29.9.2010 | 10:26
Sjómenn og fiskverkafólk skapa mikið verðmæti í þjóðarbúið
Aflaverðmæti íslenskra skipa nam tæpum 68 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2010 samanborið við rúma 54 milljarða á sama tímabili 2009. Aflaverðmæti hefur því aukist um rúma 13 milljarða eða 24,7% á milli ára.
Útgerðarmenn, sjómenn og fiskverkafólk skapa mikið verðmæti fyrir íslenskt þjóðfélag þó það virðist ekki hafa verið metið á síðustu árum. Allt virðist t.d. gert til að gera hlut sjómanna sem minstann, þeir fá ekki einu sinni að hafa Sjómannadaginn í friði, hann er skírður upp og er nú uppnefndur Hátíð hafsins eða Hafnardagar. Sjómannaskólinn fær ekki að halda nafninu sínu er skírður upp og heitir nú Tækniskólinn. Allt er þetta gert með samþykki stæðstu sjómannafélaga landsins svo furðulegt sem það er nú. Ég gæti nefnt margt fleira sem gert hefur verið til að gera sem minnst úr starfi sjómanna en læt þetta næja að sinni.
Þessi góða jákvæða frétt sýnir okkur hvað Sjómenn og fiskverkafólk er mikilvægt fyrir íslenskt þjóðfélag. Þess vegna skulum við virða þessar starfsstéttir, þær eiga það skilið.
![]() |
Aflaverðmæti eykst um 24,7% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.9.2010 | 23:20
Tökum Vopnfirðinga til fyrirmyndar
Vinavika stendur nú yfir á Vopnafirði og hefur vakið mikla athygli íbúa. Tilgangurinn er að minna á hin sönnu verðmæti lífsins vináttuna og kærleikann, en hugmyndin kviknaði í æskulýðsfélagi Hofsprestakalls. Krakkarnir hafa meðal annars komið íbúum á óvart með hjörtum og vinalegum kveðjum á bílum og húsum.
Mikið er gott að fá svona eina góða jákvæða frétt í lok dagsins. Við mættum taka þá á Vopnafirði til fyrirmyndar.
![]() |
Kærleikur og vinátta á Vopnafirði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.9.2010 | 20:00
Vestmannabraut gömul mynd
Vestmannabraut líklega tekin um 1960 snjór yfir öllu eða slabb á götunni.
Það er kannski merki um tíðaranda þessara ára að á myndinni eru svo til eingöngu konur á ferð um bæinn. Þetta var á þeim árum sem konur voru margar hverjar heimavinnandi húsmæður.
Hér er enn eldri myndir af Vestmannabraut
Bloggar | Breytt 29.9.2010 kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.9.2010 | 16:57
Niðri í vélarrúmi á Leó VE 400
Sigurjón Óskarsson skipstjóri og útgerðarmaður, var áður en hann fór í Stýrimannaskólann nokkur ár vélstjóri á Leó VE, myndin er tekin niðri í Vélarrúmi á Leó.
Leó VE 400 (TFSE) var stálskip byggður í Brandinburg A. - Þýskalandi 1959 hann var með 400 hestafla MWM. ´Dísel aðalvél og var 94 br. tonn
Myndirnar á Ingibergur Óskarsson
Leó VE 400 nýmálaður í dokk í Grímsbý
Bloggar | Breytt 5.10.2010 kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2010 | 20:40
Óskar Matthíasson skipstjóri.
Skemmtileg mynd úr skipstjóraklefanum á Leó VE 400 en þar voru loftskeytatækin staðsett á þessum bátum.
Haförn Leó kallar ertu að hlusta Ingólfur.
Þarna er Óskar Matt skipstjóri á Leó VE 400 í talstöðinni og gæti alveg verið að kalla í bróðir sinn Ingólf Matt á Haförn VE. Takið eftir flottum gardínum við kýraugað.
Þessi talstöð var nokkuð öflug og var auðveldlega hægt að kalla í Vestmannaeyjaradíó úr Norðursjónum.
Viðbótarupplýsingar frá vini mínum Tóta rafvirkja; Þessi talstöð er dönsk og var af Pedersen gerð,þessar stöðvar báru höfuð og herðar yfir aðrar stöðvar af sama styrkleika og eins og þú segir þá voru þær ótrúlega langdrægar kv þs
Myndirnar á Ingibergur Óskarsson
Bloggar | Breytt 5.10.2010 kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.9.2010 | 22:58
Gömul mynd frá Þjóðhátíð
Myndin er tekin inn í Herjólfsdal á þjóðhátíð.
Á myndinni fremst t.f.v. Er Þóra Sigurjónsdóttir, óþekktur, Valgerður Jóna Pálsdóttir, Bogga og Jóhann Krismundsson, Þórunn Óskarsdóttir ,og frú og Halldór Jónsson maður Valgerðar.
Mér sýnist þarna legra frá vera Njáll Andersen standa þarna við barnakerru og lenra til hægri Júlli á Hlíðarenda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2010 | 21:51
Áhöfnin á Leó VE 400 á vetrarvertíð líklega 1965 eða 1966
Þessi mynd er tekin á vetrarvertíð líklega 1965 eða 1966. Þarna eru ekki neinir smáþorskar á ferð. Það sem mér þykir merkilegast við þessa mynd er að þarna virðist gefinn tími til myndatöku þó í trossunni sé en óúrgreiddur fiskur. Þarna hlýtur að hafa slitnað trossan og þess vegna gefist þetta tækifæri að mynda. Óskar Matthíasson skipstjóri á Leó VE 400 frændi minn hefði ekki samþykkt það að hætta að draga til að taka mynd, það er öruggt.
Þarna má sjá t.f.v: Sigurón Óskarsson, Sigurgeir Jóhannsson kokkur, Sigmar Þór Sveinbjörnsson, Sigurður, vantar nafn, Kristján Valur Óskarsson, Jón Guðmundsson Vossabæ, Gísli Sigmarsson, Elvar Andresson Vatnsdal, Brandur Valtýrsson.
Sömu menn, annað sjónarhörn.
Tvíklikkið á myndirnar til að stækka þær.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2010 | 18:19
Heimaklettur
Margir hafa gert ljóð um Heimaklett, hér er ljóð um þetta fallega fjall eftirr Kolbrúnu Hörpu Kolbeinsdóttir
Heimaklettur
Heimaklettur úr hafi rís,
dýrð sé þér, lof og prís.
Gyllir feld þinn sólarglóð,
skrýðist fegurst blómaslóð.
Stendur vörð þinn, nótt og dag,
syngja fuglar fagurt lag,
þeir eiga lífið, að launa þér,
sem að berð þá í faðmi þér.
Þú vörður Eyjanna tiginn ert,
þó að aldri , þú gamall sért
mun ég ætíð minnast þín
þegar lokast augu mín.
Höfundur
Kolbrún Harpa Kolbeinsdóttir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.9.2010 | 10:14
Gömul vetrarmynd frá Eyjum
Gömul kuldaleg vetrarmynd af hluta Vestmannaeyjabæjar tekin frá Sólbakka. Heimaklettur í baksýn og auðsjáanlega er þarna snjókoma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.9.2010 | 17:14
Gúmmíbjörgunarbáturinn hefur bjargað 1239 mönnum frá 1952
Gúmmíbjörgunarbáturinn er með bestu björgunartækjum sem fundin hafa verið upp, og ætluð til að bjargar sjómönnum í neyð. ( Var fyrst hugsaður til að bjarga flugáhöfnum og farþegum flugvéla). Það er merkilegt hvað það kostaði mikla vinnu og þras að koma þessu björgunartæki um borð í íslenska flotann, það hefur reyndar alltaf verið þannig að erfitt hefur reynst að koma nýjum neyðarbúnaði í skip. Alltaf hafa verið einhverjir sem hafa barist og það hatrammlega á móti nýjum öryggisbúnaði sem reynt er að koma um borð í skip, þó augljóst sé að hann geti bjargað mannslífum. Aðra sögu er að segja um önnur tæki og tól sem þarf að fá eða endurnýja í skipum.. En ég ætla í þetta sinn að halda mig við gúmmíbjörgunarbátinn.
Upphaf gúmmíbjörgunarbáta í Vestmannaeyjum.
Á fundi í skipstjóra og stýrimannafélaginu verðandi hinn 9. janúar 1945 urðu umræður um öryggismál sjómanna. Talaði Sighvatur Bjarnason, þá skipstjóri á Erlingi II. VE 325 , fyrir tillögu um þau mál og líkur henni með þessum orðum: Einnig að stjórn félagsins verði falið að leitast fyrir um hvort ekki væri hægt að fá gúmmíbáta sem hver mótorbátur hefði meðferðis til öryggis. Hér er fyrst hreyft hugmyndinni um notkun gúmmíbjörgunarbáta í íslenskum fiskiskipum. Á þriðja landsþingi Slysavarnarfélags Íslands 1946 flutti Sigríður V. Magnúsdóttir fyrir hönd slysavarnardeildarinnar Eykyndils í Vestmannaeyjum tillögu um gúmmíbáta sem björgunartæki og var sú tillaga flutt oftar á sama vetvangi. Myndin er af Sighvati Bjarnasyni
Það var í vertíðarbyrjun árið 1951 sem fyrsta gúmmíbjörgunarbátnum var komið fyrir um borð í m/b Veigu VE 291 frá Vestmannaeyjum. Hann var staðsettur uppi á stýrishúsi og komið þar fyrir í trékassa.
Undanfari þess var mikil vinna og deilur við embættismenn til þess að fá leyfi til að setja þetta björgunartæki sem kallað var ýmsum nöfnum um borð í Eyjabát. Að lokum samþykkti þáverandi skipaskoðunarstjóri, Ólafur Sveinsson sem örugglega var skynsamur maður, að það mætti hafa gúmmíbjörgunarbát um borð og tók hann þar með rökum Eyjamanna eftir að hann hafði kynnt sér rök þeirra og skoðað gúmmíbjörgunarbát sem var til sölu hjá Söludeild varnaliðseigna og Kjartan Ólafsson útgerðarmaður í Vestmannaeyjum var að kaupa.
En þar með var málinu ekki lokið, nú komu sérfræðingarnir hver af öðrum og fundu þessu allt til foráttu, voru skrifaðar margar greinar um málið bæði í landsmálablöð og héraðsfréttablöð, þar sem menn deildu á Vestmannaeyinga fyrir að verja þá ákvörðun að setja þessa ,,togleðursbáta í skip sín. Eitt af rökum þeirra var að í engu öðru landi hafi þetta verið leyft. Páll Þorbjörnsson var einn af hörðustu Eyjamönnum sem tóku þátt í þessum ritdeilum. Hann svaraði þessum mönnum fullum hálsi og kom með góð rök fyrir því hvers vegna Eyjamenn vildu gúmmíbáta um borð í sín skip, það væri einfaldlega ekki hægt að koma fyrir plássfrekum flekum né stórum trébjörgunarbátum fyrir alla um borð í þessum litlu fiskibátum, þeir myndu heldur ekki gera neitt gagn.
Það er of langt mál að rekja þessa sögu sem reglulega gegnum árin endurtekur sig ef einhver kemur með nýjungar hvað varðar öryggismál sjómanna, og þá sérstaklega ef hún kemur fyrst frá Vestmannaeyjum en þaðan hafa þær flestar komið.
Eftirfarandi er bein tilvitnun í grein, tekin úr Alþýðublaðinu 16. apríl 1952 þar sem kemur fram að jafnvel besta fólk með góðan ásetning getur gert mistök eins og eftirfarandi samþykkt S.V.F.Í frá árinu 1952 ber með sér en þar samþykkti Slysavarnarþingið eftirfarandi ályktun:
Samþykkt 6. landsþings S.V.F.Í. árið 1952.
Á síðasta degi þingsins 2. apríl var málið afgreitt næstum einróma með samþykkt svohljóðandi tillögu til þingsályktunnar:
,, Sjötta landsþing Slysavarnarfélags Íslands ályktar:Samkvæmt öruggum heimildum hefur skipaskoðun ríkisins leyft að flothylki úr togleðri verði sett í fiskibáta af öllum stærðum, sem gerðir eru út frá Vestmannaeyjum, og koma flothylki þessi í stað hinna lögskipuðu skipsbáta og þeir því ekki hafðir með í sjóferðir, lengri eða skemmri.Landsþingið mótmælir þessari ráðstöfun. Í fyrsta lagi sem mjög hættulegri fyrir öryggi mannslífa á sjónum, í öðru lagi sökum þess, að flotholt sem þessi hafa í engu landi, sem kunnugt er um, fengið viðurkenningu sem örugg björgunartæki, er komið gæti í stað skipsbáta þeirra og björgunarbáta, sem krafizt er að alþjóðalögum að notaðir séu á smærri og stærri skipum. Í þessu sambandi leyfir landsþingið sér að draga það mjög í efa, að til séu heimildir fyrir því í íslenskum lögum og reglum um útbúnað skipa, er heimili eða leyfi undanþágur sem þessar, sem hér um ræðir. Skorar því landsþingið á skipaskoðun ríkisin og önnur viðkomandi stjórnvöld að nema úr gildi framangreinda stórhættulega og að áliti þingsins heimildalausa undanþágu, sem veitt hefur verið.Skipaskoðunarstjóri ræddi við slysavarnarnefnd þingsins eins og drepið er á héra að farman. Þær viðræður leiddu það í ljós að upplýsingar þær sem stjórn SVFÍ hafði gefið voru réttar: Mun skipaskoðunarstjóri hafa látið það í ljós að krafa frá samtökum útgerðarmanna og sjómönnum í Vestmannaeyjum hefði knúið sig til þess að veita undanþágu um að nota togleðursflothylki í stað skipsbáta á öllum fiskibátum þar. Enn fremur yrði þetta leyft á sams konar skipum við Faxaflóa. Hér mun engin stigsmunur gerður hvort skipið er 20 rúmlestir eða 100 rúmlestir að stærð eða meira. Nefndarmenn skildu ummæli skipaskoðunarstjóra á þann veg að þessi flothylki skyldu notuð á skipum sem stunduðu veiðar á djúpmiðum, ef til vill á Grænlandsveiðum. Þá taldi skipaskoðunarstjóri að heimilt væri að veita undanþágu sem þessa. (Leturbreyting er höfundar.)
Þannig er skrifað um þetta í Alþýðublaðinu 16. apríl 1952 þegar Vestmannaeyingar höfðu tekið þá ákvörðun að setja gúmmíbjörgunarbát um borð í sína báta.
Framhaldið vitum við. Það þurfti ekki að bíða lengi eftir að þessi fyrsti gúmmíbjörgunarbátur m/b Veigu Ve 291 bjargaði mannslífum.
Laugardaginn fyrir Páska þann 12. apríl 1952 fórst vb. Veiga sem var 24 lesta bátur á netaveiðum vestan við Eyjar, þar björguðust 6 menn úr áhöfn í umræddan gúmmíbjörgunarbát en tveir menn drukknuðu. Þetta eru fyrstu sjómennirnir sem björguðust í gúmmíbjörgunarbát við Íslands strendur.
Tæpu ári seinna eða 23. febrúar 1953 fórst Guðrún VE og með henni 5 menn en 4 komust lífs af í gúmmíbjörgunarbát. Þarna hafði á aðeins tveimur árum 10 sjómönnum frá Vestmannaeyjum verið bjargað í gúmmíbjörgunarbáta og þar með höfðu þeir sannað gildi sitt.
Þó var það ekki fyr en 8. maí 1957 eða 6 árum seinna sem Alþingi samþykkti lög um að öll íslensk skip skuli hafa gúmmíbjörgunarbáta fyrir alla áhöfnina.
Ásgeir Þ. Óskarsson, sem átti og rak Gúmmíbátaþjónustuna í Reykjavík í fjöldamörg ár og skoðaði á sínum tíma allt að 40 % af öllum gúmmíbátum á Íslandi, kom með góða gjöf til Siglingastofnunar fyrir 2 árum þ.e.a.s. möppu sem hann gaf Siglingastofnun Íslands til varðveislu. Ásgeir hefur þar látið skrá öll þau sjóslys þar sem menn hafa bjargast í gúmmíbjörgunarbáta. Þessi upptalning nær frá árinu 1952 til 2000 og kemur þar fram að 1196 sjómenn höfðu bjargast á þessu tímabili í gúmmíbjörgunarbát. Ég fékk leyfi Ásgeirs til að ljósrita öll þessi gögn, en aðalmappan er vel geymd í skjalasafni Siglingastofnun Íslands.
Eftir gögnum Rannsóknarnefndar sjóslysa, úrklippum og árbókum S.V.F Í. hafa frá árinu 2001 til dagsins í dag bjargast að minsta kosti 43 sjómenn í gúmmíbjörgunarbát, þannig að heildartalan er þá kominn í 1239 sjómenn. Þetta er ekki lítil tala þegar haft er í huga að sjómenn eru ekki svo fjölmenn starfstétt. Myndir af gúmmíbátum tók Friðrik Jesson.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson
áhugamaður um öryggismál sjómanna
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)