7.8.2010 | 16:38
Viðhorf skipasmiða til stuttu pilsanna
Á þorrablóti Austfirðinga um árið voru þeir skipasmiðir og vísnaskáld Brynjólfur Einarsson og Hafsteinn Stefánsson spurðir um viðhorf þeirra til stuttu pilsanna hjá kvenfólkinu.
Brynjólfur svaraði:
Þótt ég fyrir ærinn aldur
ætti að vera gegnum kaldur,
af ástarþrá ég ennþá smittast
allat þegar pilsin styttast.
Hafsteinn svaraði:
Þó að hylji fætur föt,
freistingin mig kvelur,
þarna er betra kálfakjöt
en Kaupfélagið selur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2010 | 22:24
Þá er velheppnaðri Þjóðhátíð lokið
Bloggar | Breytt 7.8.2010 kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2010 | 19:47
Sokkinn bátur í Njarðvíkurhöfn
Ekki færri en 3 bátar hafa sokkið í höfnum á síðastliðnum mánuði, þar af tveir í Reykjavíkurhöfn og einn í Njarðvíkurhöfn.
- Þessar myndir tók ég í dag í Njarðvíkurhöfn af einum af þessum bátum en hann heitir Stormur SH 333 sk.nr. 0586. Ekki er vitað af hverju þessi bátur hefur sokkið en hann hefur legið nokkuð lengi án þess að vera í notkun eða frá árinu 2002.
Það er alltaf hundleiðinleg sjón að sjá sokkin skip, þannig að það þarf nauðsynlega að vera meira eftirlit með þeim skipum sem ekki eru í notkun, en þau skip eru fjölmörg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.8.2010 | 21:22
Fríða og Maria Pétursdóttir
Fríða og María Pétursdóttir sitja hér á bryggjupolla á Básaskersbryggju með Maríu Pétursdóttir VE í baksýn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.8.2010 | 21:35
Verðandi sjómenn að veiðum
Myndina tók Óskar Matthíasson árið 1950 um borð í Leó VE 294 gamla Leó eins og við peyjarnir kölluðum bátinn.
Peyjarnir á myndinni heita t.f.v: Ingi Páll Karlsson en texti lendir yfir myndinni af honum, Kristján V. Óskarsson, Sigurjón Óskarsson, Matthías Óskarsson, Sigurfinnur Sigurfinnsson teiknikennari, og Sigmar Þór Sveinbjörnsson.
Allir á myndinni nema Sigurfinnur gerðu sjómennsku að ævistarfi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2010 | 17:45
Stjáni frændi að fáann
Kristján Valur 'Oskarsson fyrverandi útgerðarmaður og skipstjóri á Emmu VE 219 er ekki alveg hættur fiskveiðum. Þessi mynd náðist af honum með veiðistöng við bryggjuveiði í Friðarhöfn fyrir Þjóðhátíð. Hann hefur þarna nokkra peyja í vinnu við að húkka af aflanum og sennilega beita líka.
Það hefði verið flott frændi, að eiga svona veiðistöng í gamla daga þegar allt var full af murta í Vestmannaeyja höfn En þá þótti bara gott að vera með prik sem færið var vafið upp á endan
Myndina tók Ómar Kristmansson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.8.2010 | 11:07
Samgöngur á sjó við Vestmannaeyjar gegnum árin
Það hefur verið mikið rætt og ritað um Bakkafjöruhöfn ( Landeyjahöfn) á undanförnum mánuðum og árum, þar hafa menn haft ólíkar skoðanir á þessum framkvæmdum, það er hið besta mál að menn láti þær skoðanir ljós.
Samgöngur á sjó hafa verið umræðuefni í Vestmannaeyum í meira en hundrað ár og er fróðlegt að kynna sér þá sögu í stórum dráttum svona til samanburðar við daginn í dag.
Í bókinni Ægisdyr II. Bindi eftir Harald Guðnason segir m.a. eftirfarandi í kafla um Samgöngur við Vestmannaeyjar: ,,Samgöngur á sjó fram undir 1940.
Eyjamenn áttu lengst af við erfiðar samgöngur að búa, og er svo enn að nokkru. Aðalleiðin var upp í Landeyjasand á stórum áraskipum. Skemmsta leiðin var upp á svonefndan Tanga austast í Austurlandeyjum, fram af bænum Bakka. Þá er Eyjamenn komu suður á sjóbæi og þurftu að komast heim til Eyja var kynt bál austur á Bakkatúni, þar sem heitir Brennutótt, ef sjór var dauður. Það var merki til Eyjamanna að sækja ferðalanginn. Að Hallgeirseyjasandi var lengri leið. Leiðin ,,upp í sand´´ er um 6 sjómílur, nálægt 11 km. Landeyingar og Eyfellingar héldu uppi ferðum til Eyja í verslunarerindum, og sumir formenn héldu úti skipum sínum frá Eyjum.
En oft var ófært við hafnlausa strönd. ,, Teppur gátu orðið langar, margar vikur stundum mánuði.
Í þessum kafla lýsir svo Haraldar þróuninni næstu áratugina sem hér er of langt upp að telja.
En það hafa einnig verið hér framsýnir menn sem hafa reynt að sigrast á briminu við suðurströndina og ætla ég hér að vitna í grein í Skeggja, 29. tbl frá árinu 1919, um tilraun sem Einar Magnússon gerði það ár. Einar Magnússon var járnsmiður fæddur 31. júlí 1892 í Hvammi undir Eyjafjöllum, hann lést í Vestmannaeyjum í gassprengingu sem varð í vélsmiðju hans 25. ágúst 1932.
Brimbátur Einars Magnússonar
Nýtt bátalag. Einar Magnússon járnsmiður gerði í vetur (árið 1919) nýjan bát með spánýju lagi. Hann er ætlaður til uppskipunar við sandana og þannig útbúinn að sjór gengur ekki í hann og naumast á hann að geta ,, farið af kjölnum. Með honum á að takast að koma vörum úr landi og miklu oftar en með venjulegu aðferðinni, og fara auk þess miklu betur með fólk og farangur.
Báturinn er mjög lítill, stuttur en víður og flatbotna og sterkur vel. Ætlast er til að hann þoli högg af brimsjónum.
Hann var reyndur á mánudag í landferð og fór Einar sjálfur til að sjá hvernig báturinn færi í sjó og lætur hann vel af því.
Segist hann helst hafa kviðið fyrir að hann mundi ekki fylgja löðrinu nógu langt upp í sandinn. ,, En það var þvert á móti, hann skreið lengra upp en ég gat gert mér vonir um,, segir Einar.
Bændur sem voru við tilraunina láta hið allra besta yfir og telja bátinn besta grip.
Enginn vafi er á því að slíkir bátar þykja ómissandi við sandinn.
Það er einhver munur á að láta sauðfé ofan í lokaðan bát, eða ferja það í opnum fjörubát í gegnum brimið.
Svo er frá bátnum gengið að fólk getur farið í honum þó sjór gangi yfir hann jafnt og þétt, og jafnvel þó honum hvolfi. Er það stórmikill munur við sanda.
Einar hefur unnið þarft verk með því að smíða þennan bát og mun hann ekki vinna þar til fjár.
Grunaður er hann að eiga fleira í fórum sínum sem hann hefur ekki lokið við ennþá, en hann fer dult með. Illt er það ef hann ætlar að eyða æfi sinni yfir götugum pottum og prímus hausum en láta bestu smíðar sínar ryðga til ónýtis.
Tilvitnun í Skeggja lýkur.
Þegar fiskibátar héldu uppi samgöngum
Sjálfur man ég nokkuð langt aftur í tímann eða þegar hér voru fiskibátar sem héldu uppi samgöngum við Stokkseyri, Þorlákshöfn og Reykjavík þessir bátar hétu Gísli J. Johnsen VE 100, Vonarstjarnan VE 26, Skaftfellingur VE 33 Skógarfoss VE og fleiri bátar voru í þessum ferðum. Ég man vel eftir minni fyrstu ferð til fastalandsins þá 11 ára gamall, fór ég með Gísla Sigmarssyni frænda mínum, við fórum með Blátindi VE 21 til Þorlákshafnar mig minnir að einn fólksbíl hafi verið þversum á dekkinu yfir lestarlúgu, skipstjóri í þessari ferð var Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum.
Ekki man ég eftir neinu alvarlegu slysi á ferðum þessara báta þó auðvitað hafi þessar ferðir oft verið erfiðar og innsiglingar á Stokkseyri og Eyrarbakka ekki verið árennilegar og oft á tíðum hættulegar. Það þurfti t.d. að sæta sjávarföllum til að komast inn í þessar hafnir á þessum litlu fiskibátum.
Nokkru áður eða fyrir mitt minni varð hörmulegt slys þegar Helgi VE 333 fórst á Faxaskeri með allri áhöfn og farþegum þann 7. janúar 1950 Helgi var að koma frá Reykjavík í mjög slæmu veðri og varð fyrir vélarbilun rétt austan við Faxasker og rak báturinn upp á Skellir og Faxasker og fórst þar.
Í ágúst 1967 var gerð nýstárleg tilraun þegar fengið var svifskip af gerðinni SRN 6 sem fór fyrstu ferðina upp í sand 15. ágúst 1967. Skipið gat farið með 50 til 60 km hraða yfir hafflötinn ef veður var gott. Í skýrslu sem Jón Í Sigurðsson hafnsögumaður gerði um ferðir SRN 6 svifskipsins á þessum tíma segir orðrétt: ,, Fyrsta ferð með gjaldskylda farþega. Árið 1967 þann 16. ágúst kl.15.31 startað. Kl. 15.35 í hafnarmynni, kl. 15.37 við Klettsnef , stefna á Krosssand. Kl. 15.47 lent í Krosssandi. Farþegar fóru út á sandinn um stund. Kl. 15.57 startað, keyrt vestur sand. Kl. 16.05 á flot á leið til Vestmannaeyja, kl.16.19 í hafnarmynni kl. 16.22 lentir í Botni. Veður VSV 3 vindstig ölduhæð 0,60 m. Farþegar 29 (þar af eitt barn) áhöfn 3 menn. Myndina af loftpúðaskipinu hér að ofan tók Eiríkur Einarsson.
Þannig lýsir Jón þessari fyrstu ferð Svifskipsins með farþega upp í sand. Það tók sem sagt 12 mínútur að fara frá hafnarmynni og upp í Krosssand. Í stuttu máli sagt var skipið hér í nokkra daga og flutti farþega upp í sand og til baka eða fór kringum Eyjar og stundum að Surtsey, en 18 ágúst bilaði svifskipið og man ég að það var þó nokkra daga jafnvel vikur uppi á Nausthamarsbryggjunni.
Undirritaður var svo heppinn að komast með þessu skipi eina ferð upp í sand og mun ég seint gleyma henni. Til gamans má geta þess að meðal farþega í þessari ferð var aflakóngurinn og sægarpurinn Benóný Friðriksson venjulega kallaður Binni í Gröf og kona hans Katrín Sigurðardóttir, það var skemmtilegt að fylgjast með Binna sitjandi í farþegasætinu, manni sem vanur var að standa við stjórnvölinn er siglt var á öldum hafsins.
Þann 12. desember 1959 kom fyrsti Herjólfur að bryggju í Vestmannaeyjum og þótti skipið góð samgöngubót fyrir Eyjarnar en það sigldi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja og einnig sigldi það til Hornafjarðar. Síðustu árin hélt það uppi ferðum milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar ásamt ferðum til Reykjavíkur
Nýr Herjólfur kom 4. júli 1976 og sigldi það skip eingöngu milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, þótti það mikil samgöngubót þótt skipið hafi strax verið talið gamaldags, var t.d aðeins með eina aðalvél og eina skrúfu, það þótti samt gott sjóskip. (Elsti Herjólfur var með tvær vélar)
Þetta skip þjónaði Eyjunum vel þau 16 ár sem það var notað og gæfa fylgdi því skipi alla tíð.
Nýjasti Herjólfur sem nú heldur uppi samgöngum við Eyjar kom árið 1992, glæsilegt skip sem hefur reynst vel í alla staði nema hann er of lítill að margra mati. Allir þekkja það skip og ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það. Þetta skip er nú notað til að sigla í Landeyjahöfn, það á eftir að koma í ljós hvort skipið hentar við þær aðstæður sem þar eru.
Landeyjahöfn.
Landeyjahöfn er nú orðin að veruleika langþráðu takmarki margra manna gegnum tíðina þar með náð. Við skulum vona og biðja þess að Guð og gæfa fylgi þessari höfn og öllum þeim mannskap og skipum sem um hana fara í framtíðinni.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.8.2010 | 22:13
Mörg falleg skip að sjá á bryggjurúntinum í gær
Myndirnar hér að neðan eru af ofursnekkjunni Octopus sem er 126 metrar að lengd, til samanburðar er Herjólfur um 70 m. langur. Um borð mátti sjá tvær þyrlur og svo er víst einnig um borð tveir kafbátar ásamt mikið af öðrum búnaði.
Eigandi skipsins er Paul Allan annar stofnandi Microsoft. Menn ræddu það á bryggunni að skipið væri hingað komið til að sigla að soknum skipsflökum sem eigandi skipsins hefði áhuga á að skoða. Þetta er óneitanlega glæsilegt skip og vel búið.
Bloggar | Breytt 8.8.2010 kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2010 | 14:18
Ný Þórunn Sveinsdóttir VE í smíðum í Skagen
Ein af ástæðunum fyrir því að fara til Skagen var að skoða nýtt skip sem er þar í smíðum, þar er verið að smíða nýja Þórunni Sveinsdóttir VE fyrir ÓS ehf fjölskyldufyrirtæki Sigurjóns Óskarssonar útgerðarmans í Vestmannaeyjum. Eins og áður hefur komið fram hér á blogginu mínu var skrokkurinn smíðaður í Póllandi og síðan dreginn til Skagen í Danmörku þar sem skipið verður innréttað og sett í það vélar, spilbúnaður og öll þau tæki sem nauðsynleg eru í nýju og fullkomnu skipi. Sigurjón fór með okkur Þór tengdason um allt skipið og sýndi okkur hvern krók og kima í skipinu, það var skemmtilegt að sjá hvernig þetta á allt að vera, en þetta er auðsjáanlega allt mjög vandað sem komið er og ekki efast ég um að þegar skipið er tilbúið þá verður þetta eitt glæsilegasta skip Eyjaflotans, þó víða væri leitað. En myndir segja meira en mörg orð.
Nýja Þórunn Sveinsdóttir við bryggju í Skagen og á mynd 2 má sjá brú og mastur sem er nýtískuleg og úr áli.
Myndirnar hér að neðan eru af afturhluta á stýrishúsi þar sem eru stórit gluggar svo auðvelt er fyrir skipstjórnarmenn að fylgjast með vinnu sem fram fer á veðurþilfari skipsins. Síðan er hér mynd af öflugum afturgálganum.
Byrjað er að koma fyrir hluta af spilbúnaðinum og er Sigurjón þarna að skýra út hvernig þetta virkar þegar þetta verður komið í gagnið en öll spil í skipinu eru rafmagnsdrifin. Þá er myndin hér til hliðar af lestinni.
Myndirnar hér fyrir neðan eru af brúnni sem er stór en þar verður komið fyrir mikið af tækjum og stjórnbúnaði skipsins og stjórnbúnaði á spilkerfi.
Hér á mynd fyrir neðan er gert ráð fyrir borðsal og hluta af íbúðum á næstu mynd er vinnsludekk.
Hér fyrir ofan er einnig mynd af borðsal og hluta af íbúðum og ein mynd úr vélarrúmi.
Þessi mynd er tekin aftast við skutennu og af nafni aftast á skipinu. Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu og óskandi stenst það að skipið verði tilbúið í nóvember eða desember næstkomandi.
Til gamans set ég hér mynd af Óskari Matthíassyni og Þórunni Sveinsdóttir móður hans en skipin sem hafa haft þetta nafn eru skírð eftir henni.
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)