánsson og Sigríður Kristjánsdóttir, bæði látinn.

T.f. v,: Rannveig Guðmundsdóttir er þarna að splæsa línuna saman ekki allar stelpur sem kunna það, Guðný Guðmundssóttir og bróðir þeirra Grétar Guðni Guðmundsson. Bak við þau má sjá stokktré og önglabúnt.

 

 

Guðmundur og Sigríður og fjölskSigríður með Færeyja stelpum

Sigríður Kristjánsdóttir Guðmundur Kristjánsson ásamt börnum sínum t.f.v Kristján Sigurður, Guðný, Helga, Guðbjörg, Rannveig Ólena og Grétar Guðni.

Á seinni myndinni er Sigríður með fríðum hóp færeyskra kvenna sem unnu í Vinnslustöðinni 1956. En allar þessar stúlkur voru í fæði hjá henni þennan vetur. Sigríður seldi fæði í mörg ár og var það kallað að taka kostgangara. Guðmundur Kristjánsson keyrði lengi flugrútuna sem fór frá Skólaveg 1 og upp á flugvöll í Eyjum. Ég kynntist Guðmundi er við unnum saman sem beitumenn á Freyju VE 260, hann var góður kall.     

Þessar myndir eru úr Sjómannadagsblöðum Vestmannaeyja 1996 og 1997.

kær kveðja SÞS


Eyjastelpur í reiptogi við skipstjóra 1955

Eyjastelpurnar 

Friðrik Jesson tók margar góðar myndir hér áður fyr, þessa mynd tók hann á Sjómannadaginn árið 1955. Þessar stelpur höfðu þá lokið reiptógi við skipatjóra á Stakkagerðistúninu í Vestmannaeyjum.

 

 

 

 

 Ekki er vitað hvernig úrslit fóru en þær stelpur sem tóku þátt í reiptoginu eru hér á myndinni t.f.v. efri röð; Rósa Guðmundsdóttir, Ásta Þórarinsdóttir, Elísabet Sigurðardóttir, Erla Eiríksdóttir og Ágústa Sveinsdóttir.  Fremri röð t.f.v.; Anna Erlendsdóttir, María Björnsdóttir, Una Þ. Elíasdóttir, Margrét Pétursdóttir, Margrét Sigurjónsdóttir og Anna Halldórsdóttir. Nöfnin á krökkunum sem standa þarna fyrir aftan t.f.v; Gerður Sigurðrdóttir Þrúðvang, Elías Þorsteinsson Gunnarshólma og Geir Ólafson ( Geir Vippa) því miður vanta nöfn á hin börnin.

Kær kveðja

Kær kveðja


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband